Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. febrúar 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samkomulag um friðlýsingu á Langasjó og hluta Eldgjár

Langisjór, Fögrufjöll og Skaftá
Langisjór, Fögrufjöll og Skaftá

Umhverfisráðuneytið og sveitarstjórn Skaftárhrepps hafa náð samkomulagi um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs innan lögsögu sveitarfélagsins. Samkvæmt samkomulaginu mun verða unnið að friðlýsingu á Langasjó, hluta Eldgjár og nágrennis eins og lagt er til í Náttúruverndaráætlun 2009-2013. Innan þessa svæðis eru náttúruminjar sem taldar eru hafa mikið gildi á heimsvísu, auk hins háa útivistar, fræðslu og vísindagildis svæðisins.

Tímamótaáfangi í náttúruvernd

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir samkomulagið tímamótaáfanga í náttúruvernd hér á landi. Langisjór og nágrenni sé einstök náttúruperla sem verði vernduð fyrir komandi kynslóðir samkvæmt þessari ákvörðun. Hún segir mjög ánægjulegt að samkomulag hafi náðst um þetta við sveitarstjórn Skaftárhrepps.

Unnið gegn gróður- og landeyðingu

Í tengslum við samkomulagið hefur sveitarstjórn Skaftárhepps unnið að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar þann 14. febrúar þar sem umrædd stækkun þjóðgarðsins kemur meðal annars fram.

Skaftárhreppur og umhverfisráðuneytið hafa jafnframt gert með sér samkomulag um stýrihóp vegna aðgerða gegn gróður- og landeyðingu á áhrifasvæði Skaftár. Mun hópurinn hefja störf nú í vor til að vinna að brýnum viðfangsefnum á Skaftársvæðinu í samstarfi við hlutaðeigandi aðila.

Náttúrufegurð og sjaldgæfar vistgerðir

Stækkunin tekur til tveggja svæða á Náttúruverndaráætlun 2009-2013, samtals um 420 km2

Annað svæðið Langisjór – Tungnárfjöll hefur að geyma víðerni og einstakar jarðmyndanir sem tengjast eldvirkni á löngum gossprungum. Meðal þeirra eru móbergshryggirnir Grænifjallgarður og Fögrufjöll, sem mynduðust við gos undir jökli á ísöld, og norðausturhluti Eldgjár sem gaus árið 934 gríðarmiklu hraungosi. Langisjór er eitt stærsta ósnortna stöðuvatn á hálendi landsins, um 25 km2, og rómað fyrir náttúrufegurð. Þá nær fyrirhuguð stækkun til efsta hluta Skaftár og Skaftáreldahrauns norðvestan Lakagíga sem þegar eru friðlýstir sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hitt svæðið sem fyrirhugað er að fella inn í þjóðgarðinn er efsti hluti Skaftáreldahrauns suðaustan Lakagíga. Markmið þeirrar friðlýsingar er að vernda staðbundna og afar sjaldgæfa vistgerð á hálendinu, breiskjuhraunavist, í einu stærsta hrauni sem runnið hefur á jörðinni á sögulegum tíma.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um svæðin í Náttúruverndaráætlun 2009-2013.

Einnig má nálgst upplýsingar í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2006 um náttúrufar og náttúruminjar suðvestan Vatnajökuls

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum