Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. janúar 2011 Forsætisráðuneytið

Ísland 2020 - Framtíðarsýn og tillögur um fyrstu aðgerðir samþykkt í ríkisstjórn

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur stýrihóps Sóknaráætlunar undir heitinu Ísland 2020. Ísland 2020 er stefnumarkandi skjal sem felur í sér framtíðarsýn til ársins 2020, 20 mælanleg markmið um samfélagslega þróun og tillögur að aðgerðum til þess að vinna að þeim.

Stefnumörkunin Ísland 2020 varð til í umfangsmiklu samráði: samtölum og samvinnu hundruða Íslendinga um land allt og með þátttöku landshlutasamtaka, sveitarfélaga, verkalýðshreyfingar og samtaka í atvinnulífi auk fulltrúa Alþingis og fulltrúa Vísinda- og tækniráðs. Ísland 2020 er afrakstur stefnumótunarfunda, vinnu sérfræðihópa, stöðumats háskólastofnana og greiningar stjórnsýslunnar á því hvaða utanaðkomandi þættir gætu haft áhrif á þróun íslensks samfélags á næstu árum. Þessi vinna var undir merkjum Sóknaráætlunar sem ríkisstjórnin efndi til árið 2009. Markmið Sóknaráætlunar var að móta framtíðarsýn um að Ísland yrði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Ísland 2020 endurspeglar þá sýn og felur í sér stefnumörkun um uppbyggingu atvinnulífs og samfélags næstu 10 árin.

Tillögurnar sem fylgja stefnumörkuninni Ísland 2020 fela í sér forgangsröðun og áform sem nú verður hafin vinna við að innleiða á vettvangi ráðuneyta og stofnana. Helstu verkefni sem nú verður hafin vinna við eru:

Atvinnustefna

Mótuð verður atvinnustefna út frá þeim grundvallaratriðum sem mótuð hafa verið í samráði við aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa þingflokka og formenn vísindanefndar og tækninefndar.

Efnahagsáætlun til 2020

Langtímaáætlun í efnahagsmálum og fjármálum hins opinbera verður unnin til 5 og 10 ára. Hún verður lögð fram reglu­lega í formi skýrslu til Alþingis. Í henni verða dregnir fram styrkleikar og veikleikar í íslensku efnahagslífi, nauðsyn­leg stefnumótun og valkostir til framtíðar. Greiningin verður grundvöllur ákvarðana, umbóta og forgangsröðunar. Áætlunin verður endurskoðuð á þriggja ára fresti.

Samstarfsvettvangur um fyrstu aðgerðir í atvinnu- og vinnumarkaðsmálum

Settur verður á fót samstarfsvettvangur til að vinna að framgangi afmarkaðra verkefna sem falla undir Ísland 2020 og atvinnustefnu fyrir Ísland, ekki síst á sviði atvinnuþróunar, atvinnuuppbyggingar og vinnumarkaðsmála. Markmiðið er að efna þannig til víðtæks samráðs um verkefni á þessu sviði og tryggja með því að náð verði sameiginlegum markmiðum um öflugt atvinnulíf og samfélag um allt land. Til samstarfsins verða kallaðir fulltrúar stjórn­málaflokka, Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Samráð verður haft við nefndir Alþingis sem starfa á viðkomandi sviðum.

Fjárfestingaráætlun um þróun innviða, atvinnumála, mannauðs og samfélags

Lagt er til að allar viðameiri áætlanir ríkisins þar sem saman fara stefnumörkun, áætlanagerð og forgangsröðun fjár verði einfaldaðar, sameinaðar og samþættar. Markmiðið er að fjarlægja þá flöskuhálsa sem standa góðri efnahags- og samfélagsþróun fyrir þrifum, búa núverandi og uppvaxandi kynslóðir undir tækifæri og viðfangsefni framtíðarinnar, stuðla að sjálfbærri þróun og atvinnusköpun og tryggja skynsamlega forgangsröðun fjármuna og auðlinda í þágu lífsgæða um land allt. Ein kaflaskipt áætlun kveði á um fjárveitingar til lykilfjárfestinga sem þarf til að framtíðarsýn Íslands 2020 og aðgerðaáætlun fyrir atvinnulíf og samfélag nái fram að ganga. Í áætluninni felist jafnframt hvati fyrir samþættingu og einföldun opinberra stefna og áætlana á viðkomandi sviðum.

Sóknaráætlanir landshluta

Sóknaráætlanir verða unnar fyrir hvern landshluta sem fela í sér forgangsröðun og tillögugerð. sem tekur m.a. til:

  • Gerðar svæðisskipulagsáætlunar sem skilgreini stefnu um landnotkun á hverju svæði.
  • Áætlunar um eflingu sveitarfélaga með auknum verkefnum, samvinnu og sameiningu.
  • Áætlunar um sjálfbæra nýtingu orku, auðlinda og afurða á viðkomandi svæði.
  • Áætlunar um uppbyggingu grunnnets samgangna um land allt sem verði lokið fyrir árið 2020.
  • Áætlunar um samgöngumiðstöðvar í hverjum landshluta og eflingar almenningssamgangna innan svæða út frá þeim.
  • Stefnu um öruggt aðgengi að háhraðafjarskiptum um land allt.
  • Stuðnings við klasasamstarf fyrirtækja þar sem skilyrði eru fyrir hendi.
  • Einföldunar og endurskipulagningar á stoðkerfi atvinnu- og byggðaþróunar á viðkomandi svæði.
  • Vinnumarkaðs- og menntaáætlana viðkomandi svæðis sem taki mið af þörfum beggja kynja.
  • Stefnu um samstarf milli menntastofnana annars vegar og þekkingar- og nýsköpunarmiðstöðva hins vegar á hverju svæði.
  • Menningar- og ferðamálastefnu fyrir viðkomandi svæði.
  • Eflingar rafrænnar þjónustu og endurskipulagningar á opinberri þjónustu á hverju svæði.

Umbætur í opinberri stjórnsýslu og þjónustu

Unnin verður umbótaáætlun um nauðsynlegar breytingar í opinberri stjórnsýslu, þjónustu og rekstri. Áætlunin mun taka mið af þjónustusvæðum Íslands 2020, áætlunum um eflingu sveitarstjórnarstigsins, endurskipulagningu löggæslu, heilbrigðis- og velferðarþjónustu og þeirri brýnu þörf sem er fyrir hagræðingu í opinberum rekstri. Sérstaklega verður hugað að hugmyndum um þverfaglegar þjónustumiðstöðvar ríkis- og sveitarfélaga í heimabyggð (one-stop-shop).

Einföldun, fækkun og samþætting lögbundinna stefna og áætlana

Samhliða vinnu við gerð fjárfestingaáætlunar til langs tíma og sóknaráætlanir landshluta er lagt er til að unnar verði heildstæðar tillögur að breyttu skipulagi og aðferðafræði við stefnumótun og áætlanagerð innan stjórnsýslunnar. Markmiðið er að bæta yfirsýn og bæta vinnubrögð m.a. með því að fækka lögbundnum stefnum og áætlunum, tengja stefnumótun og áætlanagerð ráðuneyta betur við undirbúning fjárlaga og tryggja að árangursmat og eftirlit sé alltaf fyrir hendi. Unnar hafa verið fjölmargar mismunandi stefnur sem ekki hafa tengst innbyrðis s.s. samgönguáætlun, byggðaáætlun, skipulagsáætlun og ferðamálaáætlun sem nú verða sameinaðar eða unnar með samþættum hætti.

Öll gögn sem tengjast Sóknaráætlun og Ísland 2020 eru aðgengileg hér á vefsvæði forsætisráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum