Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. apríl 2011 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi SA 7. apríl 2011

Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi SA, fimmtudaginn 7. apríl kl. 14.00
 
Ágætu aðalfundargestir
 
Á aðalfundi ykkar fyrir um ári síðan fjallaði ég um mikilvægi þess að í kjölfar hrunsins þyrfti Ísland að styrkja alþjóðlegt bakland sitt og koma í veg fyrir mögulega einangrun landsins. Efnahagsleg endurreisn og uppbygging atvinnulífs og fjárhags heimila landsins væri bundin því að Ísland verði fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu efnahagsumhverfi viðskipta og fjármála.
 
Á liðnu ári höfum við ítrekað verið minnt á þessi sannindi vegna gjaldeyrishaftanna og óleystrar Icesave deilunnar, en hvort tveggja hefur haft lamandi og afar kostnaðarsöm áhrif á samfélagið, ekki síst á viðleitni stjórnvalda og atvinnulífs til að ráðast í stærri framkvæmdir og aðlaga fjármögnun og rekstur að breyttum aðstæðum.

Segja má að liðið ár hafi verið ár hinna glötuðu tækifæra í þessum efnum og fyrir bragðið hafa framkvæmdir frestast, hagvöxtur tafist og harðnað hefur á dalnum hjá fyrirtækjum og heimilum umfram það sem nauðsynlegt var. Óleyst Icesave deilan hefur legið eins og mara á þjóðinni og verið dragbítur á framfarir. 
 
Úr þessu mun ekki rætast með viðunandi hætti fyrr en lyktir fást í Icesave deilunni. Þá fyrst getur ríkissjóður sótt sér fjármögnun á erlendan vettvang. Þá fyrst getum við vænst þess að gjaldeyrishöftum verði aflétt á eðlilegum hraða. Þá fyrst sjá menn fyrir endann á fjármögnun Búðarhálsvirkjunar. Þá fyrst geta sveitarfélög, orkufyrirtæki og fyrirtæki sem hyggja á framkvæmdir eða endurfjármögnun skulda vænst þess að úr rætist.
 
Þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardaginn snýst ekki um ríkisstjórnina, ekki einstaka flokka eða forystumenn þeirra, ekki um ESB, EES, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða rétta eða ranga lögfræðilega niðurstöðu. Þjóðaratkvæðagreiðslan snýst um lífskjör á Íslandi og hversu hratt við viljum vinna okkur út úr efnahagshruninu sem hér varð. Kosningarnar um Icesave snúast í raun um það hvort atvinnuleiðin sem við öll viljum fara geti orðið að veruleika á næstu árum.
 
Ágætu aðalfundargestir
Með jákvæðri niðurstöðu á laugardaginn verður háum þröskuldi rutt úr vegi efnahagslegrar endurreisnar Íslands. Væntanlegir kjarasamningar hafa þar með öðlast traustan grundvöll og með slíkum langtímasamningum ættu forsendur fyrir stöðugleika og öruggri uppbyggingu efnahags- og atvinnulífs að vera nokkuð tryggar. Undirritun langtíma kjarasamninga tryggir jafnframt að spár um vaxandi hagvöxt geti gengið eftir.
 
Vissulega erum við óþolinmóð og viljum sjá hlutina breytast hraðar en við megum ekki gleyma  því að á undraskömmum tíma hefur íslensku þjóðinni tekist að snúa vörn í sókn, eftir eitt alvarlegasta banka og efnahagshrun sem nokkur þjóð hefur tekist á við.

Óðaverðbólgan hefur verið hamin og er nú við markmið Seðlabankans. Ofurvextir heyra nú sögunni til og hafa vextir sjaldan verið lægri á Íslandi. Bankakefið hefur verið endurreist og þó þar eigi enn eftir að gera umtalsverðar breytingar á komandi árum er vel rekið bankakerfi forsenda þess að vel vinnist úr skuldavanda fyrirtækja og heimila landsins.

Góður gjaldeyrisforði hefur verið tryggður og gengissveiflur lágmarkaðar. Aðlögun ríkisfjármála hefur gengið vel og markmiðin um jákvæðan frumjöfnuð á þessu ári og hallalaus fjárlög á næsta ári eru í sjónmáli. Ljóst er þó að væntanlegir kjarasamningar gætu sett verulegt strik í þann reikning.

Atvinnuleysið, brottflutningur frá landinu og samdráttur í einkaneyslu hefur verið mun minni en spár gerðu ráð fyrir og afgangur af vöruskiptum við útlönd slær öll met. Samdrátturinn hefur verið stöðvaður og allir greiningaraðilar virðast sammála um að nú sé hagvaxtarskeiðið hafið.
 
Það hefur einnig skipt okkur gríðarlegu máli að friður hefur að mestu ríkt á vinnumarkaði allan tímann frá hruni. Það er ekki sjálfgefið þegar samfélag gengur í gegnum aðrar eins hremmingar og við höfum gert. Þetta höfum við séð svart á hvítu í löndunum í kringum okkur þar sem harðast hefur sorfið að.

Góð samvinna stjórnvalda, launþegahreyfinga og samtaka atvinnulífsins er lykillinn að þeim árangri sem hér hefur náðst og þar liggur einnig lykillinn að því sem koma skal. Einhverjir hvá eflaust þegar ég segi “góð samvinna”, enda verður því ekki mótmælt að oft hefur hvesst á milli manna á undanförnum árum. En friður hefur haldist og samstarfið hefur haldist óslitið allan tíman og það skiptir miklu máli.
 
Ég vil fullyrða að sjaldan eða aldrei hefur verið viðhaft jafn mikið og náið samráð við aðila vinnumarkaðar og í þeirri kjarasamningalotu sem nú stendur yfir. Enda eru þessir kjarasamningar líklega þeir flóknustu sem ráðist hefur verið í hér á landi í langan tíma.

Yfirlýsingin ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana sem kynnt var í síðustu viku er í samræmi við einarða stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum, atvinnumálum og orku og umhverfismálum. Það er einlægur vilji ríkisstjórnarinnar að vinna með öllum aðilum að efnahagslegri uppbyggingu á sjálfbæran hátt og í yfirlýsingunni er sett fram það markmið að ná atvinnuleysinu undir 5% í lok samningstímans meðal annars með því að örva fjárfestingu. Er þar miðað við að hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu hækki úr 13 prósentum í minnst 18 prósent.

Fjárfestingar í stórframkvæmdum eru vissulega mikilvægt hreyfiafl í efnahagsþróun og uppbyggingu atvinnulífsins um þessar mundir, en ekki síður skiptir máli sú mikla gróska sem nú á sér stað í nýsköpun, skapandi greinum, græna hagkerfinu og ýmsum frumkvöðla- og sprotafyrirtækjum. Þarna liggja mikil tækifæri sem þarf að hlúa vel að og nýta. Okkur ber að búa þessum greinum bestu skilyrði til vaxtar .
Já atvinnuuppbygging felst ekki síður í þessum greinum en í stórframkvæmdum á sviði virkjana og orkuuppbyggingar.

Ríkisstjórnir eiga ekki að knýja í gegn með handafli óhagkvæmar og óumhverfisvænar virkjanir fyrir stundargróða. Tími þrýsting og handafls stjórnvalda í því efni á að vera liðinn. Viðskiptaleg og umhverfisvæn sjónarmið eiga þar að ráða ferðinni

Þau skilaboð sem þessi ríkisstjórn á að senda orkufyrirtækjum í eigu ríkisins er að hámarka arðsemina og að raunverulegur arður sem hægt sé að fá skili sér til þjóðarinnar. Í öllu þessu skiptir líka máli  að rammáætluninni um vernd og nýtingu verði lokið sem fyrst og stefnt er að því að hún verði samþykkt á haustþingi.
Ég er sannarlega meðmælt því að nýta orkuna sem landið býr yfir til uppbyggingar atvinnulífsins, en það verður að vera innan þess ramma sem ég nefndi. Áform aðila vinnumarkaðarins um virkjanaframkvæmdir nú í tengslum við kjarasamninga eru hinsvegar þannig að þær ganga hreinlega ekki upp á þremur árum og það vita aðilar vinnumarkaðarins mæta vel.

Á þeim vettvangi hefur verið lögð áhersla á að taka ákvarðanir um virkjunarkosti og hefja undirbúning við virkjanir sem skilað geti hvorki meira né minna en áttahundruð og fimmtíu megavöttum á samningstímanum eða á næstu þremur árum.

Hér er um að ræða virkjanaframkvæmdir sem jafngilda  rúmlega nýrri  Kárahnjúkavirkjun og myndi samsvara því að á næstu þremur árum yrði virkjuð, auk Búðarhálsvirkjunar, öll orkan í Þingeyjarsýslum, Hverahlíðarvirkjun, Reykjanesvirkjun og Neðri Þjórsá.

En það þýðir auðvitað ekki að kyrrstaða ríki í þessum efnum þó ríkisvaldið skrifi ekki undir  svona óraunhæfa orkuuppbyggingu á svona stuttum tíma og það án þess að fyrir liggi rammaáætlun um verndun og nýtingu. Þvert á móti. 

Fjárfestingar í Búðarhálsvirkjun og stækkun álversins í Straumsvík eru hafnar, þá eru áform um kísilver í Helguvík og nýjar fjárfestingar í dreifikerfi Landsnets.  Framkvæmdir eru hafnar við álver í Helguvík og tengdar virkjanir en það verkefni er í ákveðinni biðstöðu vegna óvissu um orkuöflun og orkusamninga, sem ekki er á færi ríkisstjórnarinnar að leysa. Þar stendur fyrst og fremst á samningum um orkuna milli Norðuráls og HS orku.

Margar fleiri stórframkvæmdir og önnur verkefni sem eru í undirbúningi byggjast á því að orkuöflun sé tryggð og orkusölusamningar náist.  Landsvirkjun vinnur að umfangsmiklum rannsóknum í Þingeyjasýslum og á í viðræðum við nokkra aðila um fjárfestingar.

Gangi öll virkjanaáform eftir fyrir norðan gæti þar verið um að ræða fjárfestingar upp á sjötíu til áttatíu milljarða króna auk fjárfestinga orkukaupenda.  Búast má við að samningar takist fyrir lok þessa árs um í það minnsta tvö umtalsverð fjárfestingarverkefni sem ráðist verði í, þar af annað á Norðausturlandi, þar sem framkvæmdir gætu hafist þegar á næsta ári.

Ágætu fundarmenn.
Ég neita því ekki að mér hafa á sumum sviðum í yfirstandandi kjaraviðræðum fundist kröfur aðila vinnumarkaðarins óbilgjarnar. Kröfur sem fela í sér að stjórnvöld leysi í einni svipan margvísleg ágreiningsefni sem þjóðin hefur glímt við um áratuga skeið. Hér á ég einkum við tvennt; jöfnun lífeyrisréttinda milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði og síðan stjórn fiskveiða.

Ég tel að við getum í þessum samningum, ef vilji er fyrir hendi, komið jöfnun lífeyrisréttinda í farveg sem allir aðilar geta verið ásáttir um.  Varðandi stjórnun fiskveiða þá hefur það legið fyrir alveg frá upphafi þessa stjórnarsamstarfs að farið yrði í kerfisbreytingar í sjávarútvegi – og á það treysta umbjóðendur þeirra flokka sem nú stýra þjóðarskútunni.

Hygg ég raunar að kerfisbreyting í fiskveiðistjórnun eigi sér stuðning langt út yfir raðir stjórnarflokkanna og stuðningsmanna þeirra. Grundvallaratriði þar er að festa ekki í sessi forgang núverandi kvótahafa í lokuðu kerfi næstu áratugina og koma í veg fyrir að þeir geti fénýtt sér þessa sameign landsmanna sem fiskimiðin eru með því að leigja út til kvótalausra útgerða kvóta á himinháu verði.

Það útspil sem SA hefur nú sett fram í málinu staðfestir að enn er himinn og haf er á milli stjórnvalda og LÍÚ í þessu máli.  Þetta útspil staðfestir raunar einnig hve breitt bilið er og hefur alltaf verið milli margra aðila sem komu að umfangsmiklu nefndarstarfi um breytingar á kvótakerfinu, þar sem niðurstaðan var samningaleiðin og þar sem tillögur um nýtingartíma fiskveiðiheimilda var á bilinu tíu til sextíu og fimm ár.

Það er því algjörlega óraunhæft að ætlast til að niðurstaða fáist í breytingar á kvótakerfinu á þeim fáu dögum sem aðilar ætla sér til að ná niðurstöðu í kjarasamningum. Því verður vart trúað að samstaða sé um það milli allra aðildarfélaga SA að setja það sem skilyrði og hótun fyrir að kjarasamningar náist að þetta áratuga deilumál verði leyst meira og minna á forsendum LÍÚ, annars gangi menn frá borði.

Menn verða að horfast í augu við að þetta mál tekur lengri tíma og affarasælast er að það komist sem fyrst til Alþingis og í umsagnar- og vinnslufarveg á þeim vettvangi. Þar munu LÍÚ og SA hafa aðkomu að málinu eins og allir aðrir.

Ágætu fundarmenn.
Þrátt fyrir þetta stóra ágreiningsmál, sem enn mun taka nokkurn tíma að leysa, er mikilvægt að  kjarasamningar náist sem allra fyrst.  Ríkisstjórnin hefur lagt sig fram um að koma fram með lausnir í þeim fjölmörgu málum sem aðilarnir hafa beint að ríkisvaldinu og ég hef trú á að ef allir aðilar leggja sig fram og setji til hliðar óskyld mál sem óraunhæft er að leysa nú samhliða kjarasamningum, þá náist niðurstaða.

Ég verð þó að viðurkenna að það veldur mér miklum áhyggjum hve lausn kjarasamninga er í miklum mæli ávísað á ríkisstjórnina að þessu sinni. Útgjöldin sem nú á að leggja á ríkissjóð skipta tugum milljarða og gangi það eftir er langur vegur frá því að við náum hallalausum ríkisbúskap á árinu 2013, eins og að var stefnt, nema til komi mikill niðurskurður og aukin skattheimta.  Og það er nokkuð sem ekki er hægt að leggja á heimilin eða atvinnulífið í landinu. 

Aukin umsvif í uppbyggingu atvinnulífsins og auknar skatttekjur ríkisins vegna hærri launa koma þarna vissulega á móti en engu að síður er um að ræða svo mikil útgjöld að óhjákvæmilegt verður að það komi fram í auknum halla ríkissjóðs og hærri vaxtagjöldum.

Ágætu fundarmenn.
Það er kominn tími til að við horfum framávið og hristum endanlega af okkur doðann, vonbrigðin og vonleysið sem hrunið eðlilega kallaði yfir okkur sem þjóð. Framtíðin er björt  ef rétt er á málum haldið og við höfum ótal tækifæri til að hefja sókn okkar til betri lífskjara næstu ár.
 
Ríkisstjórnin hefur sett kúrsinn í þeim efnum með samþykkt ítarlegrar stefnumörkunar til næstu 10 ára undir yfirskriftinni Ísland 2020, þar sem lögð er fram stefna með mælanlegum og skýrum markmiðum  um öflugra íslenskt atvinnulíf og samfélag. Eftir þessari stefnumörkun er nú unnið að langtíma efnahagsáætlun sem tekið gæti við  er samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn lýkur í haust. Miklu skiptir að þá liggi fyrir skýr og trúverðug áætlun um framhaldið í peningamálum og efnahagsmálum. Þannig leggjum við grunn að afnámi gjaldeyrishafta svo fljótt sem auðið er.
 
Krónan er ekki ódýr. Hún kostar heimilin í landinu verðtryggingu og hún kostar atvinnulífið gjaldeyrishöft. Súrefni krónunnar eru verðtrygging og gjaldeyrishöft. Á því höfum við ekki lengur ráð.  Ætlum við að búa við krónuna um ókomna tíð eða taka upp annan gjaldmiðil? Við þurfum að taka þessa umræðu opið og hispurslaust og komast upp úr þeim hjólförum sem  umræðan er komin í.  Stefnumótun í þessum efnum er eitt af brýnustu verkefnum ríkisstjórnarinnar um þessar mundir. Hér þarf framsýni og hugrekki með hagsmuni almennings og þjóðarinnar í heild að leiðarljósi.
 
Ágætu fundargestir.
Ég og minn flokkur erum ekki í nokkrum vafa um að íslenskri þjóð er best borgið innan ESB og stefna beri að upptöku Evru eins fljótt og auðið er. Ég geng þess þó ekki dulin að um þetta eru skiptar skoðanir, ágreiningur er í öllum flokkum á Íslandi, öðrum en Samfylkingunni. Það telst vart til tíðinda ef ég viðurkenni að um umsókn að ESB eru skiptar skoðanir við ríkisstjórnarborðið.
 
Upptaka Evru án aðildar að ESB er bæði fjarlægur og óskynsamlegur kostur. Vilji menn raunverulega taka upp Evru í stað krónunnar er því afar mikilvægt að umsóknarferlið verði stutt með ráðum og dáð og allt verði gert til að tryggja sem hagkvæmasta samningsniðurstöðu fyrir íslenska þjóð. Slík niðurstaða fæst einungis með virkri aðkomu helstu hagsmunasamtaka á sem flestum stigum ferlisins.
 
Ég er ánægð með virkan þátt íslensks atvinnulífs í þessum viðræðum og ég er sannfærð um að sú aðkoma mun bæta okkar  samningsstöðu og vanda vinnubrögð. Það er mín sannfæring að aðild að Evrópusambandinu muni styrkja  og efla íslenskt atvinnulíf.
 
Ágætu aðalfundargestir.
Ég er þakklát fyrir þolinmæði ykkar og þrautseigju. Ég veit að margir hafa lagt mikið á sig til þess að halda starfsemi, fyrirtækjum og þjónustu gangandi og fyrir það ber að  þakka. Ég veit líka að ýmsir sem ekki tóku þátt í óráðsíunni og vitleysunni í aðdraganda hrunsins hafa mátt sitja undir því að viðskiptalífið í heild hafi verið dæmt hart.

Þeir sem hafa stundað viðskipti og stýrt starfsemi á heiðarlegum og sanngjörnum forsendum geta svo sannarlega verið stoltir af því að hafa staðið af sér storminn og getað haldið hér úti atvinnu og þjónustu fyrir almenning og skapað verðmæti sem nýtast þjóðfélaginu í heild.

Ágætu aðalfundargestir.
 
Ég óska ykkur öllum góðs gengis í ykkar fjölbreyttu verkefnum og ég heiti á ykkur að horfa nú til framtíðar og byggja hér í samvinnu upp heilbrigt og traust samfélag sem við getum verið stolt af bæði heima og heiman.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum