Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til foreldrafélaga

Vísað er til fyrirspurnar til mennta- og menningarmálaráðuneytis um hvort það stæðist grunnskólalög að við grunnskóla starfi ekki foreldrafélag heldur foreldra- og kennarafélag þar sem skólastjóri er sjálfkjörinn í stjórn þess félags?

Samkvæmt 9. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 skal foreldrafélag starfa við grunnskóla og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Samkvæmt grunnskólalögum er hlutverk foreldrafélags að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð. Samkvæmt 8. gr. grunnskólalaga skulu 9 manna skólaráð vera við grunnskóla og þar af tveir fulltrúar foreldra. Samkvæmt reglugerð nr. 1157/2008 skulu tveir fulltrúar foreldra vera kosnir í skólaráð samkvæmt starfsreglum foreldrafélags, sbr. 9. gr. grunnskólalaga.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laga um grunnskóla kemur fram að rétt hafi þótt að lögbinda starfsemi foreldrafélaga við alla grunnskóla, m.a. til þess að vera bakhjarl fulltrúa foreldra í skólaráði og einnig til að leggja áherslu á mikilvægi samstarfs heimilis og skóla og að foreldrar styðji við skólastarfið. Fram kemur einnig í greinargerðinni að foreldrafélög séu starfandi við langflesta grunnskóla og víða séu starfandi sérstakir bekkjarfulltrúar foreldra sem hafi það hlutverk að leiða samstarfið í hverjum árgangi, bekkjardeild eða námshópi. Saman myndi bekkjarfulltrúar foreldra víða fulltrúaráð í skólum og slíkt fyrirkomulag er æskilegt m.a. til að samræma starfið og gera það skilvirkara og einnig kjörið til að tryggja að fulltrúar foreldra í skólaráði hafi traust bakland. 

Af grunnskólalögum og lögskýringargögnum má ráða að það hafi verið vilji Alþingis að gefa foreldrum aukið vægi í skólastarfi og tryggja betur að rödd foreldra heyrist, m.a. með stofnun skólaráða við alla grunnskóla og starfsemi foreldrafélaga. Ekki er minnst á starfsemi foreldra- og kennarafélaga í grunnskólalögum eða í greinargerð þótt fyrr á árum hafi það fyrirkomulag verið nokkuð algengt í grunnskólum en slíkum félögum hefur fækkað á undanförnum árum.

Það er álit mennta- og menningarmálaráðuneytisins að við alla grunnskóla skuli starfa foreldrafélag sem m.a. er bakhjarl fulltrúa foreldra í skólaráði. Ráðuneytið sér ekkert því til fyrirstöðu að þess utan geti verið starfandi foreldra- og kennarafélag við grunnskóla sem hafi það að markmiði að stuðla að framkvæmd einstakra samstarfsverkefna, ekki síst þar sem slíkt fyrirkomulag hefur tekist vel og sátt er um slíkt. Útfærsla á slíku samstarfi ætti að vera samkvæmt vilja hvers skólasamfélags. Það er hins vegar ekki í samræmi við lög um grunnskóla að slíkt félag taki að sér lögbundið hlutverk foreldrafélaga, sbr. 9. gr. laganna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum