Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Norrænt samstarf gegn ofbeldi í nánum samböndum

Frá fundi norrænu jafnréttisráðherranna
Frá fundi norrænu jafnréttisráðherranna

Norrænir jafnréttisráðherrar leggja áherslu á baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Þetta er leiðarstef í nýrri samstarfsáætlun norrænu þjóðanna í jafnréttismálum og var til umræðu á fundi ráðherranna sem haldinn var í Kaupmannahöfn í gær. Ráðherrarnir samþykktu á fundinum að beita sér fyrir þessum málum á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í New York í febrúar 2011.

Samstarfsáætlun norrænu þjóðanna í jafnréttismálum árin 2011–2014 ber heitið „Jafnrétti skapar sjálfbært þjóðfélag“. Þar er sérstaklega fjallað um nauðsyn þess að karlmenn taki þátt í jafnréttisstarfi og umræðum um jafnréttismál og að tekið sé tillit til jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins.

Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, sagði á fundi ráðherranna frá helstu áherslum í jafnréttisstarfi á Íslandi og ýmsum verkefnum sem unnið er að. Meðal annars sagði hann frá rannsóknum sem gerðar hafa verið á ofbeldi í nánum samböndum og frá nýrri aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í nánum samböndum sem unnið er að þar sem skoðað verður samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu en afar fá mál af þessum toga fara alla leið í gegnum dómskerfið. Mikla athygli vakti þegar ráðherra sagði frá setningu laga um algjört bann við nektardansi sem tóku gildi hér á landi 1. júlí síðastliðinn, en við setningu laganna var horft til evrópskra rannsókna sem sýndu að stúlkur sem höfðu atvinnu af nektardansi væru oft þolendur mansals og misneytingar.

Í lok fundarins færði ráðherra samstarfsráðherrum sínum að gjöf kynjagleraugu sem Skotturnar, samstarfsvettvangur kvennasamtaka á Íslandi, hafa selt að undanförnu en ágóðanum verður varið til þess að breyta Stígamótum í sólarhringsathvarf og opnun athvarfs fyrir konur sem eru að brjótast út úr vændi og mansali. Eins sagði hann frá væntanlegum viðburðum í tengslum við íslenska kvennafrídaginn 24. október.

Nýlega skipuðu norrænu ríkin, með Ísland í fararbroddi, efstu sætin í World Economic Forums Gender Gap Report yfir þau lönd þar sem mest jafnrétti er í heiminum. Með Ísland, Noreg, Finnland og Svíþjóð í fjórum efstu sætunum og Danmörk í því sjöunda eru Norðurlöndin sá heimshluti þar sem kynjajafnrétti er hvað mest. Með nýju samstarfsáætluninni vonast norrænu jafnréttisráðherrarnir til að halda þessari stöðu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum