Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. október 2010 Utanríkisráðuneytið

ESB fær óvæntan stuðning

Eftir Össur Skarphéðinsson

Þeir, sem eru á móti Evrópusambandinu, nota oft þau rök fyrir andstöðu sinni við aðild, að hún loki á möguleikann á fríverslun við Bandaríkin. Þeir halda fram, að með því að velja aðild að Evrópufjölskyldunni framyfir fríverslun við Bandaríkin missi Íslendingar svo gildan spón úr aski sínum að það sé næg ástæða til að slíta samningaviðræðum við Evrópusambandið. Þetta viðhorf speglaðist til dæmis í umræðum vegna tillögu sex þingmanna um að ríkisstjórnin efni til viðræðna um fríverslunarsamning við Bandaríkin, þar sem landbúnaður er sérstaklega nefndur. Tillagan og greinargerðin með henni bera vott um framsýni, ekki síst viðhorfin gagnvart fríverslun með landbúnaðarvörur. Hitt er misskilningur að aðild að Evrópusambandinu skaði viðskiptahagsmuni okkar vestur um haf. Þvert á móti er hún líkleg til að efla bandarískar fjárfestingar á Íslandi. Það er þó ekki tilefni vangaveltna minna um tillöguna, heldur sá partur málflutnings tillögumanna sem varðar landbúnaðinn. Ég neita ekki að í honum þóttu mér mjög fróðleg viðhorf gægjast fram, ekki síst í ljósi þess að flestir flutningsmanna, þó ekki allir, hafa talað gegn Evrópusambandinu út frá sjónarhóli landbúnaðarins.

Langstærsti kjötmarkaðurinn

Bandaríski markaðurinn er vitanlega mikilvægur fyrir Íslendinga og í þjóðarþágu að nýta hann sem best. Bandaríkin eru sem betur fer opin fyrir flestar íslenskar vörur, og tollar vart merkjanlegir. Þrátt fyrir það er margfalt meira flutt út af íslenskum vörum til Evrópusambandsins en til Bandaríkjanna. Vöruútflutningur frá Íslandi til Bandaríkjanna er ekki nema 3,5% af heildarútflutningi Íslendinga, meðan við flytjum 77,7% til þjóða Evrópusambandsins. Evrópusambandið er því langmikilvægasti markaður okkar í dag.

Í ljósi umræðna um tillöguna er athyglisvert að skoða hlut landbúnaðarafurða austan hafs og vestan. Munurinn er sláandi. Það kemur í ljós að evrópski markaðurinn er margfalt mikilvægari fyrir landbúnaðinn en sá bandaríski. Tillögumenn nefna sérstaklega mikilvægi fríverslunar með lambakjöt í greinargerð sinni. Skoðum það nánar:

Árið 2009 voru flutt út 57 tonn af lambakjöti til Bandaríkjanna á meðan 1.460 tonn fóru til Evrópusambandsins. Þetta er þrátt fyrir að tollurinn á Bandaríkin sé innan við króna á kílóið, og hundruðum milljóna hafi þar verið varið í öflugt og ákaflega vel útfært markaðsátak. Vissulega hefur útflutningur á lambakjöti til Bandaríkjanna aukist á þessu ári, en hann hefur á sama tíma stóraukist til Evrópu og útlit fyrir að við fyllum 1.850 tonna kvóta okkar á Evrópumarkaði.

Þessar merkilegu tölur benda einfaldlega til þess að mestu sóknarfærin fyrir íslenskt lambakjöt séu á Evrópumarkaði. Í ljósi þeirra má velta fyrir sér hvort landbúnaðurinn telji ekki þörf á viðræðum við Evrópusambandið um aukinn kvóta fyrir lambakjöt á Evrópumarkaði. Hugsanlega væri það í stöðunni rökréttasta skrefið út frá hagsmunum íslenskra kjötframleiðenda.

Athyglisverðar röksemdir

Það er auðvelt að sýna fram á að það er á misskilningi byggt þegar andstæðingar aðildar halda fram að þátttaka í Evrópusambandinu sé skaðleg viðskiptahagsmunum Íslands gagnvart Bandaríkjunum. Nóg er að skoða frændþjóð okkar innan Evrópusambandsins, Íra, til að sjá það rækilega. Þá kemur í ljós að fjárfestingar Bandaríkjamanna á Írlandi eru miklu meiri en á Íslandi. Þær jukust ennfremur stórlega þegar Írar tóku upp evruna. Hví skyldi það verða öðru vísi hér á landi?

Dæmið af okkar keltnesku frændþjóð sýnir nokkuð berlega, að vilji menn efla bandarískar fjárfestingar á Íslandi þá er aukin samþætting við Evrópusambandið líklega ein besta leiðin til þess. Að sama skapi eru viðskipti Íra út fyrir Evrópusambandið hlutfallslega miklu meiri en Íslendinga. Þetta er í samræmi við þá reynslu smáþjóða að aðild að Evrópusambandinu, svo ekki sé nú talað um upptöku evrunnar, dregur að sér erlendar fjárfestingar. Sé það einlægur vilji flutningsmanna tillögunar að bæta verslunar- og fjárfestingatengsl við Bandaríkin, sem ég dreg alls ekki í efa, þá ættu þeir að venda sínu kvæði í kross og stuðla að inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Athyglisverðast við tillögu sexmenninganna, eins og ég benti á í umræðum um hana á Alþingi, er þó að hún felur beinlínis í sér rök fyrir því að aðild að Evrópusambandinu tefli ekki íslenskum landbúnaði í tvísýnu.

BNA vilja flytja inn hrátt kjöt

Nú vill svo til, að margsinnis hefur verið kannað, hvort hægt væri að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Ýmist tvíhliða milli þeirra og Íslands, eða milli Bandaríkjanna og EFTA-ríkjanna, sem Ísland tilheyrir. Áhugi Bandaríkjamanna á slíkum samningi hefur reynst afar lítill. Ástæðan er skiljanleg. Viðskiptahagsmunirnir eru einfaldlega svo litlir að þeir telja fríverslunarsamning ekki ómaksins virði, auk þess sem Bandaríkjamenn hafa gert afar fáa tvíhliða fríverslunarsamninga á undanförnum árum þar sem þeir vilja heldur semja um bætt viðskiptakjör á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Það verður að viðurkennast að áhugi Íslands og EFTA-ríkjanna á slíkum samningi hefur heldur ekki aukist síðustu árin. Það stafar fyrst og fremst af þungri áherslu Bandaríkjanna á að fá sem greiðastan aðgang fyrir landbúnaðarafurðir, þar á meðal vörur sem við Íslendingar höfum skilgreint sem viðkvæmar. Ef menn kynna sér málflutning Bandaríkjanna í Doha-lotunni innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þá sést hverju er að mæta í fríverslunarviðræðum. Þar berjast þeir meðal annars fyrir því að útrýma næstum öllum tollum á landbúnaðarafurðir.

Fjölmargar könnunarviðræður EFTA-ríkjanna og Íslands framundir miðbik þessa áratugar leiddu hið sama í ljós. Bandaríkin vildu fá niðurfellingu tolla af viðkvæmum landbúnaðarafurðum, s.s. hráu kjöti.

Ný viðhorf

Í greinargerð sexmenninganna með tillögunni er meðal annars lögð áhersla á fríverslun með landbúnaðarvörur, og kjöt- og mjólkurafurðir nefndar. Nú er það svo að tollar á Íslandi eru almennt litlir eða engir á öðrum vörum en umræddum landbúnaðarvörum auk nokkurra annarra. Eðli fríverslunarsamninga er að samningsríkin veiti hvert öðru bættan markaðsaðgang umfram það sem öllum býðst. Viðræður á þessum grunni munu því leiða til þess að Bandaríkjamenn, trúir fyrri afstöðu, leggja áherslu á að fá að flytja á móti inn til Íslands landbúnaðarvörur, eins og ferskt og frosið kjöt, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta gera flutningsmenn sér grein fyrir. Þeir tala sjálfir um „gagnkvæmni“ í greinargerðinni. Þeir benda líka á, án þess að tengja það sérstaklega landbúnaði, að það „gæti einnig orðið hagkvæmt að flytja hálfunnar vörur frá Bandaríkjunum til Íslands, fullvinna þær hér á landi og selja í öðrum Evrópulöndum“. Þetta eru algerlega ný viðhorf frá andstæðingum Evrópuaðildar. Ég verð að viðurkenna að ég hef sem utanríkisráðherra hallast að varfærnari nálgun. En þessi nýja og hressilega afstaða gagnvart innflutningi á landbúnaðarvörum, sem meðal annars er flutt af formanni Heimssýnar, gefur tilefni til að skoða þessi mál betur.

Ef það er í lagi að flytja inn landbúnaðarvörur frá Bandaríkjunum þá hlýtur sama að gilda um Evrópusambandið.

Höfundur er utanríkisráðherra.


Grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu 27. október 2010 (pdf).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum