Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. janúar 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 4. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn mánudaginn 10. janúar 2011, kl. 8:30, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6, 5. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar og Páll Þórhallsson (PÞ), skipaðir af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Magnús Pétursson (MP) fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ), fulltrúar BHM, BSRB og KÍ. Kristín Ástgeirsdóttir boðaði forföll.

Á síðasta fundi urðu miklar umræður um hver ætti að hafa eftirlit með því að ráðherrar færu að siðareglum og hvernig ætti að taka á brotum. PÞ ræddi málið við umboðsmann Alþingis og forsætisráðherra. Niðurstaða þess samráðs var að óheppilegt væri að sérstök ráðherranefnd fjallaði um brot á siðareglum.

Milli funda fékk PÞ lögfræðing í Stjórnarráðinu til að lesa yfir drög að siðareglum fyrir ráðherra og voru athugasemdir hans og ábendingar lagðar fyrir nefndina.  Siðareglum ástralskra ráðherra, eða „Standards of Ministerial Ethics“ eins og þeir kalla það, var einnig dreift til fróðleiks. Í umræðum um athugasemdirnar sagðist SÝÞ sammála því að það stingi í stúf að nefna kynlífsþjónustu sérstaklega í síðustu málsgrein þriðja liðar en eins og JÓ útskýrði er sú setning í beinu samhengi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn kynbundnu ofbeldi. MP tók undir það sjónarmið að gott væri að tiltaka sérstaklega að ekki mætti fela öðrum en pólitískum aðstoðarmönnum verkefni sem tengdust stjórnmálastarfi ráðherra. En hver á að geta kvartað ef ráðherra fer ekki eftir þeirri reglu og hvert á viðkomandi að snúa sér? Í framhaldinu var tekin upp umræðan um hvernig ætti að taka á brotum á reglunum. Samkvæmt lögum er hlutverk umboðsmanns Alþingis fyrst og fremst að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og gengið út frá því að málin varði þann sem kærir. Í því ljósi er erfitt að sjá fyrir sér að umboðsmaður verði úrskurðaraðili um brot á siðareglum og fundarmenn voru sammála um að heppilegast væri að kæra til umboðsmanns væri loka úrræði. JÓ lagði til að reglunum fylgdu einhvers konar tilmæli um notkun þeirra. PÞ taldi slíkt hæpið í tilviki ráðherra en benti á að í 17. grein laganna, d lið,  komi fram að samhæfingarnefnd eigi að stuðla að því að brugðist sé við ábendingum með samhæfðum hætti. Að hans mati gefur það færi á að bjóða upp á að samhæfingarnefnd geti verið til ráðgjafar.

Fyrir næsta fund sem var ákveðinn mánudaginn 17. janúar ætlar PÞ að lagfæra ráðherrareglurnar og senda til nefndarmanna. Í greinagerð/inngangi þurfi að koma fram að verið sé að prófa reglurnar sem verði endurskoðaðar að tveimur árum liðnum. Samkvæmt upplýsingum frá  ráðuneytisstjóra velferðaráðuneytisins verður bráðlega haldinn starfsmannafundur þar sem ræða á gildi ráðuneytisins. JÓ fól HF að ræða við starfsmann ráðuneytisins sem annast undirbúning fundarins og kanna möguleika á því að einhver úr samhæfingarnefndinni fái að sitja hann. Einnig ætlar HF að boða ráðuneytisstjóra velferðar- og innanríkisráðuneytisins á næsta fund nefndarinnar.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 9.45

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum