Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. október 2010 Utanríkisráðuneytið

ESB-viðræður í góðum gangi

Undirbúningur okkar Íslendinga fyrir viðræður um aðild að Evrópusambandinu hefur gengið það vel, að snemmsumars afréð ég að flýta formlegu upphafi viðræðnanna sjálfra. Í stað þess að byrja þær um miðjan október hófust samningaviðræðurnar formlega 27. júlí. Það var gert á  fundi Íslendinga með forystu ESB og fulltrúum allra aðildarríkja þess þar sem við lögðum fram ítarlega skriflega greinargerð um helstu viðhorf Íslendinga. Hún var áður rædd við  utanríkismálanefnd þingsins. Greinargerðinni fylgdi ég úr hlaði með munnlegum yfirlitsræðum. Þetta má allt finna á vef ráðunevtisins.

Vandaður undirbúningur

Samninganefndin er undir forystu öflugasta samningamanns Íslendinga, Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra í Brussel, sem stórþjóðir hafa sóst eftir til að miðla málum í erfiðum deilum. Í samninganefndinni er þrautþjálfað fólk, sem allt hefur reynslu af milliríkjasamningum. Á annað hundrað sérfræðinga og fulltrúa hagsmunasamtaka vinna með nefndinni að undirbúningi viðræðnanna sjálfra. Alls þarf að semja um 35 sérstaka kafla, sem hver tekur til ákveðinna málaflokka. Af þeim lýtur 21 að EES-samningum. Við gerum ráð fyrir að auðveldlega gangi að ljúka þeim langflestum. Hinir, sem lúta að málaflokkum sem standa utan EES, verða vinnufrekari. Þar á meðal eru fiskveiðar, landbúnaður og byggðamál.

Samningar næsta ár

Undirbúningur samningaviðræðna er því á fullum skriði. Næst á dagskrá eru svokallaðir rýnifundir. Þá er löggjöf ESB fyrir hvern einstakan kafla borin saman við hina íslensku, og þeir þættir einangraðir sem standa út af. Um þau atriði þarf yfirleitt að semja sérstaklega. Fyrir eru teknir nokkrir kaflar í einu. Fyrsti rýnifundurinn verður um miðjan nóvember, og meðal kaflanna sem fjallað verður um fyrir áramót eru nokkrir erfiðir, s.s. landbúnaður,  sjávarútvegur, umhverfismál og fjármálaþjónusta í bland við léttari EES-kafla. Áætlað er að þeirri vinnu ljúki í júní. Samningar,  t.d. um sjávarútveg, gætu hafist haustið 2011 og um landbúnaðarmálin upp úr því.

Auðlindir tryggar

Flestir sem eru á móti ESB eru það á grundvelli misskilnings. Þannig hafa andstæðingar aðildar hamrað á því að hún feli í sér að Ísland muni gefa eftir yfirráð yfir auðlindum, bæði orku og fiski. Það er fjarri lagi. Í greinargerðinni með áherslum Íslendinga sem ég lagði fram í júlí eru þannig yfirráð okkar yfir orkuiindunum gerð að frágangsatriði. Sömuleiðis er ljóst, að reglur sambandsins og það, hversu langt er síðan sögulegri veiðireynslu ESB-landanna lauk við Ísland, veldur því að ekkert ríkjanna getur með rökum krafist aflaheimilda í staðbundnum stofnum. Samt staðhæfa menn enn að aðild muni frá fyrsta degi opna lögsöguna fyrir útlendum ræningjaflotum, einkum spænskum og portúgölskum. Ekkert er fjær sanni.

Efnahagslegur ávinningur

Aðild að Evrópusambandinu og skýr stefna á upptöku evrunnar er líkleg til að skapa hér traustara og stöðugra efnahagsumhverfi, með Evrópuvöxtum án verðtryggingar, lægri verðbólgu og meiri aga í öllu fjármálakerfinu. Reynsla smáþjóða, s.s. Maltverja, Slóvaka og Eistlendinga, sýnir að aðild leiðir yfirleitt til aukinna erlendra fjárfestinga. Það, ásamt nýjum stöðugleika í efnahagslífi í kjölfar aðildar, er líklegt til að stuðla að því að okkur takist að skapa þau 30 þúsund störf sem á næstu árum þarf til að eyða atvinnuleysi á Íslandi. Aðild mun ekki síst skapa betra umhverfi fyrir hátæknifyrirtækin og nýjar skapandi atvinnugreinar. Íslendingar eru nýkomnir í gegnum þungbært efnahagshrun. Þeir þurfa að velja sér leið inn í framtíðina. Ein leiðin sem stendur okkur til boða liggur um Evrópusambandið. Því er brýnt að ljúka viðræðunum og koma heim með samning, sem þjóðin getur kosið um. Mikill meirihluti Íslendinga er á sömu skoðun. Það sýndi nýleg könnun þar sem 63% vildu halda samningunum áfram. Við skiptum ekki um hest í miðri á.

Greinin birtist í DV 11. október 2010

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum