Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. nóvember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um betri byggð

Hafdís Gísladóttir aðstoðarmaður umhverfisráðherra flutti ávarp ráðherra á málþinginu "Betri byggð - frá óvissu til árangurs" sem haldið var á Grand Hóteli 11. nóvember 2010.

Ágætu málþingsgestir

Það er mér mikil ánægja að fá að vera hér með ykkur í dag til að setja málþingið “Betri byggð – frá óvissu til árangurs” sem haldið er að frumkvæði Félags byggingarfulltrúa í tilefni 25 ára afmælis félagsins og í samvinnu við 9 önnur fagfélög.

Félag byggingarfulltrúa var stofnað 27. nóvember 1985 og eru félagsmenn 38 talsins. Markmið félagsins er að samræma störf byggingarfulltrúa, veita fræðslu og efla þekkingu á málum er varða störf þeirra, efla persónuleg kynni félagsmanna og koma sjónarmiðum þeirra á framfæri við stjórnvöld og einkaaðila. Núverandi formaður er Magnús Sædal Svavarsson byggingarfulltrúi í Reykjavík.

Í byrjun síðasta mánaðar lagði ég öðru sinni fram á Alþingi lagafrumvarp sem mun hafa mikil áhrif á byggingarstarfsemina í landinu og lagalegt starfsumhverfi þeirra sem starfa innan byggingariðnaðarins, en þar á ég við frumvarp til laga um mannvirki. Ný skipulagslög sem samþykkt voru í september munu taka gildi um áramótin og því eru auknar líkur á að frumvarpið nái fram að ganga þar sem núverandi skipulags- og byggingarlög falla úr gildi við gildistöku skipulagslaganna.

Í frumvarpi til laga um mannvirki er lagt er til að sett verði á fót Byggingarstofnun, sem hafi yfirumsjón með stjórnsýslu mannvirkjamála, þar með talið þeim verkefnum sem Brunamálastofnun sinnir nú. Áfram er gert ráð fyrir að stjórnsýsluleg ábyrgð á beinu eftirliti með byggingu mannvirkja verði í höndum byggingarfulltrúa sveitarfélaganna en að eitt af meginverkefnum Byggingarstofnunar verði að tryggja samræmt byggingareftirlit um allt land. Svipuðu hlutverki hefur Brunamálastofnun einmitt sinnt hvað brunamál snertir. Þegar þetta frumvarp verður að lögum mun Brunamálastofnun verða lögð niður eða réttara sagt verkefni hennar færð undir Byggingarstofnun og ábyrgð á framkvæmd byggingarmála færð frá Skipulagsstofnun til Byggingarstofnunar. Byggingarstofnun mun m.a. annast gerð skoðunarhandbóka, verklagsreglna og leiðbeininga fyrir byggingarfulltrúa auk þess sem stofnunin getur gefið út bindandi álit um einstök mál.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á að efla gæðavitund og gæðaeftirlit. Ákvæði varðandi byggingarstjóra eru mun ítarlegri en áður. Gerð er krafa um að þeir hafi sérstakt starfsleyfi frá Byggingarstofnun auk ákvæða um að þeir hafi gæðastjórnunarkerfi. Jafnframt eru kröfur í frumvarpinu um að hönnuðir og iðnmeistarar hafi gæðastjórnunarkerfi. Þá eru ákvæði í frumvarpinu um öryggisúttekt sem skal fara fram áður en mannvirki er tekið í notkun og ítarlegri ákvæði um lokaúttekt en í núverandi löggjöf.

Vinna við nýja Byggingarreglugerð hófst fyrr á árinu. Nefnd ásamt 8 vinnuhópum eða alls um 60 manns er að vinna að mótun hennar. Í erindisbréfi nefndarinnar kemur m.a. fram að horfa skuli til sjálfbærrar þróunar þar sem opin stjórnsýsla, gagnsæi og lýðræðisumbætur eru höfð að leiðarljósi. Þá skal fjölga markmiðsákvæðum og tilvísunum í staðla í reglugerðinni. Í reglugerðinni skal sérstaklega huga að neytendavernd, vistvænni byggð, hljóðvistarkröfum, byggingum sem ætlaðar eru börum, aðgengismálum og útfærslu á stjórntækjum laganna til að koma í veg fyrir að mannvirki sem ekki uppfylla kröfur verði tekin í notkun.

Drög að kaflaskiptingu nýrrar reglugerðar hefur verið ákveðin og eru vinnuheiti kaflanna eftirfarandi:

(1) Almenn ákvæði, (2) Stjórn byggingarmála, (3) Sannprófun á að kröfur séu uppfylltar, (4)Hönnuðir, byggingarstjórar og iðnmeistarar, (5) Byggingarvörur/byggingarefni,

(6) Innri rými, umferðarleiðir og aðgengi, (7) Útisvæði og aðgengi, (8) Burðarþol og stöðugleiki, (9) Varnir gegn eldsvoða, (10) Hollusta, heilsa og umhverfi,

(11) Hávaðavarnir, (12) Öryggi við notkun, (13) Orkusparnaður og hitaeinangrun,

(14) Lagnir og tæknibúnaður, (15) Umhverfisáhrif mannvirkja og (16) Stjórnun, rekstur, viðhald og notkun – handbóka.

Frumvarp til laga um mannvirki mun stuðla að því að gæði mannvirkja verði í samræmi við væntingar og þarfir neytenda. Sú vinna sem nú fer fram við byggingarreglugerðina er afar mikilvægur þáttur í því að markmið nýrra laga um mannvirki nái fram að ganga og hef ég miklar væntingar til þeirra vinnu sem ég er viss um að á eftir að marka tímamót þegar henni lýkur. Ég vil því nota þetta tækifæri til að þakka ykkur sem komið hafa að vinnu við byggingarreglugerðina fyrir ykkar mikilvæga framlag með ykkar störfum.

Að lokum vona ég að málþingið muni reynast ykkur gagnlegt og óska ykkur farsældar í ykkar störfum innan byggingariðnaðarins.

Takk fyrir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum