Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. janúar 2011 Forsætisráðuneytið

Velferð og grænn hagvöxtur í London

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og David Cameron forsætsiráðherra Bretlands á fundi leiðtoga Norðurlanda, Eystrasalts og Bretlands 19. janúar 2011
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og David Cameron forsætsiráðherra Bretlands á fundi leiðtoga Norðurlanda, Eystrasalts og Bretlands 19. janúar 2011

Á fundi leiðtoga Norðurlanda, Eystrasaltsríkja og Bretlands í gær lýstu forsætisráðherrarnir allir mikilli ánægju með árangur fundarins.  Fjölmörg verkefni og lausnir sem þar voru kynntar, geta nýst öðrum ríkjum og skapast hafa ýmis tækifæri til samstarfs.  Þar er bæði um að ræða samstarf milli fyrirtækja í svipuðum geirum en ekki síður möguleika fyrirtækja til samstarfs við opinbera aðila varðandi þjónustu og lausnir.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að umgjörð fundarins hefði verið óvenjuleg og alls ekki í því fasta formi sem leiðtogafundir oft eru. “Þarna komu saman sérfræðingar, forsætisráðherrar og embættismenn sem höfðu það markmið að kynna sér lausnir og aðferðir sem hafa gefið góða raun.  Kynningar íslensku aðilanna vöktu mikla athygli og nú þegar hefur eitt fyrirtækið, Mentor,  komið af stað samstarfsverkefni við Bretland með það í huga að byggja upp upplýsingagrunn fyrir skóla og heimili. Ég er mjög stolt og ánægð með framlag íslensku fulltrúanna á þessum fundi.” 

Forsætisráðherra fundaði einnig með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og ræddu þau ýmis tvíhliða mál landanna, meðal annars stöðu Icesave samningsins, Evrópusambandið og efnahagsmál.

Ennfremur ræddu þau sérstaklega um jafnréttismál og feðraorlof, en ljóst er að ríkisstjórn Bretlands hyggst setja sér markmið um launað feðraorlof sem raunverulega nýtist föður og barni, fyrir árið 2015.  Lýsti Cameron miklum áhuga á reynslu Íslands á þessu sviði og færði forsætisráðherra honum ritið “Equal Right to Earn and Care” sem kom út árið 2008, en þar er greint frá reynslu af upptöku og framkvæmd feðraorlofs hér á landi.

Jóhanna Sigurðurdóttir forsætisráðherra og David Cameron 19. janúar 2011

Um 45 sérfræðingar frá löndunum níu kynntu verkefni, lausnir og leiðir á fundi forsætisráðherranna. Gögn frá kynningunum eru aðgengileg á heimasíðu ráðstefnunnar , svo og upptaka af pallborðsumræðum forsætisráðherranna í lok ráðstefnunnar.  Kynningar íslensku fulltrúanna má einnig nálgast hér.

Forsætisráðherrarnir ákváðu að stefna að öðrum fundi innan árs og verður sá fundur haldinn í Svíþjóð.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum