Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp um breytingar á barnaverndarlögum

Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingar á barnaverndarlögum. Markmið breytinganna er að bæta réttarstöðu barna og efla barnaverndarstarf í landinu. Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú endurflutt.

Frumvarpið er byggt á starfi nefndar sem falið var að endurskoða reynslu af gildandi lögum auk þess að skoða hvort þörf væri á lagabreytingum með hliðsjón af þróun barnaverndarréttar á alþjóðavettvangi og þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sérstaklega samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Í frumvarpinu felast ákveðin nýmæli og má þar nefna breytt fyrirkomulag á vistun barna utan heimilis og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga því tengdu og nýjungum varðandi mat á gæðum barnaverndarstarfs og eftirliti með því. Skýrar er kveðið á um þær ákvarðanir sem barnaverndarnefndir mega skjóta til kærunefnda barnaverndarmála, auk tillagna um breytingar á málsmeðferð. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæði laganna um málsmeðferð fyrir dómi þar sem sett eru inn skýr ákvæði um lögsögu og einnig það mikilvæga nýmæli að málin skuli hljóta flýtimeðferð. Þá er í frumvarpinu kveðið á með skýrum hætti um sérfróða meðdómendur.

Mikilvægar breytingar sem lagðar eru til snúa beint að rétti barns til þátttöku í ákvörðunum sem varða það sjálft. Lagt er til að fellt verði niður 12 ára aldursmarkið þegar gefa á barni kost á að tjá sig um mál sitt en þess í stað skuli miða við þroska barnsins óháð aldri. Er þetta í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og ákvæði sama efnis í barnalögum. Eins eru lagðar til breytingar sem eiga að tryggja betur rétt barna, sem dvelja á stofnunum ríkisins, til einkalífs, til að ráða persónulegum högum sínum og til að hafa samskipti við aðra að því marki sem það samræmist því markmiði sem nást á með vistuninni.

Frumvarpið og umfjöllun um það á heimasíðu Alþingis

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum