Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. nóvember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Áfangaskýrsla um útbreiðslu, varnir og nýtingu lúpínu og skógarkerfils

Alaskalúpína og skógarkerfill í Esjuhlíðum. Mynd: Erling Ólafsson.
Alaskalúpína og skógarkerfill í Esjuhlíðum.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði í sumar stýrihóp til að fylgja eftir tillögum um aðgerðir varðandi útbreiðslu, varnir og nýtingu alaskalúpínu og skógarkerfils. Stýrihópurinn hefur nú skilað ráðherra áfangaskýrslu, en þar er gerð grein fyrir ýmsum verkefnum sem unnið hefur verið að.

Náttúrufræðistofnun hefur til að mynda skráð vaxtarstaði lúpínu víðsvegar um landið, aflað grunnþekkingar á vaxtarferli plantnanna og upprætt lúpínu á tveimur stöðum innan friðaðra svæða. Landgræðslan hefur meðal annars eytt lúpínu á nokkrum stöðum, veitt ráðgjöf um eyðingu hennar og unnið að útbreiðslurannsóknum í samstarfi við Háskólann í Lundi í Svíþjóð og Háskóla Íslands.

Í verkáætlun stýrihópsins er meðal annars gert ráð fyrir dreifingu fræðsluefnis, auknu samstarfi við sveitarfélög og gerð gagnagrunns yfir útbreiðslu lúpínu og skógarkerfils. Þá verða hlutlausir sérfræðingar fengnir til að taka saman upplýsingar um illgresiseyða sem til stendur að nota. Hópinn skipa þau Ásrún Elmarsdóttir og Trausti Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Elín Fjóla Þórarinsdóttir og Magnús H. Jóhannsson frá Landgræðslu ríkisins. Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar og Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri hafa leitt vinnuna.

Jafnframt fól umhverfisráðherra Landgræðslu ríkisins í samstarfi við Skógrækt ríkisins að semja leiðbeiningar fyrir hönd stjórnvalda hvar og við hvaða aðstæður lúpínu skuli sáð til uppgræðslu og undirbúnings skógræktar. Stefnt er að því að ljúka því verkefni fyrir lok árs og stefnt er að útgáfu leiðbeiningabæklings.

Starf stýrihópsins byggir á skýrslu Landgræðslu ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands um meðferð lúpínu til framtíðar sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fól stofnunum að vinna. Þær tillögur voru kynntar í skýrslu stofnananna til ráðherra í vor. Í skýrslunni er meðal annars lagt til að lúpínu skuli ekki sáð á friðlýstum svæðum landsins og landslagsgerðum sem njóta sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum. Jafnframt skuli henni ekki sáð á miðhálendi landsins, en þar eru ýmis skipulagsmál og framtíðarnýting enn víða óráðin. Einnig er lagt til að stefna skuli að því að fjarlægja lúpínu af þessum svæðum.

Minnisblað stýrihóps um alaskalúpínu og skógarkerfil 19.11.2010. (Pdf-skjal).

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum