Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. febrúar 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ramsarsamningurinn um votlendi 40 ára

Ramsarsamningurinn um votlendi 40 ára
RAMSAR

Í dag eru fjörutíu ár liðin frá því að samkomulag náðist um Ramsarsamninginn, alþjóðlegan samning um vernd votlendis. Samningurinn er fyrsti alþjóðasamningurinn um náttúruvernd og sjálfbæra nýtinu náttúruauðlinda. Átján þjóðir skrifuðu undir samninginn í borginni Ramsar í Íran árið 1971 en nú eiga 160 þjóðir aðild að samningnum.

Stærsta net verndarsvæða í heiminum

Markmið Ramsarsamningsins er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, með áherslu á vernd alþjóðlegra mikilvægra svæða sem eru búsvæði votlendisfugla. Hvert aðildarríki samningins er skuldbundið til að tilnefna að minnsta kosti eitt alþjóðlega mikilvægt svæði á votlendisskrá samningsins. Votlendissvæði telst mikilvægt á alþjóðavísu þegar það fóstrar reglulega plöntu- og dýrategundir á viðkvæmu stigi lífsferils eða veitir þeim athvarf við erfið skilyrði, þegar það fóstrar reglulega 20.000 votlendisfugla og þegar það fóstrar reglulega 1% af einstaklingum stofns einnar tegundar. Nú telur skráin rúmlega 1.900 svæði sem ná yfir 186 milljónir hektara. Votlendisskrá Ramsarsamningsins er því stærsta net verndarsvæða í heiminum.

Þátttaka Íslands

Ísland gerðist aðili að Ramsarsamningnum árið 1978 og skuldbatt sig þar með til að lúta ákvæðum hans sem eru meðal annars þau að tilnefna votlendissvæði á lista samningsins, stuðla að skynsamlegri nýtingu votlendissvæða, stofna friðlönd á votlendissvæðum og þjálfa starfsmenn þeirra, auk þess að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um votlendisverndun. Ísland hefur tilnefnt þrjú svæði; Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörð. Nú er unnið að tilnefningu þriggja svæða til viðbótar. Þau eru Andakíll við Hvanneyri, Guðlaugstungur og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið. Andakíll er mikilvægur viðkomustaður blesgæsa og annarra votlendisfugla vor og haust og Guðlaugstungur og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið eru mikilvæg varp- og beitilöng heiðagæsa.

Margþætt mikilvægi votlendissvæða

Mikilvægi votlendissvæða er margþætt. Þau hafa mikið efnahagslegt gildi þar sem þau eru uppspretta margvíslegra auðlinda og fæðu, til dæmis fiska og fugla og eru vinsæl svæði fyrir ferðaþjónustu. Auk þess fóstra votlendi líffræðilega fjölbreytni og veita ýmis konar vistfræðilega þjónustu, þau eru til dæmis mikilvæg við vatnsmiðlun og hreinsun vatns og draga einnig úr áhrifum flóða. Endurheimt votlendissvæða eru líka mikilvæg við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en losun frá framræstu votlendi er veruleg, meira en til dæmis frá allri flugumferð. Verndun og endurheimt votlendis er því mikilsvert verkefni á sviði sjálfbærrar þróunar og til verndunar lífríkis og loftslags.

Eiga undir högg að sækja

Votlendissvæði eyðast hraðar en nokkurt annað vistkerfi á jörðinni samkvæmt Árþúsundaskýrslu Sameinuðu þjóðanna  sem gefin var út árið 2005. Nýjustu rannsóknir benda til þess að votlendissvæði séu undir auknu álagi vegna mannfjölgunar, aukinnar þéttbýlismyndunar, aukins landbúnaður og síaukinnar eftirspurnar eftir vatni.

Bæklingur um 40 ára sögu Ramsarsamningsins.  

Heimasíða Ramsarsamningsins

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum