Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. mars 2011 Utanríkisráðuneytið

Íslensk stjórnvöld veita Japan neyðaraðstoð

Íslensk stjórnvöld munu veita 10 milljónum króna til neyðaraðstoðar í Japan að tillögu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra sem hann kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun. Í Japan ríkir neyðarástand af völdum jarðskjálftans og flóðbylgjunnar sem gekk á land hinn 11. mars síðastliðinn. Áætlað er að um 430 þúsund manns hafi misst heimili sín eða verið flutt á brott vegna hættu á geislavirkni. Fólkið hefst við í neyðarskýlum og bráðabirgðahúsnæði.

Framlag stjórnvalda mun renna til Rauða krossins í Japan samkvæmt tilmælum japanskra stjórnvalda  þar að lútandi, ýmist í gegnum Rauða kross félögin í hlutaðeigandi ríkjum eða beint til japanska Rauða krossins. Utanríkisráðuneytið hefur átt samráð við Rauða kross Íslands og mun framlagið renna til fjársöfnunar RKÍ til styrktar hjálparstarfinu.

Samkvæmt ósk japanskra stjórnvalda samhæfir Evrópusambandið aðgerðir sem miða að því að senda hjálpargögn á hamfarasvæðið. Utanríkisráðuneytið, með aðstoð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, er í tengslum við vöktunarmiðstöð ESB en Ísland hefur átt aðild að því samstarfi frá árinu 2002. Ráðuneytið mun áfram fylgjast grannt með þróun mála í Japan og ákvörðun um frekari framlög verður tekin eftir því sem þörf fyrir neyðaraðstoð verður skýrari.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum