Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. október 2010 Forsætisráðuneytið

Frumvarp til upplýsingalaga kynnt í ríkisstjórn

Forsætisráðherra kynnti í morgun á ríkisstjórnarfundi frumvarp til nýrra upplýsingalaga en endurskoðun þeirra var ákveðin í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Meðal helstu breytinga eru að lagt er til að gildissvið upplýsingalaga verði víkkað með þeim hætti að þau taki til einkaréttarlegra lögaðila sem eru í eigu hins opinbera að 75% hluta eða meira. Áfram verði þó byggt á þeirri reglu að vegna samkeppnishagsmuna kunni að vera heimilt að undanþiggja sumar upplýsingar aðgangsrétti almennings.

Þá eru lagðar til breytingar á kröfum til framsetningar á beiðnum um aðgang að gögnum, með það að markmiði að almenningi verði gert auðveldara en nú er að óska upplýsinga. Þannig þurfi ekki að tilgreina það tiltekna stjórnsýslumál sem upplýsingar séu hluti af, heldur nægi að tilgreina viðkomandi málefni. Ennfremur er lagt til að stjórnvöldum verði gert að að rökstyðja það sérstaklega hvers vegna gögn, sem heimilt er en ekki skylt að afhenda, séu ekki látin af hendi.

Frumvarpið er unnið af starfshópi sem í eiga sæti Trausti Fannar Valsson, lektor við Háskóla Íslands, Þórhallur Vilhjálmsson yfirlögfræðingur Alþingis og Margrét Vala Kristjánsdóttir lektor við Háskólann í Reykjavík. Frumvarpið er aðgengilegt á heimasíðu forsætisráðuneytisins og hafi menn athugasemdir við það má senda þær á [email protected] eigi síðar en miðvikudaginn 3. nóvember. næstkomandi.

Reykjavík 29. október 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum