Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. nóvember 2010 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnarfundur í Reykjanesbæ afgreiðir fjölda mála sem nýtast Suðurnesjunum sérstaklega

Ríkisstjórnin hélt reglulegan fund sinn í morgun í Reykjanesbæ og er það í fyrsta sinn sem ríkisstjórn Íslands fundar á Suðurnesjum. Fyrir fundinn átti ríkisstjórnin fund með bæjar- og sveitarstjórum allra sveitarfélagana á Suðurnesjum þar sem farið var yfir stöðu mála á svæðinu, ekki síst atvinnumálin og lausnir á því mikla atvinnuleysi sem þar ríkir.

Á ríkisstjórnarfundinum voru samþykkt ýmis mál sem geta haft góð áhrif á stöðu mála á Suðurnesjum og jafnframt var samþykkt sú tillaga fulltrúa sveitarfélaganna að setja á stofn samráðsvettvang ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga á Suðurnesjum til að vinna að framgangi málanna og fjölmargra annarra sem hafa verið til skoðunar að undanförnu. Ríkisstjórnin hefur leitað eftir hugmyndum að aðgerðum frá öllum ráðuneytum ásamt því sem farið hefur verið yfir þær hugmyndir sem komu út úr vinnu að Sóknaráætlun 20/20 fyrir Suðurnes.

Hér á eftir fer listi yfir þau verkefni sem ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum í morgun að ráðast í nú þegar:

Forsætisráðherra:

1. Samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum
Að myndaður verði formlegur samráðsvettvangur stjórnvalda ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu um atvinnu-, mennta- og velferðarmál.

Dómsmála- og mannréttindaráðherra:

1. Flutningur Landhelgisgæslu
Að skoðaðir verði vandlega kostir þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggisvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum og að framkvæmd verði hagkvæmniathugun á þeim kosti.

Fjármálaráðherra:

1. Gagnaver
Að lagt verði fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er geri samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi samkeppnisfæra við gagnaver í löndum innan ESB.

2. Verklegum framkvæmdum á þróunarsvæði Keflavíkurflugvallar verði flýtt
Að til að auka nú þegar möguleika til frekari atvinnuuppbyggingu á þróunarsvæðinu og skapa um leið aukna atvinnu við verklegar framkvæmdir verði 250 m.kr. veitt aukalega til þróunarfélags Keflavíkurflugvallar þannig að félagið geti hraðað þeim verkefnum sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

3. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu (Kadeco og Fjárfestingarsvið Íslandsstofu)
Að hrundið verði af stað kynningar- og markaðsátaki á fasteignum á varnarsvæðinu en Þróunarfélag Keflavíkur á fjölmargar eignir á gamla varnarsvæðinu sem er nauðsynlegt að komist í notkun.

4. Hersetusafn á Suðurnesjum
Að Þróunarfélagi Keflavíkur verði falið að setja á stofn Hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safnið myndi kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimstyrjöld.

Iðnaðarráðherra:

1. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum
Að unnið verði með starfshópi um atvinnumál á Suðurnesjum sem iðnaðarráðherra hefur skipað og ný verkefni verði lögð fyrir starfshópinn sem rýnir þau og metur. Jafnframt muni starfshópurinn vinna nýjar tillögur í samstarfi við heimamenn og leggja fyrir ráðherra og stofnanir.

2. Klasasamstarf fyrirtækja á sviði líforku
Að stutt verði við verkefni sem Nýsköpunarmiðstöð hefur verið falið að hefja undirbúning að um klasasamstarf á sviði líforku sem tengist jarðvarmaverum á Reykjanesi.

Félags- og tryggingamálaráðherra:

1. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta lengt í 4 ár
Að hámarkstímabil greiðslu bóta úr atvinnuleysistryggingasjóði verði lengt tímabundið úr þremur árum í fjögur ár.

2. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum – ráðning verkefnisstjóra
Ríkisstjórnin leggi fram fjármagn til að ráðinn verði starfsmaður/verkefnisstjóri sem haldi utan formlegt samstarf sveitarfélaganna Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga á sviði velferðarmála sveitarfélaganna á svæðinu. Verkefnisstjórn skipuð lykilfólki frá sveitarfélögunum og fulltrúum Vinnumálastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Umboðsmanns skuldara myndar samráðshóp sem vinnur með verkefnisstjóranum. Velferðarvaktin verði verkefnisstjórn og verkefnisstjóra til ráðgjafar og haldi utan um verkefnið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar/félags- og tryggingamálaráðherra. Verkefnið er hugsað sem fyrirmyndarverkefni sem önnur svæði gætu síðar ýtt úr vör.

3. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum
Umboðsmaður skuldara fái aðstöðu á Suðurnesjum og taki þar á móti fólki sem þarf á þjónustu embættisins að halda. Til að byrja með þarf að setja tvo starfsmenn í verkið þar sem nauðungasölur eru hlutfallslega mjög margar á Suðurnesjum m.a. tífalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu.

Mennta- og menningarmálaráðherra:

1. Þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði
Rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður og samstarf þeirra styrkt með sérstakri fjárveitingu sem svari til greiðslu launa tveggja sérfræðinga í fullu starfi í tvö ár sem fái það verkefni að þróa nýtt og fjölbreyttara námsframboð og styrkja ráðgjöf og hvatningu til þeirra sem minnsta menntun hafa eða eru án atvinnu.

2. Fiskitækniskóli Íslands
Fisktækniskóla Íslands verði tryggt eitt stöðugildi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum