Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. október 2010 Forsætisráðuneytið

Traustið endurheimt – skipulag og starfsemi Stjórnarráðsins endurskoðuð

Nefnd um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands boðar til málþings þriðjudaginn 19. október nk. í Háskólanum í Reykjavík við Nauthólsvík (sal Herkúles 5, 2. hæð). Málþingið hefst kl. 13:00 og stendur til kl. 16:30.

Ekkert þátttökugjald er á málþingið en áhugasamir eru beðnir um að skrá sig með því að senda póst á netfangið [email protected].

Dagskrá

  1. Böndum komið á óreiðuna – stjórnarráðslögin í fortíð, nútíð og framtíð (glærur)
    Ásmundur Helgason, héraðsdómari
  2. Hvers konar Stjórnarráð? – verkefni og skipulag (glærur)
    Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis

    Hlé
  3. Hvar skórinn kreppir – rannsókn á starfsháttum ríkisstjórna og ráðuneyta (glærur)
    Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði
  4. Beggja vegna borðsins – Stjórnarráðið frá ýmsum hliðum
    Ragna Árnadóttir, fyrrverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra

Í lok hvers erindis gefst málþingsgestum tækifæri til að spyrja fyrirlesara spurninga. Málþings-stjóri er Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu.

Um nefndina

Í desember 2009 skipaði forsætisráðherra nefnd um endurskoðun laga nr. 73/1969, um Stjórnar-ráð Íslands. Markmiðin með störfum nefndarinnar eru m.a. að auka sveigjanleika innan ráðu-neyta og tryggja að þekking og mannauður sé nýttur til fulls eftir því sem verkefni og áherslur breytast. Í júní sl. skilaði nefndin áfangaskýrslu þar sem sérstaklega voru tekin fyrir skipulags- og mannauðsmál innan Stjórnarráðsins. Skýrsluna má nálgast hér. Þar var m.a. lagt til að litið væri á þekkingu og mannauð ráðuneytanna sem eina heild og sett á fót miðlæg mannauðseining fyrir Stjórnarráðið. Í seinni hluta nefndarstarfsins hefur sjónum verð beint að starfi ríkisstjórna, samstarfi milli ráðuneyta og samskiptum stofnana og ráðuneyta.  

Á starfstíma nefndarinnar hafa rannsóknarnefnd Alþingis, starfshópur forsætisráðherra um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefnd sem fjallaði um rannsóknarskýrsluna bent á ýmislegt sem betur hefði mátt fara í störfum Stjórnarráðsins og hefur nefndin m.a. stuðst við þær skýrslur í vinnu sinni.

Um fyrirlesarana

Ásmundur Helgason er héraðsdómari og einn af höfundum bókarinnar Stjórnarráð Íslands 1964-2004. Ásmundur starfaði hjá umboðsmanni Alþingis og var um tíma aðallögfræðingur á skrif-stofu Alþingis. Í erindi sínu fjallar Ásmundur um tilurð stjórnarráðslaganna 1969 og helstu breytingar sem þau fólu í sér. Vikið verður að tilraunum sem gerðar hafa verið til breytinga á þeim auk þess sem tekið verður til skoðunar hvort þörf er á lögum af þessu tagi í dag og reifuð sjónarmið um mögulegt efni slíkrar löggjafar.

Tryggvi Gunnarsson er umboðsmaður Alþingis og einn af þremur nefndarmönnum í rannsóknarnefnd Alþingis sem fyrr á þessu ári skilaði skýrslu um bankahrunið. Í erindi sínu fjallar Tryggvi um verkefni og skipulag Stjórnarráðsins, m.a. í ljósi tvíþætts hlutverks ráðuneyta sem skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnsýslustofnanir á sínu málefnasviði.

Gunnar Helgi Kristinsson er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í nefnd um endurskoðun lag nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands. Hann var formaður starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í erindi sínu fjallar Gunnar Helgi um fyrstu niðurstöður rannsóknar sem fræðimenn við stjórn-málafræðideild Háskóla Íslands stóðu fyrir í samstarfi við nefnd um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands á starfsháttum ríkisstjórna og ráðherra á Íslandi.


Ragna Árnadóttir er fyrrverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra en starfaði áður til fjölda ára innan Stjórnarráðsins og gegndi þar stöðu sérfræðings, skrifstofustjóra og ráðuneytisstjóra. Í erindi sínu fjallar Ragna um reynslu sína af störfum innan Stjórnarráðsins en hún hefur einstaka innsýn inn í starfsemi þess sem bæði embættismaður og ráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum