Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. nóvember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra - aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

Hafdís Gísladóttir aðstoðarmaður umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp ráðherra á kynningu um aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem haldin var í Tjarnarbíói 11. nóvember 2010.

Góðir gestir,

Nú nýverið kom út þróunarskýrsla Sameinuðu þjóðanna, sem er árlegur viðburður. Henni voru gerð nokkur skil í fjölmiðlum hér, einkum sú staðreynd að Ísland, sem fyrir nokkrum árum náði toppsætinu í samanburði, hefur dottið niður í 17. sæti á lífskjaralista. Vissulega geta þó flest önnur ríki öfundað okkur enn, því lífslíkur eru óvíða meiri en hér á landi, menntun góð og mikið jafnrétti – og þótt okkur finnist þröngt í búi er himinn og haf á milli kjara Íslendinga og þjóða í neðstu sætum listans, sem búa við sannkallaða örbirgð.

Það er okkur vissulega umhugsunarefni að við skulum ekki hafa gáð að okkur í hinu svokallaða góðæri og hversu hratt grundvellinum var kippt undan því. Öll ríki geta lent í slíkum hremmingum ef varúðarmerki í efnahagslífinu eru hunsuð og fyrirhyggja höfð að spotti. En þróunarskýrsla Sameinuðu þjóðanna telur að efnahagsbólur og bankaskellir séu ekki helsta ógn við velsæld jarðarbúa, heldur loftslagsbreytingar.

Á sumum stöðum munu þurrkar aukast, á öðrum flóð. Gróðurbelti munu færast til og skilyrði til landbúnaðar og búsetu geta gjörbreyst vegna náttúrulegra umskipta sem eiga sér engin fordæmi á sögulegum tímum. Varúðarmerkin eru til staðar og fyrirhyggja nauðsynleg ef við ætlum ekki að lenda í hnattrænni vistkreppu.

Sumir Íslendingar trúa enn að slíkir spádómar séu byggðir á sandi og séu til þess eins fallnir að skyggja að óþörfu á veislugleði neysluhyggju. Ég held reyndar að slíkum röddum fari fækkandi á Íslandi eins og annars staðar, þar sem við finnum í vaxandi mæli á eigin skinni að loftslag jarðar er að breytast. Hegðun okkar tekur þó lítið mið af vaxandi vissu um alvarleika loftslagsbreytinga, því losun gróðurhúsalofttegunda vex jafnt og þétt á heimsvísu. Of miklum kröftum er eytt í deilur um skiptingu byrða, en of litlum í að finna varanlegar lausnir á loftslagsvandanum.

Við Íslendingar getum ekki verið stikkfrí í loftslagsmálum frekar en aðrar þjóðir sem raðast ofarlega á lífskjaralistum. Í Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna er gerð krafa á þróuð ríki að ganga á undan með góðu fordæmi í að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum.

Ég tel að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem samþykkt var í ríkisstjórn í lok síðustu viku og kynnt er hér í dag, marki nokkur tímamót í þessum málum hér á Íslandi. Áætlunin er byggð á ítarlegri greiningu á möguleikum á aðgerðum, sem unnin var af sérfræðinganefnd og gefin út í fyrra. Reynt verður að draga úr losun á öllum helstu sviðum og auka bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu, en áhersla verður lögð á þær aðgerðir sem skila mestu og eru hagkvæmastar að mati sérfræðinga. Áætlunin sameinar metnað, raunsæi og hagkvæmni og er tæki til að hjálpa stjórnvöldum svo þau geti staðið við líklegar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands til ársins 2020.

Áætlunin er einungis fyrsta skrefið í því skyni. Hún framkvæmir sig ekki sjálf, heldur með samstilltu átaki ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífsins og almennings. Ríkisstjórnin hefur þegar sýnt að hún ætlar ekki að láta þessa áætlun verða orðin tóm. Sama dag og áætlunin var samþykkt í ríkisstjórn var ákveðið að leggja fram frumvarp um breytingar á sköttum og gjöldum á bíla og eldsneyti, þannig að þau taki aukið mið af kolefnislosun. Þetta er táknrænt, því við Íslendingar stöndum illa í samanburði við aðrar þjóðir þegar kemur að losun í samgöngum, þótt við stöndum vel á mörgum sviðum, einkum hvað varðar notkun endurnýjanlegrar orku fyrir rafmagn og húshitun.

Þetta frumvarp verður kynnt hér stuttlega í dag, en einnig aðgerðir á vegum sveitarfélaga, sem eru mikilvægar í loftslagsmálum.

Einhverjir munu spyrja hvort við höfum efni á því að ráðast í aðgerðir í loftslagsmálum í kreppunni. Okkur er að sjálfsögðu þröngur stakkur búinn eins og stendur, meira að segja við að ráðast í aðgerðir sem taldar eru borga sig fjárhagslega til lengri tíma, eins og að leggja fleiri hjólastíga eða rafvæða fiskimjölsverksmiðjur. En til lengri tíma tel ég víst að öflugt starf í loftslagsmálum sé gott fyrir budduna jafnt sem umhverfið. Um allan heim keppast ríkisstjórnir og fyrirtæki nú við að varða leiðina að „grænu hagkerfi“ með loftslagsvænni tækni og lífsstíl. Öflug nýsköpun í loftslagsvænni tækni, sem er ein af tíu svokölluðum lykilaðgerðum í aðgerðaáætluninni, getur hjálpað íslenskum fyrirtækjum að hasla sér völl á stækkandi mörkuðum fyrir grænar lausnir. Það er mikilvægt fyrir íslensk stjórnvöld og fyrirtæki að geta borið höfuðið hátt í loftslagmálum, að vera í fararbroddi en ekki í skutnum, að vinna ötullega að lausnum í stað þess að biðja um undanþágur frá alþjóðlegum reglum.

Ég er bjartsýn á að við Íslendingar getum hrint þeim metnaðarfullu aðgerðum í framkvæmd sem er að finna í áætluninni og að þær muni ekki koma niður á lífskjörum okkar, heldur þvert á móti. Grænt hagkerfi er ekki bara góð hugmynd, það er lífsnauðsyn fyrir mannkynið að geta búið okkur og óbornum kynslóðum velsæld án þess að stórskemma gangverk náttúrunnar. Saman geta þjóðir heims komið í veg fyrir hrun náttúrugæða, sem verður mun afdrifaríkara en hrun gróðabóluævintýra. Ísland má ekki láta sitt eftir liggja þar.

Takk fyrir,

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum