Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. apríl 2011 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi SA

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir ávarpaði aðalfund SA sem haldinn var í dag á Hotel Nordica. Í ávarpi sínu fjallaði forsætisráðherra um mikilvægi þess fyrir efnahagsleg endurreisn og uppbygging atvinnulífs og fjárhags heimila landsins að Ísland væri fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu efnahagsumhverfi viðskipta og fjármála. Í þeim efnum væru lausn Icesave deilunnar og afnám gjaldeyrishafta gríðarlega mikilvæg fyrir þróun næstu missera og ára.

Þá fjallaði forsætisráðherra um það góða samstarf sem verið hefði milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda allt frá hruni og miklu skipti að þannig yrði það áfram. Friður á vinnumarkaði væri afar mikilvægur fyrir efnahagslega endurreisn landsins og það væri hvorki sjálfgefið eða sjálfsagt að slík sátt næðist þegar gengið væri í gegnum hremmingar eins og þær sem íslenska þjóðin hefur gert.

Þá fjallaði forsætisráðherra ítarlega um yfirstandandi kjaraviðræður og sagði meðal annars:

„Það er því algjörlega óraunhæft að ætlast til að niðurstaða fáist í breytingar á kvótakerfinu á þeim fáu dögum sem aðilar ætla sér til að ná niðurstöðu í kjarasamningum. Því verður vart trúað að samstaða sé um það milli allra aðildarfélaga SA að setja það sem skilyrði fyrir að kjarasamningar náist að þetta áratuga deilumál verði leyst á forsendum LÍÚ, annars gangi menn frá borði.
Menn verða að horfast í augu við að þetta mál tekur lengri tíma og affarasælast er að það komist sem fyrst til Alþingis og í umsagnar- og vinnslufarveg á þeim vettvangi. Þar munu LÍÚ og SA hafa aðkomu að málinu eins og allir aðrir.“

Að síðustu hvatti forsætisráðherra til samstöðu og að menn horfðu bjartsýnir til framtíðar:

„Það er kominn tími til að við horfum framávið og hristum endanlega af okkur doðann, vonbrigðin og vonleysið sem hrunið eðlilega kallaði yfir okkur sem þjóð. Framtíðin er björt  ef rétt er á málum haldið og við höfum ótal tækifæri til að hefja sókn okkar til betri lífskjara næstu ár.“

Ávarp forsætisráðherra má nálgast hér á vefnum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum