Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. janúar 2011 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra kynnir norðurslóðastefnu Íslands í Noregi

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra kynnti norðurslóðastefnu íslenskra stjórnvalda á ráðstefnu um norðurslóðamál sem nú stendur í Tromsö í Noregi. Um 700 manns sækja ráðstefnuna sem nú er haldin í fimmta sinn. Þá átti ráðherra fund með Jonasi Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs um norðurslóðamál og sameiginlega hagsmuni ríkjanna þar.

Í ræðu sem utanríkisráðherra hélt við opnun ráðstefnunnar, lagði hann áherslu á stöðu Íslands sem strandríkis á norðurslóðum og mikilvægi þess að allar ákvarðanir er vörðuðu framtíð svæðisins, væru teknar í góðri samvinnu við íbúa þess. Huga yrði að velferð íbúanna og leggja áherslu á aðgerðir til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga, aðgerðir til mengunarvarna og aðgerðir er styddu sjálfbæra þróun norðurslóða. Þetta ætti ekki síst við um rétt frumbyggja á svæðinu.

Ráðherra sagði nauðsynlegt að efla Norðurskautsráðið enda væri það mikilvægasti samráðsvettvanginn um málefni norðurslóða og miklu skipti að alþjóðlegar ákvarðanir um málefni norðurslóða væru teknar þar. Þá sagði hann aðkomu Evrópusambandsins að málefnum norðurslóða mikilvæga. Umsókn Íslands um aðild að ESB hefði ekki áhrif á stefnu Íslendinga í norðurslóðamálum heldur myndi hún þvert á móti styrkja hana. Ísland ætlaði sér að hafa áhrif á norðurslóðastefnu sambandsins, samþykkti íslenska þjóðin aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ræðu utanríkisráðherra um norðurslóðamál (á ensku) má lesa hér

Þingsályktunartillaga um norðurslóðastafnuna er nú til meðferðar á Alþingi. Hana má lesa hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum