Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. mars 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2010

| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |

Á árinu 2010 voru kveðnir upp 14 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess, þrír hæstaréttardómar, sjö héraðsdómar og fjórir félagsdómar.

Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum.

1. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. janúar 2010 í máli nr. E-4538/2009: X gegn Landspítala

TILFLUTNINGUR Í STARFI. STJÓRNVALDSÁKVÖRÐUN. UPPSÖGN AÐ FRUMKVÆÐI STARFSMANNS.
X, hjúkrunarfræðingur, starfaði hjá L fram í október 2006 þegar henni var tilkynnt með bréfi sú ákvörðun stjórnenda geðsviðs L að flytja X á milli deilda á geðsviði. Samkvæmt bréfinu var ákvörðunin tekin í kjölfar atviks sem gerðist á milli tveggja hjúkrunarfræðinga á heimili annars þeirra en lýsing beggja aðila á atvikinu leiddi líkur að því að farsælast væri að hjúkrunarfræðingarnir ynnu ekki náið saman. Með bréfinu var X tilkynnt að deildarstjóri deildar 15 ætti von á henni til vinnu 23. október 2006. Daginn sem X átti að mæta til vinnu á deild 15 skrifaði lögmaður hennar sviðsstjóra L bréf þar sem fram kom að X myndi ekki una ákvörðun L. Jafnframt var tilkynnt að X myndi ekki mæta til starfa á nýju deildina þann dag vegna veikinda sem hún rakti til ákvörðunarinnar og aðdraganda hennar. Einnig var krafist rökstuðnings fyrir ákvörðun um flutning X á aðra deild. Krafðist X skaðabóta úr hendi L vegna tekjutaps með því að henni hefði verið gert ókleift að sinna starfi sínu allt frá 17. október 2006. Krafðist X þess að fá bættan tekjumissi tímabilið 1. nóvember 2006 til 1. október 2007 auk þess sem krafist var uppgjörs á orlofslaunum. Ríkislögmaður synjaði erindi X og vísaði til bréfs fjármálaráðuneytisins sem ritað var í tilefni af kröfubréfinu. Þar var á því byggt að frumkvæði að starfslokum hafi komið frá X. Ekkert í ákvörðun L hafi gefið X tilefni til þess að hún mætti líta svo á að um uppsögn eða brottrekstur hennar úr starfi væri að ræða og því síður að L hefði gert X ókleift að sinna starfi sínu. X fékk greidd veikindalaun frá L samkvæmt gildandi kjarasamningi þann tíma sem hún hafi verið óvinnufær til 18. mars 2007 og átti því ekki rétt til frekari greiðslna vegna þess tímabils sem hún var óvinnufær. Þá hafi X borið að uppfylla vinnuskyldu samkvæmt 16. gr. starfsmannalaga og mæta til vinnu eftir að veikindum lauk. Um þá ástæðu að mæta ekki til vinnu sagði héraðsdómur að við mat á því hvort X hafi verið skylt að mæta til vinnu eftir að veikindum lauk samkvæmt 16. gr. laga nr. 70/1996 á grundvelli þeirrar meginskyldu starfsmanna samkvæmt 15. gr. sömu laga að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanna, eins og L heldur fram, verður ekki horft fram hjá því að fyrir liggur dómur Hæstaréttar (430/2007) um að ákvörðunin um tilfærslu X milli deilda á geðsviði væri ólögmæt. X bar því ekki að hlíta þeirri ákvörðun og mæta til vinnu á þeim forsendum. Um kröfu X vegna tekjumissi sagði héraðsdómur að með því að L rétti ekki hlut X og gerði henni ekki kleift að mæta til starfa á sinn fyrri vinnustað hjá L verði að líta svo á að forsendur ráðningarsamnings aðila hafi brostið og lagði héraðsdómur til grundvallar að mánuði eftir að X bauð fram vinnuframlag sitt með bréfinu frá 31. maí 2007 hafi henni verið rétt að líta svo á að aðgerðaleysi L jafngilti uppsögn ráðningarsamnings þeirra. Féllst héraðsdómur á það með X að hún ætti rétt til bóta af þeim sökum vegna tekjumissis tímabilið 1. nóvember 2006 til 24. september 2007 er hún réð sig í nýtt starf. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 244/2010.

2. Dómur Félagsdóms frá 22. janúar 2010 í máli nr. 6/2009: Landssamband lögreglumanna gegn íslenska ríkinu

REGLUR UM VINNUFYRIKOMULAG. BAKVAKT. HVÍLDARDAGAR.
Ágreiningsefni aðila laut að túlkun á ákvæðum kjarasamnings milli LL og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs frá 30. apríl 2005, sem gerður var á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. LL hafði uppi fjórar viðurkenningarkröfur er lutu að ákvæðum í gildandi kjarasamningi aðila og reglum Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu nr. V002/2008 um vinnutíma rannsóknardeilda varðandi bakvaktir. Taldi LL að reglurnar hefðu verið settar einhliða af embætti LRH, þrátt fyrir mótmæli LL og einstakra rannsóknarlögreglumanna. Í niðurstöðu dómsins kom fram að úrlausnarefnið væri þríþætt. Í fyrsta lagi væri tekist á um þá kröfu LL að viðurkennt yrði að einhliða setning LRH á reglum um vinnutíma rannsóknardeilda við embættið hafi verið andstæð grein 2.1.2 í kjarasamningi milli LL og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Lögreglumönnum, sem starfa við umræddar deildir embættisins, bæri því ekki skylda til að fara eftir reglunum. Í öðru lagi væri til úrlausnar sú krafa LL að viðurkennt yrði að skýra bæri grein 2.6.13 í umræddum kjarasamningi þannig að lögreglumenn, sem náð hafi 55 ára aldri, skuli undanþegnir bakvaktarskyldu á næturvinnutíma. Í þriðja lagi væri til meðferðar sú krafa LL að viðurkennt yrði að skerðist hvíld, t.d. vegna vinnu á hvíldardegi, skuli hún að fullu bætt og verði tveir hvíldardagar teknir saman á grundvelli 3. mgr. greinar 2.4.4 kjarasamningsins eigi lögreglumaður rétt á 70 klst. samfelldri hvíld, sbr. 1. mgr. greinar 2.4.4 og grein 2.4.5.5 í kjarasamningnum. Niðurstaða dómsins var sú að íslenska ríkið var skýknað af kröfum LL.

3. Dómur Hæstaréttar frá 18. mars 2010 í máli nr. 441/2009: A gegn íslenska ríkinu

LÍFEYRISGREIÐSLA. VIÐMIÐUNARFJÁRHÆÐ. VÍSITÖLUBINDING.
A starfaði hjá Útvegsbanka Íslands. Í upphafi starfaði A við almenn lögfræðistörf en varð síðan aðallögfræðingur bankans. Síðar var A ráðinn aðstoðarbankastjóri ásamt starfi aðallögfræðings en í tengslum við niðurlagningu Útvegsbanka Íslands var honum sagt upp störfum. A hóf töku eftirlauna í desember 1988. Ágreiningur kom upp um útreikning eftirlauna A. Krafðist A aðallega að viðurkennt yrði með dómi að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna A, eins og hún var 1. janúar 1998, skyldi fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn, sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir, frá 1. janúar 1998 til 1. nóvember 2008 en frá og með 1. nóvember 2008 skyldi viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna A miðast við laun bankastjóra Nýja Landsbanka Íslands hf., eins og þau væru á hverjum tíma og taka breytingum í samræmi við þau. Niðurstaða héraðsdóms var sú að íslenska ríkið var sýknað af kröfu A þar sem dómurinn leit svo á að A hefði sönnunarbyrðina fyrir því að honum bæri réttur til lífeyris í samræmi við kröfugerð sína. Gegn andmælum íslenska ríkisins hefði A ekki fært rök að því að honum bæri þau réttindi sem hann krafðist. Studdust kröfur A hvorki við samninga né ákvæði laga eða reglna og ekki hefði verið sýnt fram á annað en að eftirlaun A sættu sömu viðmiðum og annarra sem svipað væri ástatt um, svo sem eftirlaun fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands, eins og að var stefnt af hálfu íslenska ríkisins. Féllst dómurinn því ekki á að ákvarðanir íslenska ríkisins varðandi eftirlaun A hafi verið ómálefnalegar eða andstæðar lögum eða stjórnarskrá. Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi að orðalagið „almennar launabreytingar bankastarfsmanna“ gæti aðeins vísað til almennra launahækkana sem ákveðnar væru í kjarasamningum, en einstaklingsbundnar launahækkanir, flokkatilfærslur og aðrar hækkanir, sem ekki væru almennar, gætu þar ekki komið til álita. Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna héraðsdóms staðfesti Hæstaréttur niðurstöðu héraðsdóms

4. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. mars 2010 í máli nr. E-3228/2009: Þ gegn íslenska ríkinu

TÍMABUNDIN RÁÐNING. SAMFELLT LENGUR EN Í TVÖ ÁR.
Þ var ráðinn tímabundið sem sögukennari við MK haustið 2002. Var Þ ráðinn tímabundið til eins árs við skólann eða frá 1. ágúst 2002 til 31. júlí 2003. Kenndi Þ 22 kennslustundir og var þannig í 95% starfi. Sá samningur var síðan endurnýjaður frá 1. ágúst 2003 til 31. júlí 2004 og var þá miðað við 100% starfshlutfall. Haustið 2004 var enn á ný gerður tímabundinn ráðningarsamningur við Þ í 100% starf frá 1. ágúst 2004 til 31. júlí 2005. Haustið 2005 var útbúinn ráðningarsamningur við Þ sem átti að gilda frá 1. ágúst 2005 en Þ neitaði að skrifa undir þann samning. Skólameistari MK útbjó á ný samning við Þ sem átti að gilda frá 1. janúar 2006 til 31. júlí s.á. en Þ neitaði einnig að skrifa undir þann ráðningarsamning. Með tölvupósti 6. júní 2006 tilkynnti skólameistari MK að ekki gæti orðið af frekari ráðningu Þ hjá skólanum og starfaði Þ ekki við skólann eftir það. Þ kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna fyrirkomulags ráðningar hans til kennslu við MK og starfsloka hans við skólann. Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis var það niðurstaða hans að sú ákvörðun MK haustið 2004 að bjóða Þ aðeins tímabundinn ráðningarsamning eftir að hann hafði starfað við skólann samfellt í tvö ár hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með bréfi Félags framhaldsskólakennara til MK í apríl 2008 var þess óskað að skólinn tæki afstöðu til þess með hvaða hætti yrði komið til móts við Þ í ljósi álits umboðsmanns Alþingis. MK hafnaði bótaskyldu. Þ stefndi því íslenska ríkinu til greiðslu skaðabóta vegna þessa. Þ byggði dómkröfur sínar í málinu á því að hann hafi átt rétt á fastráðningu í starf sem framhaldsskólakennari við MK haustið 2004. Sú ákvörðun skólameistara MK að hafna beiðni hans um fastráðningu hafi verið ólögmæt. Þá byggði Þ einnig á því að hann hafi haft stöðu fastráðins starfsmanns þegar honum var einhliða tilkynnt með tölvupósti 6. júní 2006 að hann yrði ekki ráðinn áfram hjá MK. Fram kom í málatilbúnaði ríkisins að það taldi ekki heimilt að ráða starfsmenn tímabundið samfellt í lengri tíma en tvö ár, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 og ákvæði laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna. Því bar við lok þess tíma sem Þ hafði starfað tímabundið í 2 ár að auglýsa stöðuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, enda hefði starfið þá átt að vera laust. Hins vegar taldi ríkið að ósannað væri með öllu hverjir hefðu sótt um starfið að undangenginni auglýsingu. Að mati ríkisins var útilokað að segja að skólameistara hafi borið að fastráða Þ eins og hann hélt fram. Þ hafi aðeins átt rétt á fastráðningu ef hann væri talinn hæfastur umsækjenda að undangenginni auglýsingu um starfið. Dómurinn féllst á það með Þ að hann hefði átt rétt á ótímabundinni ráðningu er hann var ráðinn áfram til kennslu við MK haustið 2004. Þau sjónarmið MK að ekki gæti komið til fastráðningar Þ við skólann vegna minnkandi kennslumagns í sögu og breytinga á námskrá framhaldsskóla og skólaskrá skólans breyttu engu í þessu efni. Þá féllst dómurinn ekki á þá málsástæðu að auglýsa hefði átt starfið aftur að loknum tveggja ára starfstíma Þ með þeim rökum að Þ hafi upphaflega verið ráðinn tímabundið á grundvelli auglýsingar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 og kom ekki til álita að starfið yrði auglýst að nýju. Sú ákvörðun MK að gera aðeins tímabundinn ráðningarsamning við Þ haustið 2004 braut því gegn 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, sbr. og ákvæði laga nr. 139/2003 og var því dæmd ólögmæt og var MK bótaskylt gagnvart Þ vegna þessa.

5. Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 7. maí 2010 í máli nr. E-580/2007: S gegn Háskólanum á Akureyri

UPPSÖGN. SKIPULAGSBREYTINGAR/SAMDRÁTTUR Í REKSTRI.
S starfaði sem dósent í stærðfræði og eðlisfræði við HA og var kennaradeild skólans síðasti starfsvettvangur hans. Með bréfi rektors í maí 2006, var S sagt upp störfum frá og með 1. júní það ár. Í bréfi rektors sagði meðal annars, að vegna viðvarandi fjárhagsvanda HA hafi verið gripið til umfangsmikilla skipulagsbreytinga sem miði að því, að rekstur HA verði framvegis innan ramma fjárlaga. Mikilvægur þáttur í breyttu skipulagi sé að sameina viðskipta-, upplýsingatækni- og auðlindadeild í eina deild, viðskipta- og raunvísindadeild. Kennsla skuli hefjast í nýrri sameiginlegri deild haustið 2006. Þá sagði að í nóvember 2005 hafi háskólaráð samþykkt að draga skyldi úr og einfalda námsframboð í félagsvísinda- og lagadeild og hafi ráðið jafnframt fjallað um sameiningu kennaradeildar við félagsvísinda- og lagadeild og falið rektor að gera áætlun um tímaramma og málsmeðferð. Sameining deilda hafi þegar leitt til breytinga á námsframboði einstakra deilda og væru frekari breytingar fyrirhugaðar, svo sem í þá veru að breyta skipulagi náms þannig að deildir sérkenni síður tilteknar fræðigreinar heldur sæki nemendur þess í stað sambærileg námskeið í aðrar deildir. Hafi þetta þegar dregið úr kennsluþörf. Sagði í bréfinu að vegna þessara breytinga og minni þarfar fyrir starfsfólk sé ráðningarsamningi S sagt upp og skuli starfslok, að loknum þriggja mánaða uppsagnarfresti, vera í lok ágúst 2006. S krafðist rökstuðnings fyrir uppsögninni og fékk hann með bréfi rektors í júní 2006. S höfðaði síðan mál og krafðist bóta fyrir ólögmæta uppsögn. Héraðsdómur taldi að HA hefði ekki staðið réttilega að uppsögninni. S hefði aðeins verið borinn saman við samkennara innan kennaradeildar en ekki við aðra kennara, í sömu fræðigreinum, í skólanum í heild. Taldist HA því hafa brotið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, uppsögnin ólögmæt og skólinn dæmdur til að greiða S skaðabætur. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 472/2010.

6. Dómur Héraðsdóms Vestfjarða frá 19. maí 2010 í máli nr. E-118/2009: U gegn sýslumanninum á Ísafirði

ÁMINNING. ÓGILDINGARMÁL. STJÓRNVALDSÁKVÖRÐUN.
U, löglærður fulltrúi, var boðuð á fund S í júlí 2009 sem afhenti henni bréf þar sem fram kom að S ráðgerði að áminna U „[...] fyrir óhlýðni við fyrirmælum yfirmanns, óvandvirkni í starfi og fyrir að sýna ekki fullnægjandi árangur í starfi.“ Var í bréfinu meðal annars vísað til 14., 15. og 21. gr. laga nr. 70/1996 til stuðnings fyrirætlan S. Í niðurlagi bréfs S var U veittur frestur til andmæla. Lögmaður U sendi S bréf í júlí 2009 og skoraði á S að falla frá öllum áformum um áminningu þar sem ráðagerð S styddist ekki við nokkur efnisleg rök, auk þess sem ekki yrði séð að málsmeðferð hans samræmdist góðum stjórnsýsluháttum eða meginreglum stjórnsýslulaga. Bréfi lögmannsins fylgdi skrifleg greinargerð U þar sem farið var yfir mál þau sem S hafði vísað til í fyrrnefndu bréfi sínu. Í júlí 2009 var U boðuð að nýju á fund S sem afhenti henni áminningu skv. 21. gr. laga nr. 70/1996. Var í áminningarbréfinu vísað til flestra þeirra sömu atriða og í fyrra bréfi S og áréttað það mat hans að U hefði brotið gegn starfsskyldum sínum skv. 14. og 15. gr. nefndra laga. U höfðaði mál til ógildingar áminningu. Dómurinn taldi að U hefði ekki nægjanlega sinnt starfsskyldum sínum við meðferð sifjamáls og þá hefði U viðurkennt að hafa gert ákveðin mistök við afgreiðslu nauðungarsölumáls og dánarbúsmáls. Þá skorti einnig á að gögn í nauðungarsölumáli og tveim sifjamálum bæru með sér hver staða málanna væri er S tók meðferð þeirra yfir í leyfi U. Ennfremur dróst meðferð síðastnefnda málsins úr hófi hjá U. Dómurinn taldi hins vegar ekki fram hjá því litið að áminning skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 væri íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem leitt gæti til starfsmissis. Taldi dómurinn ekki séð að S hafi, áður en hann veitti U áminningu á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996, aðhafst nokkuð það sem með réttu verður talin tilraun til að fá U til að taka sig á í starfi og laga vinnubrögð sín að kröfum S. Að því athuguðu, og að virtu eðli þeirra mannlegu mistaka U sem áður var getið, taldi dómurinn að S hefði brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að áminna U án þess að grípa áður til annarra og vægari úrræða. Niðurstað dómsins var því sú að áminningin var felld úr gildi.

7. Dómur Félagsdóms frá 4. júní í máli nr. 3/2010: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga f.h. K gegn íslenska ríkinu vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

KJARASAMNINGUR. AKSTUR.
F krafðist þess að viðurkennt yrði að ákvörðun HS, sem tilkynnt var K, hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöðinni L, um að segja upp föstum greiðslum fyrir akstur í starfi, sé andstæð grein 5.4.1 í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dags. 28. febrúar 2005, sbr. samkomulag dags. 9. júlí 2008 um breytingar og framlengingu á kjarasamningi. Dómurinn féllst á að kjarasamningsákvæðið gæti átt við um K þar sem vinnustaður hennar væri utan þess svæðis sem almenningssamgöngur ná almennt til. Sú túlkun ákvæðisins var í samræmi við dóm Félagsdóms í máli nr. 5/2009. Akstursgreiðslur áttu sér því stoð í greindu ákvæði kjarasamningsins og var ósannað að um einstaklingsbundin ráðningarkjör hafi verið að ræða enda var þeirra í engu getið í ráðningarsamningi. Lagði dómurinn því til grundvallar að um starfskjör K að þessu leyti færi samkvæmt grein 5.4.1 í kjarasamningi aðila. Sú ákvörðun HS að segja upp föstum greiðslum til K fyrir akstur í starfi, var því andstæð fyrrnefndu kjarasamningsákvæði.

8. Dómur Félagsdóms frá 24. september 2010 í máli nr. 6/2010: Tollvarðafélag Íslands gegn íslenska ríkinu vegna tollvarða við embætti sýslumannsins á Akureyri

BAKVAKTAGREIÐSLUR. SAMKOMULAG.
Dómkröfur TÍ voru þær að viðurkennt yrði að tollvörðum, sem störfuðu við embætti sýslumannsins á Akureyri og unnu samkvæmt samningi, dagsettum 15. júlí 1993, um vinnutíma tollvarða á Akureyri, sbr. samkomulag dagsett 3. júní 1993 um bakvaktaálag tollvarða, skyldi veitt frí fyrir reglubundna bakvakt, sem skipulögð er allt árið, í samræmi við grein 2.5.4 í kjarasamningi TÍ og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs, sem undirritaður var 6. júní 2005, óháð efni áðurnefnds samnings frá 15. júlí 1993. S vísaði til forsögu kjarasamningsákvæða um bakvaktir og frítökurétt tollvarða í kjarasamningi málsaðila og sé það álit S að á meðan TÍ hafi ekki óskað eftir endurskoðun á samkomulaginu frá 15. júlí 1993, með hliðsjón af breyttum kjarasamningum, sé samkomulagið enn í fullu gildi. Í kjarasamningi málsaðila sé heimild í grein 2.5.6 til að gera breytingu á fyrra samkomulagi. Þar sem ekki sé getið um frítökurétt í samkomulaginu frá 1993 sé það álit S að tollverðir við embætti tollstjórans á Akureyri eigi ekki frítökurétt samkvæmt grein 2.5.4 í kjarasamningi málsaðila vegna bakvakta sem byggja á samningi um bakvaktaálag tollvarða frá 15. júlí 1993. Krafðis S því sýknu af kröfum TÍ. Niðurstaða dómsins varð sú að hann tók undir það með S að á meðan í gildi væri sérstakt samkomulag um bakvaktagreiðslur tollvarðanna, sem telja yrði tæmandi, bæri þeim ekki réttur til frís á grundvelli greinar 2.5.4 í kjarasamningi aðila án þess að um það sé sérstaklega samið. Var S því sýknað af kröfu TÍ.

9. Dómur Hæstaréttar frá 21. október 2010 í máli nr. 702/2009: S gegn íslenska ríkinu og gagnsök

RÁÐNINGARSAMNINGUR. UPPSÖGN. SKAÐABÆTUR.
S starfaði sem sérfræðingur á skurðlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og rak jafnframt læknastofu utan sjúkrahússins. S var ráðinn sem yfirlæknir hjá L í júlí 2002 og ritaði af því tilefni undir tvö skjöl. Í öðru þeirra var meðal annars kveðið á um að hann myndi hætta stofurekstri utan sjúkrahússins fyrir árslok 2004 svo fremi sem aðstaða og starfsumhverfi til slíkrar starfsemi væri þá viðunandi innan veggja L að áliti samningsaðila. Snemma árs 2005 vöktu stjórnendur L máls á því við S að hann hætti rekstri læknastofu sinnar, en hann svaraði því til að fyrrgreind skilyrði væri ekki uppfyllt og honum það því óskylt. Ágreiningur reis á milli aðila sem leiddi til þess að L veitti honum áminningu og í kjölfarið var honum sagt upp störfum í nóvember 2005. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur (E-7184/2005) var áminning L til S dæmd ólögmæt. Í kjölfarið leitaði S eftir því að uppsögnin yrði dregin til baka en því var hafnað. S höfðaði mál og krafði L um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 139.144.180 krónur, sem svaraði til tekna S í starfi við sjúkrahúsið í tíu ár og jafnframt um 10.000.000 króna í miskabætur. Í málinu var óumdeilt milli aðila að uppsögn S hjá L hafi verið ólögmæt. Ágreiningur snérist því einungis um bætur til handa S. Talið var að samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar yrði að ákveða S bætur að teknu tilliti til aðstæðna, launatekna og kosta hans á störfum, allt miðað við þann tíma, þegar hann lét af störfum. Til þess yrði að líta að S hafi látið af stöðu dósents við læknadeild HÍ eftir að hann lét af störfum hjá L og mætti líta svo á að þessi stöðumissir hafi tengst uppsögn hans úr starfi. Við ákvörðun skaðabóta vegna fjártjóns S yrði ekki litið fram hjá því að hann hafði samið við upphaf starfa hjá L að hann léti af rekstri eigin læknastofu í árslok 2004. Þrátt fyrir ágreining um hvort L hefði fyrir sitt leyti efnt þær skyldur sem samið hefði verið um, hafi S engan veginn geta vænst þess að njóta um ókomna framtíð óbreyttra kjara með annars vegar launum frá L og hins vegar tekjum og hagnaði af eigin rekstri. Voru bætur til S taldar hæfilega ákveðnar 5.000.000 krónur. Þá féllst dómurinn ekki á með S að stjórnendur L hefðu sýnt ásetning um að brjóta rétt á honum eða beitt hann misgerð, né að rýrð hefði verið kastað á starfsheiður hans sem sérfræðilæknis. Var kröfu S um miskabætur því hafnað.

10. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. nóvember í máli nr. E-1766/2010: F gegn Landspítala

STARFSHLUTFALL.
F starfaði sem yfirlæknir á L. Samkvæmt ráðningarsamningi var starfshlutfall hans 70%. Þetta starfshlutfalla var hækkað í 100% með skriflegu samkomulagi í nóvember 2000. Samhliða starfi sínu á spítalanum rak F eigin læknastofu. Ekki var um það deilt í málinu að þegar starfshlutfall F hækkaði í 100% í nóvember 2000 dró hann jafnframt úr eigin rekstri. Upplýst var við skýrslutökur fyrir dómi að á tímabilinu frá 1. júní 2006 hafi F sinnt störfum á eigin stofu fyrir hádegi tvo daga vikunnar. Í kjarasamningi milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskuspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, sem undirritaður var 2. maí 2002 með gildistímann frá 1. apríl 2002 til 31. desember 2005, var gerð sérstök bókun, bókun 2, er tók til þeirra lækna sem ráku læknastofur jafnhliða starfi sínu. Skyldu þeir eiga val um hvort þeir lækkuðu starfshlutfall sitt um fimmtung eða tækju laun samkvæmt launatöflu sem væri 20% lægri en launatafla í grein 3.1.1. Ef læknir veldi að lækka starfshlutfall sitt átti sú ákvörðun að taka gildi frá og með næstu mánaðamótum eftir að tilkynning um það bærist yfirmanni hans. F óskaði ekki eftir að starfshlutfall hans lækkaði. Í samræmi við bókun 2 fékk hann því greidd laun er tóku mið af 80% starfshlutfalli eftir gildistöku kjarasamningsins 2002. Nýr kjarasamningur milli sömu aðila var undirritaður í mars 2006 með gildistöku frá 1. febrúar sama ár til 30. apríl 2008. Þar var ekki fjallað sérstaklega um launagreiðslur eða starfshlutfall lækna sem ráku eigin læknastofur samhliða starfi hjá L. Frá 1. júní 2006 var starfshlutfalli F breytt í tímaskráningakerfi Landspítalans (Vinnustund) úr 100% í 80%. og hafi launagreiðslur til F frá og með þeim degi tekið mið af þessu starfshlutfalli. F krafði L um leiðréttingu á launum sínum en L hafnaði alfarið kröfu F. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að af gögnum málsins, einkum ráðningarsamningi og framlögðum launaseðlum, og framburði aðila og vitnis, verði ráðið að F hafi verið ráðinn í fast starf hjá L með þeim skilmálum að F ætti rétt á fullum launum fyrir dagvinnu er tækju mið af starfshlutfalli án tillits til tímamælinga á viðverustundum hans. Í ráðningarsamningi aðila var kveðið á um að starfshlutfall stefnanda væri 100%, sbr. breytingu á samningnum 7. nóvember 2000, en engar breytingar voru gerðar á samningi þessum í kjölfar kjarasamnings Læknafélags Íslands við fjármálaráðherra sem undirritaður var 2. maí 2002. Ráðningarsamningurinn hefur að geyma ákvæði þess efnis að hann sé uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara. Í samræmi við almennar reglur samninga- og vinnuréttar, sem og 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 4. gr. reglna nr. 351/1996 um form ráðningarsamninga og um skyldu til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör taldi dómurinn að L hafi ekki getað breytt einhliða þessu umsamda starfshlutfalli nema með því að segja upp þeim þætti ráðningarsamningsins enda leiddi hún til skerðingar á launum eða öðrum starfskjörum F. Slíka breytingu mátti einnig gera með samkomulagi milli samningsaðila. Fram kemur í dómnum að framlagðir launaseðlar gefi til kynna að F hafi fengið greidd laun fyrir 100% starf frá gildistöku nýs kjarasamnings milli Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra 1. febrúar 2006 til 1. júní sama ár. Þetta hlutfall var lækkað í tímaskráningarkerfi stefnda frá 1. júní 2006 og eftir það hafi laun F tekið mið af 80% starfshlutfalli. Ekki liggur fyrir að F hafi veitt samþykki sitt fyrir þessari lækkun áður en hún tók gildi. Þá verður ekki séð að L hafi sagt upp starfshlutfalli F samkvæmt ráðningarsamningi, en slíka breytingu varð að tilkynna með skriflegum hætti og með þeim fyrirvara sem gilti um uppsögn viðkomandi ráðningarsamnings þar sem hún leiddi til skerðingar á launakjörum F. Með hliðsjón af framangreindu taldi dómurinn að einhliða breyting á skráðu starfshlutfalli F í tímaskráningarkerfi stefnda, er tók gildi 1. júní 2006, hafi ekki verið lögmætur grundvöllur skerðingar á launum F. Í málinu lá einnig fyrir að F undirritaði samkomulag við L 5. júní 2007 um leyfi frá störfum frá 1. júlí 2007 til 31. desember 2007. Leit dómurinn svo á að rétt væri að líta svo á að F hafi með undirritun samkomulagsins 5. júní 2007 samþykkt að vinnuskylda hans skyldi ekki vera 100% frá 1. júlí 2007 heldur 80%. Í því ljósi var ekki unnt að fallast á að F ætti kröfu um laun fyrir 100% starf frá 1. júlí 2007 til ársloka 2009 eins og krafist var í fyrsta lið kröfugerðar F. Með sömu rökum kom annar liður kröfugerðar F heldur ekki til álita og var L sýknað af þeirri kröfu.
Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 700/2010.

11. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. nóvember 2010 í máli nr. E-4297/2010: J gegn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

ORLOFSLAUN. UPPGJÖR VIÐ STARFSLOK.
J hóf störf árið 1972 á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, sem síðar varð Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og starfaði þar til í lok júní 2009 en þá var starf hennar sem framkvæmdastjóra skrifstofusviðs lagt niður. J naut launagreiðslna í formi mánaðarlauna auk greiðslu fastrar yfirvinnu. Jafnóðum var greitt orlofsfé af föstum yfirvinnugreiðslum, sem J naut á því tímabili sem orlofsréttur ávannst, inn á orlofsreikning stefnanda, sbr. 4.2.1 gr. í kjarasamningi. Hins vegar var ekki greitt inn á orlofsreikning að því er mánaðarlaunin varðaði. Í júnímánuði 2008 var J tilkynnt að leggja ætti niður starf hennar frá og með 30. júní 2009. Frá og með 1. júlí 2009 hóf J töku biðlauna í tólf mánuði. J hafði 45 fasta yfirvinnutíma á mánuði. Við starfslok J átti hún inni 57,7 orlofsdaga. Við starfslok J tilkynnti starfsmannastjóri H henni að Fjársýsla ríkisins greiddi aldrei fasta yfirvinnu við uppgjör á orlofi starfsmanna. J mótmælti þessari afstöðu og leitaði í framhaldinu til stéttarfélags síns um liðsinni í málinu. Lögmaður J sendi tölvupóst í október 2008 til starfsmannastjóra H og benti á að ekki væri heimild til að neita J um greiðslu orlofs af föstum yfirvinnutímum við heildaruppgjörið sem fram fór á orlofi við starfslok hennar. Var því farið fram á að uppgjörið yrði leiðrétt. Í svarpósti í nóvember 2009 var tekið fram að H teldi að rétt hafi verið staðið að orlofsuppgjöri við J. Ekki náðist sátt um ágreiningsefnið og höfðaði J því mál gegn H. Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að fyrir lá í málinu að J naut bæði mánaðarlauna samkvæmt ákveðnum launaflokki og greiðslu fastrar yfirvinnu þ.e. 45 klst. á mánuði. Fékk J þá fjárhæð greidda árið um kring. J fékk ekki greitt orlof á mánaðarlaun, þ.e. í launaflokknum, en ágreiningslaust er að J fékk greitt orlofsfé af yfirvinnunni inn á orlofsreikning sinn. Leit héraðsdómur svo á að kröfugerð J miðaði að því að hún fengi orlofslaun tvígreidd. Með vísan til 5. mgr. 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987 sem og til hliðsjónar til Hrd. í málunum nr. 489/1989 og 491/1989 var kröfu J hafnað og H sýknað.

12. Dómur Hæstaréttar frá 9. desember 2010 í máli nr. 76/2010: Íslenska ríkið gegn B

UPPSÖGN. BIÐLAUN. ROF Á ÞJÓNUSTUTÍMA.
B starfaði hjá G frá 24. maí 2004 til 31. september 2008 er honum var sagt upp störfum vegna breyttra áherslna í starfsemi G. B krafðist greiðslu biðlauna með vísan til 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996 þar sem kveðið var á um að þeir ríkisstarfsmenn sem höfðu rétt til biðlauna eftir eldri lögum nr. 38/1954 héldu rétti sínum. B starfað samfellt hjá L frá árinu 1985 til janúarloka 2004 og sem stundakennari við Tækniskóla Íslands frá 1. janúar til 31. maí 2004. Í taldi að rof hefði orðið á ráðningu G hjá Í frá 1. febrúar til 23. maí 2004. Var það í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefur hjá Í um að áunninn biðlaunaréttur héldist ef um samfellda ráðningu starfmanna í þjónustu ríkisins væri að ræða, enda þótt starfsmaður skipti um starf og réði sig til annarrar ríkisstofnunar. Á grundvelli þessarar ráðstöfunar á sakarefninu, og þar sem Í væri að öðru óbreyttu á grundvelli jafnræðisreglu bundinn við þessa ívilnandi lagaframkvæmd taldi Hæstiréttur að ágreiningur málins um biðlaunarétt B réðist af því hvort talið yrði að rof hafi orðið á samfelldri ráðningu B í starfi hjá Í. Á tímabilinu frá 1. febrúar til og með 23. maí 2004 sinnti B stundakennslu og gegndi ekki föstu ótímabundnu starfi í þágu Í. Uppfyllti starf hans á þeim tíma því ekki kröfur sem gerðar voru samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954. Samkvæmt því taldi Hæstiréttur að rof hefði orðið á ráðningu B hjá Í á umræddu tímabili og gæti hann því ekki byggt rétt til biðlauna á 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996. Var Í því sýknað af kröfum B í málinu.

13. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. desember 2010 í máli nr. E-2960/2010: B gegn Sýslumanninum í Reykjavík og íslenska ríkinu

UPPSÖGN Á FÖSTUM YFIRVINNUTÍMUM.
Í október 2009 var öllum starfsmönnum sýslumannsembættisins, sem höfðu laun umfram 400.000 krónur á mánuði, tilkynnt að fyrirhugað væri að fækka föstum yfirvinnustundum þeirra til að mæta niðurskurði á fjárheimildum embættisins fyrir árið 2010. B var í þeim hópi. Sýlumannsembættið náði í októberlok 2009 samkomulagi við alla starfsmenn embættisins aðra en B um þessa skerðingu sem tók síðan gildi 1. febrúar 2010. Í lok október 2009 var B kynnt að til stæði að segja upp gildandi yfirvinnusamningi hennar og henni gefið færi á að tjá sig um það auk þess sem henni hafi verið boðið að ganga til samninga um að fá greiddar 28 klukkustundir á mánuði í fasta yfirvinnu. B féllst ekki á tilboðið og var í framhaldinu feld niður sú ákvörðun að greiða B 33 klst. á mánuði fyrir óunna yfirvinnu. Með ákvörðun í apríl 2010 var fyrri ákvörðun embættisins dregin til baka þannig að ákveðið var að greiða B 28 klst. á mánuði fyrir óunna yfirvinnu. S taldi hinar umdeildu ákvarðanir lúta reglum vinnumarkaðsréttar en ekki stjórnsýsluréttar. Um það sagði í dómnum að þegar litið væri til þeirra forsendna sem liggja til grundvallar setningu stjórnsýslulaga og fyrirmæla laga nr. 70/1996 væri ekki hægt að fallast á að unnt sé að ákvarða gildissvið stjórnsýslulaga í starfsmannamálum ríkisins að öllu leyti á sjónarmiðum sem reist eru á fræðikerfi lögfræðinnar líkt og S virðast byggja á. Ræðst þetta álitaefni fremur af þýðingu viðkomandi ákvörðunar fyrir réttindi og skyldur starfsmannsins og hvort telja verði að sérstök þörf sé á því að hann njóti þeirra réttinda sem stjórnsýslulögin mæla fyrir um. Ákvörðun S frá því í október 2009 leiddi til verulegrar lækkunar á heildarlaunum B er hún tók gildi 1. febrúar 2010 auk þess sem hún fól í sér umtalsvert frávik frá umsömdum skerðingum á föstum yfirvinnugreiðslum annarra starfsmanna hjá embættinu. Þó að hún hafi verið liður í almennum aðgerðum til að draga úr launakostnaði hjá ríkinu hafði hún á sér yfirbragð þvingunar til samkomulags um hliðstæða lækkun og aðrir starfsmenn höfðu gengist undir en B hafði lýst sig andvíga henni. Í þessu ljósi verður að telja að rétt hafi verið að fylgja meginreglum stjórnsýslulaga við ákvörðunartökuna. Í stefnunni byggir B málatilbúnað sinn á því að ákvörðun þessi hafi farið í bága við 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga sem fjalla um jafnræði og meðalhóf við töku stjórnvaldsákvarðana. Þá taldi B að ákvörðunin hefði verið reist á ómálefnalegu sjónarmiði og farið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Um þetta sagði í niðurstöðu dómsins að ákvörðun um að fækka föstum yfirvinnustundum hjá starfsmönnum S væri reist á því málefnalega sjónarmiði að þörf væri á að draga úr kostnaði í rekstri embættisins til að mæta niðurskurði á fjárframlögum til embættisins. Í samræmi við þær kröfur sem leiddar verða af meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar bar við framkvæmd ákvörðunarinnar gagnvart einstökum starfsmönnum að gæta samræmis og jafnræðis milli þeirra og ganga ekki lengra við skerðingu réttinda þeirra en nauðsynlegt var. Þó verður að telja að heimilt hafi verið að útfæra skerðinguna þannig að hún væri hlutfallslega meiri eftir því sem starfsmenn höfðu hærri tekjur og tæki ekki til þeirra sem voru með tekjur undir 400.000 krónum. Hins vegar var ekki unnt að láta hana koma af mun meiri þunga niður á einum starfsmanni hjá embættinu, sem vildi ekki samþykkja skerðinguna. Í því sambandi tók dómurinn fram að ekki yrði séð að nauðsynlegt hafi verið að afla samþykkis starfsmannanna til þess einungis að fækka yfirvinnueiningunum hjá hverjum og einum þeirra en ekki þegar þær voru felldar alveg niður. Jafnframt sagði í dómnum að með ákvörðun S í apríl 2010 var þeirri ákvörðun, sem krafist er ógildingar á, breytt þannig að ekki varð lengur séð að hún kæmi harðar niður á B en öðrum starfsmönnum embættisins, sem voru með heildarlaun yfir 400.000 krónum á mánuði, þannig að það kunni að fara í bága við jafnræðis- og meðalhófsreglur stjórnsýslu- eða stjórnskipunarréttar. Eftir þessa breytingu varð því ekki talið að ákvörðunin væri í andstöðu við framangreindar reglur og ekki var heldur talið að hún væri reist á ómálefnalegum sjónarmiðum. Var S því sýknað af kröfum B.

14. Dómur Félagsdóms frá 15. desember 2010 í máli nr. 9/2010: Bandalaga háskólamanna f.h. Félags lífeindafræðinga gegn íslenska ríkinu vegna Sjúkrahússins á Akureyri

ÚTKALL.
Kröfur B vörðuðu túlkun og framkvæmd á ákvæðum 2.3.3.1 og 2.3.3.2 í kjarasamningi Félags lífeindafræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dags. 28. febrúar 2005, sem endurnýjaður var með samkomulagi dags. 28. júní 2008. Dómkröfur B voru í fyrsta lagi að viðurkennt verði að SA beri samkvæmt grein 2.3.3.1 í kjarsamningi Félags lífeindafræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs að greiða minnst þrjár klst. í yfirvinnukaup fyrir hvert skipti sem starfsmaður er kallaður til vinnu sem ekki er í beinu framhaldi eða undanfari daglegs vinnutíma hans og í öðru lagi að viðurkennt verði að stefnanda beri samkvæmt grein 2.3.3.2 í kjarsamningi Félags lífeindafræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs að greiða minnst fjórar klst. í yfirvinnukaup fyrir hvert skipti sem starfsmaður er kallaður til vinnu á tímabilinu frá kl. 00:00-08:00 á mánudegi til föstudags, kl. 17:00-24:00 á föstudegi eða á almennum eða sérstökum frídögum skv. gr. 2.1.4.1 og 2.1.4.2, nema reglulegur vinnutími starfsmanns eigi endranær að hefjast innan 3 og ½ klst. frá því að útkall hófst sem ekki er í beinu framhaldi eða undanfari daglegs vinnutíma hans. B byggði kröfur sína aðallega á því að SA gæti ekki einhliða breytt áralangri framkvæmd sem væri í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamninga. Með slíku greiðslufyrirkomulagi um langt skeið hafi tryggilega verið fest í sessi tiltekin túlkun á ákvæðum kjarasamnings aðila sem ekki yrði breytt einhliða enda um lögbundin lágmarkskjör að ræða. Taldi B að breyting á gildandi fyrirkomulagi yrði ekki náð fram nema með uppsögn kjarasamnings eða breytingu á viðeigandi ákvæðum við endurnýjun. B byggði kröfu sína og á því að áður en ákvörðun sú sem SA kynnti með bréfi í júní 2009 tók gildi hafi félagsmenn B fengið greitt fyrir hvert útkall og gilti þá einu hvort annað útkall fylgdi í kjölfarið. Var þessi framkvæmd viðhöfð um langt árabil í fullri sátt milli aðila og félagsmönnum B greitt í samræmi við hana. Með tilkynningu sinni hafi SA freistað þess að breyta þessari réttarstöðu einhliða félagsmönnum B til tjóns, án þess að færa rök fyrir því við hvaða heimild þessi framganga styddist. Ríkið mótmælti því að framkvæmd SA hefði verið í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamnings. Skilningur ríkisins á greinum 2.3.3.1 og 2.3.3.2 hafi ætíð verið sá að þegar útköll sem liggja nálægt í tíma, að lágmarksgreiðsla næsta útkalls á undan er ekki lokið, þegar hið næsta hefst gildi sú regla að greiða skuli fyrir samfelldan tíma frá upphafi fyrsta útkalls til loka þess síðasta. Þessi skilningur hafi komið skýrlega fram í málsástæðum og lagarökum ríkisins í dómi Félagsdóms í máli nr. 13/2002 og í skýringum með sumum sérútgáfum kjarasamninga fyrir hvert stéttarfélag innan BHM. Þetta ætti t.d. við um sérútgáfu á kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Í skýringum með þeim kjarasamningi kemur fram að sé um endurtekin útköll að ræða með stuttu millibili skuli greiða samfelldan tíma frá upphafi fyrra/fyrsta útkalls þangað til síðara/síðasta útkalli lýkur. Þó svo að þessi skýring væri ekki í öllum sérútgáfum fælist ekki í því viðurkenning af hálfu ríkisins á mismunandi túlkun á samhljóða ákvæðum samkomulagsins. Niðurstaða Félagsdóms var sú að vísa málinu frá með vísan til þess að kröfugerð B, eins og hún var sett fram, hafi verið of víðtæk og því ekki til þess fallin að leysa úr þeim ágreiningi sem upp er á SA.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum