Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. desember 2010 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti taka gildi

Í dag taka gildi breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Þær fela í sér að kröfur sem skuldari ber ábyrgð á eftir lok gjaldþrotaskipta fyrnast á tveimur árum frá lokum  gjaldþrotaskipta.

Í dag taka gildi breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Þær fela í sér að kröfur sem skuldari ber ábyrgð á eftir lok gjaldþrotaskipta fyrnast á tveimur árum frá lokum  gjaldþrotaskipta.

Fyrningu krafna ekki slitið nema með dómi

Eftir þessa lagabreytingu verður meginreglan sú að fyrningu krafna verður ekki slitið á umræddu tveggja ára tímabili. Hins vegar getur lánardrottinn höfðað mál á hendur skuldara og fengið dóm þar sem fyrningarslit á kröfu hans eru viðurkennd. Hefst þá nýr fyrningarfrestur kröfunnar sem samkvæmt almennum reglum getur verið fjögur, tíu eða tuttugu ár eftir tegund kröfu.Til að fyrningarslit kröfunnar fáist viðurkennd með dómi þarf kröfuhafi að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fyrningunni verði slitið og jafnframt þarf hann að sýna fram á að líklegt sé að unnt verði að fullnusta kröfu hans á hinum nýja fyrningartíma.

Lögin taka allra krafna

Nýju reglurnar taka til allra krafna sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrotaskipti. Þetta á líka við þau tilvik þar sem skiptum lauk í tíð eldri laga eða þar sem skipti hófust í tíð eldri laga og lýkur eftir gildistöku þessara laga. Hafi skiptum lokið fyrir gildistöku þessara laga fyrnast þær kröfur sem ekki eru þegar fyrndar á tveimur árum frá gildistökunni, nema skemmri tími sé eftir af fyrningarfresti þeirra. Þá verður fyrningu þeirra einungis slitið með dómi.

Frekari upplýsingar eru veittar hjá Umboðsmanni skuldara, sími: 512-6600, netfang: [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum