Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. desember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Dregið úr losun öflugra gróðurhúsalofttegunda

fluorgas
Kælibúnaður

Ný reglugerð umhverfisráðuneytisins gerir auknar kröfur um menntun og starfsumhverfi bifvélavirkja, rafvirkja og starfsfólks í kæli- og frystiiðnaði. Markmið reglugerðarinnar er að draga úr losun flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda sem Kýótó-bókunin við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar nær yfir og stuðla að öruggari meðhöndlun þeirra. Þessar lofttegundir eru öflugar gróðurhúsalofttegundir með háan hlýnunarstuðul og hafa margföld áhrif á umhverfið til upphitunar lofthjúpsins miðað við koltvísýring (CO2). 

Reglugerðin gildir meðal annars um losun, notkun og meðhöndlun flúoraðra gróðurhúsalofttegunda, skráningu þeirra og merkingar. Hún gildir einnig um menntun og hæfni starfsmanna sem meðhöndla þær ásamt kröfum um þjálfun og vottun starfsmanna og fyrirtækja. Flúorgös eru aðallega notuð sem kælimiðlar á kæli- og frystibúnað og fyrir varmadælur.

Starfsmenn sem hlotið hafa viðurkenningu og vottun faggilds vottunaraðila munu fá starfsréttindi metin jafngild í öllum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins.

Reglugerðin er sett til að innleiða tíu reglugerðir Evrópusambandsins. Umhverfisstofnun veitir nánari upplýsingar um reglugerðina og framkvæmd hennar, meðal annars á  heimasíðu stofnunarinnar.

Reglugerð nr. 834/2010 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum