Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. desember 2010 Forsætisráðuneytið

Frumvarp til upplýsingalaga – aukinn upplýsingaréttur almennings

Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til nýrra upplýsingalaga. Þar er gildissvið laganna víkkað út og látið ná til fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga auk þess sem möguleikar almennings til að óska eftir upplýsingum eru rýmkaðir.

Helstu breytingar frá núgildandi lögum eru þessar:

  1. Lagt er til að gildissvið upplýsingalaga verði víkkað með þeim hætti að þau taki til fleiri aðila en nú er. Þannig er gert ráð fyrir því að upplýsingalög skuli taka til allrar starfsemi sem fram fer á vegum einkaréttarlegra lögaðila sem eru í eigu hins opinbera að 75% hluta eða meira. Forsætisráðherra verður samkvæmt 2. gr. frumvarpsins heimilt að undanskilja fyrirtæki sem eru nær öllu leyti í samkeppni á markaði líkt og Landsbanki Íslands. Til þess að gefa viðkomandi fyrirtækjum, t.d. orkufyrirtækjum í eigu ríkis eða sveitarfélaga,  hæfilegan aðlögunartíma er mælt fyrir um það í gildistökuákvæði frumvarpsins að lögin gildi einungis um gögn og upplýsingar sem verða til eftir gildistöku laganna, þ.e. eftir 1. júlí 2011.
  2. Lagðar er til breytingar á kröfum til framsetningar á beiðnum um aðgang að gögnum, með það að markmiði að almenningi verði gert auðveldara en nú er að óska upplýsinga. Byggjast tillögur frumvarpsins á því að sá sem óskar aðgangs að gögnum þurfi eftir sem áður að tilgreina það málefni (efni máls) sem hann óskar að kynna sér. Hann mun hins vegar ekki þurfa að tilgreina með nákvæmum hætti það tiltekna mál sem beiðni hans lýtur að. Sú skylda verður að meginstefnu til lögð á stjórnvöld að finna þau mál sem falla undir það málefni sem tilgreint er í beiðni um aðgang að gögnum.
  3. Lagt er til að forsætisráðherra geti í reglugerð mælt fyrir um birtingu gagna og upplýsinga stjórnvalda á vefsíðum sínum. Er þetta fyrst og fremst til að tryggja samræmi og þar með bætt aðgengi almennings að þeim upplýsingum sem um ræðir. Jafnframt er tilgangurinn sá að gera stjórnvöld meðvitaðri um möguleikana á þessu sviði, til dæmis að því varðar birtingu lista yfir þau mál sem eru til meðferðar.
  4. Lagðar er til ýmsar breytingar á orðalagi sem lúta einkum að meðferð beiðna um aðgang að gögnum og málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Vert er þó að vekja sérstaklega athygli á þeirri tillögu sem fram kemur í 2. mgr. 11. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 19. gr. frumvarpsins, um skyldu stjórnvalda til að rökstyðja sérstaklega af hverju þau nýta ekki heimild til að veita aukinn aðgang að gögnum, umfram skyldu, sé hún á annað borð fyrir hendi. Þetta mun væntanlega hafa í för með sér að stjórnvöld muni í auknum mæli afhenda upplýsingar þótt það sé ekki beinlínis skylt.
  5. Að langstærstum hluta eru þær takmarkanir sem lagðar eru til á upplýsingarétti almennings óbreyttar frá gildandi lögum. Í 8. gr. eru þó ítarlegri skilgreiningar á því hvaða gögn flokkast til vinnugagna í því skyni að endurspegla vinnulag einkum innan Stjórnarráðs Íslands þar sem ráðuneyti vinnan gjarnan saman að úrlausn tiltekinna mála. Þá eru með hliðsjón af framkvæmd hjá úrskurðarnefnd upplýsingamála sett skýrari ákvæði um rétt til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna. Verði frumvarpið að lögum mun almenningur eiga skýlausan rétt til upplýsinga um föst launakjör starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Að því er fyrirtækin varðar mun þetta eiga við um föst launakjör æðstu stjórnenda.

Tengill í  frumvarpið: althingi.is/altext/139/s/0502.html

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum