Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. janúar 2011 Forsætisráðuneytið

Opnun sýningarinnar „Óskabarn – Æskan og Jón Sigurðsson“

Jón Sigurðsson - afmælismerki
Jón Sigurðsson - afmælismerki

Sýningin Óskabarn – Æskan og Jón Sigurðsson verður opnuð í Þjóðmenningarhúsinu laugardaginn 15. janúar nk. kl. 15.

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, opnar sýninguna. Salóme Þorkelsdóttir, formaður stjórnar Þjóðmenningarhússins, og Sólveig Pétursdóttir, formaður Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar, flytja ávörp.

Sýningin er samstarfsverkefni Þjóðmenningarhússins og Afmælisnefndar og jafnframt fyrsti viðburður afmælisárs Jóns Sigurðssonar, en 17. júní n.k. verða liðin 200 ár frá fæðingu hans.

Sýningin er ætluð börnum. Þetta er litrík sýning um sveitastrák í Arnarfirði, búðarsvein í Reykjavík, stúdent og stjórnmálamann í Kaupmannahöfn; unnustuna þolinmóðu, fóstursoninn Sigga litla, byltingar í Evrópu og baráttumál Íslendinga á 19. öld. Persónur sögunnar eru felldar inn í samtíma Jóns Sigurðssonar á lifandi og skemmtilegan hátt.

Höfundar sýningarinnar eru Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur, sem m.a. hefur sent frá sér bæði Njálu og Eglu fyrir börn, og Sigurjón Jóhannsson myndlistarmaður, sem hefur langa reynslu af hönnun leikmynda og sýninga. Ólafur J. Engilbertsson sá um grafíska hönnun sýningar og kynningarefnis.

Viðfangsefni sýningarinnar mun koma út á bók seinna í vetur hjá Forlaginu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum