Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. janúar 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 6. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn mánudaginn 24. janúar 2011, kl. 8:30, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6, 1. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Páll Þórhallsson (PÞ) og Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) skipuð af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ), fulltrúar BHM, BSRB og KÍ. Magnús Pétursson boðaði forföll.

Gestir fundarins voru þær Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri  innanríkisráðuneytisins, og Fjóla María Ágústsdóttir sem kom í stað Önnu Lilju Gunnarsdóttur, ráðuneytisstjóra velferðarráðuneytisins.

JÓ bauð gestina velkomna og sagði að hugmynd þess efnis að leita samstarfs við nýju, sameinuðu ráðuneytin um innleiðingu siðareglna hafi kviknað á fundi í byrjun desember. Að undanförnu hafi nefndin aðallega beint athyglinni að siðareglum fyrir ráðherra og nú lægju fyrir drög sem væntanlega yrðu kynnt fljótlega fyrir ríkisstjórninni. Samhæfingarnefndin hefði því samið ráðherrareglurnar en hugmyndin væri að efna til meira samstarfs og skoðanaskipta um siðareglur fyrir starfsmenn stjórnsýslunnar. Tillaga um „þjóðfund“ þar sem starfsmenn settu fram sínar hugmyndir væri því æskilegri en það fyrirkomulag að birta drög og biðja um athugasemdir. Þessi aðferð væri vissulega tímafrekari en nefndinni væri meira kappsmál að vanda til reglnanna en að koma þeim á sem fyrst.

Ragnhildur sagði að sér litist vel á þessa hugmynd og taldi mikilvægt að setja siðareglur. Samgönguráðuneytið sem nú er hluti sameinaðs innanríkisráðuneytis hafi verið með siðareglur sem hafi komið að góðum notum þótt ekki hafi reynt á þær í þeim skilningi að einhver hafi orðið uppvís að broti á reglunum. Fjóla sagði frá starfsdegi í velferðarráðuneytinu en þar var m.a. rætt um gildi nýja ráðuneytisins sem hafi verið mjög í anda gildanna sem fram komu á þjóðfundinum 2009. JÓ taldi æskilegast að umræður um siðareglur tengdust stefnumótunarvinnu nýju ráðuneytanna og tók Ragnhildur undir það  sjónarmið. Hann rakti stuttlega uppbyggingu siðareglna sem fylgdu frumvarpi um breytingar á stjórnarráðinu og í framhaldinu urðu nokkrar umræður um það hvort heppilegra væri að tala um siðareglur eða viðmið um rétta hegðun eða framgöngu. Áður en Ragnhildur og Fjóla véku af fundi var ákveðið að halda fund um siðareglur með starfsfólki beggja ráðuneyta fyrir lok febrúar. Ragnhildur ætlar að senda sínu starfsfólki póst og láta það vita af væntanlegum fundi.

HF tók að sér að kanna mögulegan fjölda og panta sal. PÞ ætlar að athuga hvort forsætisráðuneytið gæti borgað kostnað sem þessu fylgir eða hvort rukka þurfi fyrir þátttöku. JÓ sagðist gjarnan vilja kanna hvort við gætum fengið einhvers konar aðstoð frá þeim sem sinna þessum málaflokki hjá OECD.

Loks var farið yfir athugasemdir við drög að siðareglum fyrir ráðherra frá GHÞ. Meðal annars var yfirskrift 6. liðar breytt (um upplýsingagjöf) og einnig samþykkt að bæta inn texta um ráðningar. JÓ mun senda nefndarmönnum drögin með þessum breytingum við fyrsta tækifæri. Einnig var samþykkt að stefna að birtingu fundargerða.

Næsti fundur ákveðinn mánudaginn 14. febrúar kl. 8:30.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 9:50.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum