Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. desember 2010 Utanríkisráðuneytið

Rýnifundi um staðfesturétt og þjónustu lokið

Rýnifundi um 3. kafla löggjafar Evrópusambandsins, staðfesturétt og þjónustu, lauk í Brussel í gær, fimmtudag. Á fundinum, sem stóð í einn dag, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Harald Aspelund, formaður samningahóps um EES II málefni en 3. kafli er hluti af EES-samningnum og flestar gerðir Evrópusambandsins á sviðinu því þegar innleiddar í íslenska löggjöf.

Rætt var um áframhaldandi sérlausnir sem samið var um á grundvelli EES-samningsins. Samkvæmt honum hefur Ísland undanþágu sem takmarkar erlendar fjárfestingar í fiskiskipum og fiskvinnslu. Þá var rætt um tímasetningu á innleiðingu tilskipunar um opnun póstmarkaðar. Vegna þjónustutilskipunar ESB var sérstaklega vakin athygli á yfirlýsingu Íslands um hana í tengslum við upptöku hennar í EES samninginn.

Einnig var vikið að möguleika þess að takmarka rétt þeirra sem ekki eiga lögheimili og fasta búsetu á landinu til þess að eignast fasteignir hér á landi með tilliti til þess að viðhalda búsetu í sveitum en slíkt er ekki til staðar skv. núgildandi reglum hér á landi á grundvelli EES-samningsins.

Greinargerð samningahópsins sem fjallar um frjálsa fjármagnsflutninga (EES II) hefur verið birt á heimasíðunni esb.utn.is en í henni er að finna nánari útlistun á viðfangsefni kaflans. Hægt er að opna greinargerðina með því að smella hér.

* * *

Löggjöf Evrópusambandsins skiptist í alls 33 kafla, auk kafla um stofnanir og önnur mál. Áður en eiginlegar samningaviðræður hefjast um einstaka kafla fer fram rýnivinna þar sem löggjöf Íslands og ESB er borin saman til að greina hvar íslensk löggjöf er frábrugðin og hvað semja þarf um. Tveir rýnifundir munu fara fram um flesta samningskafla. Á þeim fyrri kynnir framkvæmdastjórnin löggjöf ESB og á þeim síðari kynnir Ísland sína löggjöf. Í þeim köflum sem falla undir EES-samninginn og þar sem regluverkið hefur að öllu leyti verið tekið upp af Íslands hálfu, verður aðeins um einn fund að ræða.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum