Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. október 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Vegna fjárlagafrumvarps ársins 2011 og áforma um samdrátt hjá sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana

 

Heilbrigðisráðherra hefur sent eftirfarandi orðsendingu til heilbrigðisstofnana varðandi fjárlagafrumvarp ársins 2011 og áform um samdrátt hjá sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana:

Frá efnahagshruninu árið 2008, hefur verið ljóst að draga þarf verulega úr ríkisútgjöldum og aðlaga úgjöld ríkisins að tekjum. Það hefur einnig legið fyrir, eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu, að frekari niðurskurður er óhjákvæmilegur árið 2011, en líkt og áður er áhersla lögð á að hlífa velferðarþjónustunni eins og kostur er.

Þær aðgerðir sem grípa þarf til eru erfiðar og sársaukafullar og þar er heilbrigðisþjónusta ekki undanskilin. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að taka eigi heilbrigðisþjónustuna til endurskoðunar með heildstæðri stefnumörkun. Standa á vörð um grunnþjónustu, þ.e. heilsugæsluna, og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Í samræmi við það er í fjárlagafrumvarpinu lagt til að dregið verði saman á sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana, en heilsugæslunni verði hlíft og leitast við að efla hana. Tillögur um samdrátt á sjúkrasviðum eru byggðar á því að í hverju heilbrigðisumdæmi verði mætt þörf íbúa á svæðinu fyrir legurými á lyflækningadeildum og jafnframt eru greiðslur fyrir rými samræmdar. Með þessu eru framlög til heilbrigðisstofnana samræmd, en það kemur mismunandi hart niður á heilbrigðisstofnunum eftir því hver staða þeirra er nú varðandi fjölda legurýma og greiðslur. Þar sem áætlaður samdráttur er mestur er ljóst að hann hefði mjög alvarleg áhrif á atvinnustig á viðkomandi svæði. Viðbrögð stofnana og almennings við fjárlagafrumvarpinu hafa því skiljanlega verið hörð.

Í ýmsum sveitarfélögum hefur verið boðað til borgarafunda um málefni heilbrigðisstofnana sem heilbrigðisráðherra hefur verið boðið að mæta á. Því miður er dagskrá ráðherra þannig háttað að hann hefur ekki tök á að sækja þessa fundi. 

Heilbrigðisráðherra hefur, ásamt starfsmönnum ráðuneytisins, átt fundi með stjórnendum heilbrigðisstofnana þar sem gerð hefur verið grein fyrir fjárlagatillögum fyrir árið 2011. Jafnframt gerði ráðherra þeim grein fyrir því að það kynni að reynast ástæða til að gera tillögur um einhverjar tilfærslur eða breytingar á fjárheimildum við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins, innan ramma heildarfjárveitinga til málaflokksins. Stjórnendum heilbrigðisstofnana var því falið að fara yfir tillögur um fjárveitingar til viðkomandi stofnana og þeir hvattir til að hafa samráð við sveitarstjórnir. Jafnframt er unnið að útfærslu tillagna innan ráðuneytisins. Í þessari vinnu verður lögð áhersla á að tryggja þá grunnheilbrigðisþjónustu sem lög um heilbrigðisþjónustu mæla fyrir um að veitt skuli í hverju heilbrigðisumdæmi.  

Farið verður yfir tillögurnar á fundum með stjórnendum heilbrigðisstofnana innan skamms. Einnig mun ráðherra eða starfsmenn ráðuneytisins eftir atvikum eiga fundi með fulltrúum sveitarfélaga og starfsmönnum heilbrigðisstofnana til að ræða tilhögun heilbrigðisþjónustu í viðkomandi heilbrigðisumdæmi í framtíðinni. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum