Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. nóvember 2010 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 2. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn mánudaginn 15. nóvember 2010, kl. 8:30, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6, 1. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar og Páll Þórhallsson (PÞ), skipaðir af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Magnús Pétursson (MP) fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) tilnefnd af BHM og KÍ og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ), fulltrúi BSRB. Kristín Ástgeirsdóttir boðaði forföll.

JÓ bauð gesti fundarins, þá Tryggva Gunnarsson, umboðsmann Alþingis, og Svein Arason, ríkisendurskoðanda, velkomna en kveðið er á um samráð við þessi embætti í breyttum stjórnarráðslögum. Nefndinni fannst því við hæfi að kalla þá strax til fundar og heyra á hverju siðareglur þyrftu að taka að þeirra mati.

Aðspurður um aðkomu umboðsmanns Alþingis að siðareglum sagði Tryggvi að hlutverk hans væri fyrst og fremst það að fylgja siðareglum eftir þegar búið væri að setja þær. Hann fái kvartanir sem varði framkomu og háttsemi starfsfólks hins opinbera en þær snúist sjaldnast um það sem hægt væri að kalla beina spillingu. Aftur á móti hafi hann orðið var við að sumir aðilar innan stjórnsýslunnar leyfi sér að haga sér með öðrum hætti en best gæti talist og það eigi ekki síst við um þá sem þangað eru ráðnir á pólitískum forsendum. Hann hafi líka fengið inn á borð til sín dæmi um gjafir til opinberra starfsmanna. Í stjórnsýslulögunum sé að finna kjarnann í því sem eiga að vera góðir starfshættir í stjórnsýslu. Það fylgi því engin refsing að fara á svig við þau lög nema menn gerist jafnframt brotlegir við hegningarlög og spurning hvort ekki þurfi viðurlög. Að mati Tryggva gera siðareglur einar og sér  lítið gagn nema þeim fylgi virkt aðhald í formi fræðslu. Hann segir oft vanta upp á þekkingu opinberra starfsmanna á sérstöðu þeirra og telur þörf á miklu betri fræðslu og upplýsingagjöf hvað það varðar.

Í máli Sveins kom fram að ríkisendurskoðun sinni bæði fjárhaglsegri endurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun. Í síðarnefnu endurskoðuninni felst úttekt á meðferð og nýtingu almannafjár og þá eru aðrir þætti en þeir fjárhagslegu einnig til skoðunar. Þessar úttektir hafa leitt í ljós að menn fara ekki alltaf að settum reglum. Boð og gjafir til opinberra starfsmanna þekkjast eins og Tryggvi nefndi. Það þýði ekki endilega að verið sé að bera fé á menn en það skorti skýrar reglur hvað þetta varðar. Opinber innkaup bar líka á góma og sagði Sveinn að það væri verið að skoða regluverkið sem gilda um þau. MP spurði Svein hvort siðareglur ættu að styðja við og vera eins konar framhald á löggjöf eða stuðla að vitund um rétta hegðun. Að mati Sveins eiga þær að vera leiðbeinandi um hvernig menn umgangast laga- og regluramman og setja mönnum ákveðin mörk.

Samkvæmt Tryggva liggur það í hlutarins eðli að verkefni stjórnsýslunnar eru fjölbreytileg og því erfitt að setja reglur í lagabúning sem ná yfir þetta flókna og fjölbreytta svið. Þó sé hægt að nefna nokkur atriði s.s. gjafir, félagsaðild ýmiskonar, verkefni sem menn taka að sér utan vinnu og fjárhagsleg hagsmunatengsl sem hægt væri að ná utanum með lagasetningu en annað sé ekki jafn handfast. Hlutverk hans og ríkisendurskoðanda sé að leiðbeina og benda á það sem betur má fara en því miður hundsi menn oft þá leiðsögn.

Í framhaldinu urðu nokkrar umræður um mun á verklagsreglum og siðareglum og hversu ítarlegar siðareglur þurfi að vera. Þá var nefnt að ekki væri alltaf ljóst hvar mörkin milli opinbers vettvangs og þess einkalega væru og einnig að kröfur til „vammleysis“ opinberra starfsmanna réðust að hluta til af starfinu.

JÓ sagði skipta máli hver setur reglurnar og í fræðunum sé gjarnan vísað til þess að best sé að starfsfólk komi sjálft að því að setja sér siðareglur. Að mati Tryggva er mun mikilvægara að starfsfólk tileinki sér reglurnar og hann sjái ekki fyrir sér að siðareglurnar sem slíkar verði umdeildar enda hljóti textinn að verða nokkuð almennt orðaður. Spurður hvort hann sjái fyrir sér að eftirlitshlutverkið verði svipað og með öðrum reglum svaraði hann því til að lögin um umboðsmann Alþingis byggi á því að borgarar beri fram formlegar kvartanir. Í tilviki siðareglna hljóti hlutverkið meira að byggja á frumkvæði. Einn helsti vandi stjórnsýslunnar sé þekkingarleysi og skortur á fyrirfram gefnum reglum um feril ákvarðana og málsmeðferð. Reynsla hans sé að almennir starfsmenn séu oft opnari fyrir umbótum en forstöðumenn. Í umræðum kom fram að víða séu til handbækur og verklagsreglur en það sé engin trygging fyrir notkun þeirra. Þá komi það fyrir að menn stytti sér leið, þ.e. fari á svig við reglur og svo verði auðvitað að horfast í augu við þá staðreynd að við búum í litlu samfélagi sem bjóði upp á ákveðna hættu hvað varðar vina- og ættartengsl. Enn og aftur var nefnt að umræður og fræðsla væri forsenda þess að menn tileinkuðu sér siðareglur og Sveinn benti á að siðareglur rétt eins og aðrar reglur þyrftu að vera lifandi og í sífelldri endurskoðun.

Milli funda hitti MP hluta stjórnarmanna Félags forstöðumanna ríkisstofnana og þar á bæ fagna menn þessu framtaki finnst eðlilegt að samhæfingarnefndin verði leiðbeinandi þegar kemur að því að setja siðareglur. Á fundinum kom fram að stjórnin vilji síður fá fullbúnar reglur í hendur því hún vilji gjarnan fá að koma með hugmyndir og athugasemdir. Tryggvi sagði gott og blessað að forstöðumenn kæmu að setningu siðareglna en síðan þyrfti stöðuga fræðslu og umræður. Þegar spurt var hvort fræðsla um siðareglur ætti heima með annarri fræðslu taldi Tryggvi mikilvægt að byrjað væri á því að kortleggja stofnanir ríkisins og skipuleggja fræðsluna út frá því. Siðareglur væru nátengdar stjórnsýslulögum og best væri að samþætta fræðslu um þetta tvennt enda megi segja að siðareglur taki við þar sem lögum sleppir. Þeir Sveinn ætla að setja niður á blað atriði sem helst hafa komið til þeirra kasta og senda nefndinni. Hann áréttar að best sé að hafa reglurnar tiltölulega einfaldar. Ef þær eigi að skila tilætluðum árangri þurfi menn að líta þær jákvæðum augum og trúa því að aðhald frá umboðsmanni sé af hinu góða.

Eftir að Tryggvi og Sveinn viku af fundi var m.a. rætt um hópana sem skv. lögum á að setja siðareglur sem eru ráðherrar, starfsmenn stjórnarráðsins, almennir ríkisstarfmenn og mögulega aðstoðarmenn ráðherra. JÓ taldi rétt að vekja athygli á nefndinni með því að láta siðareglur fyrir ráðherra taka gildi og var ákveðið að nota næsta fund í að fara yfir drögin sem þegar eru til. PÞ benti á að nefndin þurfi að hugleiða hvort umboðsmaður hafi einn eftirlitshlutverk eða hvort forsætisráðherra hefði slíkt hlutverk hvað varðar siðareglur fyrir ráðherra. MP taldi heppilegt að reglurnar væru settar til ákveðins tíma því þannig gæfist kostur á að meta þær út frá reynslu.

Undir lok fundar var rætt hvort birta ætti fundargerðir á opnu vefsvæði en ákvörðun látin bíða næsta fundar. Einnig var rætt um næstu fundi og ákveðið að hittast næst mánudaginn 29. nóvember og svo aftur viku síðar eða 6. desember á sama tíma.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 10:00

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum