Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. desember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Framkvæmdaáætlun um líffræðilega fjölbreytni

Ár líffræðilegrar fjölbreytni 2010
Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu árið 2010 líffræðilegri fjölbreytni.

Umhverfisráðuneytið hefur unnið áætlun um framkvæmd stefnumörkunar um líffræðilega fjölbreytni. Stefnumörkunin var samþykkt í ríkisstjórn árið 2008 en Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði starfshóp fyrr á þessu ári til að vinna áætlun um framkvæmd stefnumörkunarinnar.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir Samninginn um líffræðilega fjölbreytni einn mikilvægasta alþjóðasamning sem Ísland eigi aðild að. Með gerð framkvæmdaáætlunarinnar hafi loksins verið lögð fram áætlun um það hvernig Ísland muni uppfylla ákvæði hans. Hún segir það mikilvægt skref í átt til ábyrgrar umhverfisstjórnunar hér á landi og sjálfbærrar þróunar.

Samkvæmt framkvæmdaáætluninni er meðal annars talið nauðsynlegt að auka umfang vöktunar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Hafrannsóknarstofnunar, Landgræðslu ríkisins og annarra vöktunarstofnana á þurrlendi, ferskvatni og hafinu umhverfis landið svo hægt verði að fylgjast með þróun líffræðilegrar fjölbreytni og grípa til verndaraðgerða ef þörf reynist. Þá er meðal annars talið mikilvægt að sem fyrst verði gengið frá íslenskum vísum fyrir vöktun líffræðilegrar fjölbreytni sem sýna ástand lykilþátta lífríkisins.

Ekki hefur verið settur tímarammi fyrir framkvæmdaáætlunina í heild, en samráðshópurinn telur mikilvægt að vinna markvisst að framkvæmd hennar á næstu þremur árum, það er innan tímamarka náttúruverndaráætlunar. Sum verkefni munu þó taka lengri tíma, svo sem  kortlagning lífríkis og gerð gróður- og vistgerðakorta, auk þess sem vöktunarverkefni eru eðli málsins samkvæmt viðvarandi.

Í starfshópnum sátu Þorsteinn Tómasson fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Áslaug Helgadóttir fyrir iðnaðarráðuneytið og Sigurður Ármann Þráinsson fyrir umhverfisráðuneytið en hann leiddi starf hópsins.

Framkvæmdaáætlun um líffræðilega fjölbreytni. (pdf-skjal).

Heimasíða Samningsins um líffræðilega fjölbreytni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum