Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. mars 2011 Utanríkisráðuneytið

Rýnifundi um skattamál lokið

Rýnifundi um 16. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, skattamál, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Maríanna Jónasdóttir, formaður samningahópsins.
Skattamál falla utan EES-samningsins og þarf að semja um þau frá grunni. Skattastefna ESB skiptist í grófum dráttum í tvennt. Annars vegar eru beinir skattar sem fyrst og fremst varða skattlagningu fyrirtækja, en þó einnig einstaklinga, en beinu skattarnir eru ekki nema að litlu leyti samræmdir innan ESB. Hins vegar eru óbeinir skattar, sem varða vörur og þjónustu, þar sem samræming er yfirgripsmeiri. Þar er um að ræða virðisaukaskatt og vörugjöld á tiltekna vöruflokka.

ESB-aðild mun hafa umtalsverð áhrif á íslenska virðisaukaskattkerfið þó íslensk lög um virðisaukaskatt byggi á svipuðum sjónarmiðum og evrópsku reglurnar. Bæði þarf að breyta lagaumhverfinu og hinu rafræna umhverfi.

Á síðari rýnifundinum var vakin athygli á því, í samræmi við álit meirihluta utanríkismálanefndar, að Ísland leggi áherslu á að svigrúm til álagningar vörugjalda á áfengi, tóbak og eldsneyti breytist ekki vegna aðildar. Þá kom fram að í viðræðunum þurfi að fjalla um þær vörur sem eru undanþegnar virðisaukaskattsskyldu og vörur sem eru í lægra þrepi virðisaukaskatts hér á landi. Jafnframt þurfi að ræða málefni komufríhafna sem og reglur ESB um gjaldskyldu á orkugjöfum, með vísan til sérstöðu  Íslands í framleiðslu endurnýjanlegrar orku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum