Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. apríl 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Tæplega 11% lækkun lyfjakostnaðar á einu ári

Lyfjakostnaður Sjúkratrygginga Íslands lækkaði um rúmlega 1,1 milljarð króna árið 2010 frá fyrra ári, eða um 10,7%, þrátt fyrir að lyfjanotkun hafi aukist um tæp 6%. Meginástæðan er aukin notkun ódýrari lyfja í kjölfar breytinga á reglum um greiðsluþátttöku. Kostnaður vegna S-merktra lyfja (sjúkrahúslyfja) eru undanskilinn.

Í mars árið 2009 var sett reglugerð sem takmarkaði almenna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga við ódýrustu lyfin í tveimur stórum lyfjaflokkum og síðar bættust fleiri lyfjaflokkar við. Þetta eru blóðfitulækkandi lyf, magalyf, beinþéttnilyf, ákveðin blóðþrýstingslyf og þunglyndislyf, öndunarfæralyf og tvö flogaveikilyf; keppra og lyrica.

Markmið breytinganna er að læknar vísi á hagkvæmustu lyfin fyrir sjúklinga sína þegar verkun þeirra er sambærileg og verkun dýrari lyfja. Ef meðferð með þessum lyfjum er talin ófullnægjandi eða ef aukaverkanir koma fram við notkun þeirra getur læknir sótt um lyfjaskírteini sem tryggir sjúklingnum niðurgreiðslu vegna dýrara lyfs sem honum er nauðsynlegt.

Í nýrri skýrslu Sjúkratrygginga Íslands „Lyfjakostnaður sjúkratrygginga 2010“ kemur fram að lyfjakostnaður vegna beinþéttnilyfja lækkaði um 120 milljónir króna og vegna ákveðinna blóðþrýstingslyfja um 410 milljónir króna á einu ári. Hagstæð gengis- og verðlagsþróun hafði einnig áhrif og er áætlað að lækkun útgjalda stofnunarinnar vegna þessa nemi um 224 milljónum króna.

Lækkun um 2,1 milljarð króna á ársgrundvelli

Í skýrslu Sjúkratrygginga Íslands má einnig sjá að frá því að eftir að ráðist var í breytingar á greiðsluþátttöku tiltekinna lyfjaflokka (fyrstu breytingarnar tóku gildi 1. mars 2009) hefur kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna þeirra lækkað um rúman 2,1 milljarð króna á ársgrundvelli. Lækkanir eru þó ekki að fullu komnar fram í öllum lyfjaflokkunum. Breyttar greiðsluþátttökureglur valda mestu þótt aðrir þættir hafi líka áhrif, svo sem gengi, hækkum virðisaukaskatts og fleira. Áhrif breytinganna hafa verið tvíþætt. Notkun hagkvæmari lyfja hefur aukist og verð á mörgum lyfjum hefur lækkað um allt að 60–70%.

Kostnaður vegna blóðfitulyfja eftir mánuðumÍ skýrslunni er fjallað um kostnaðarbreytingar í einstökum lyfjaflokkum þar sem greiðsluþátttakan breyttist. Þar má til dæmis sjá að kostnaður sjúkratrygginga vegna blóðfitulækkandi lyfja hefur lækkað um 360 milljónir króna á einu ári frá mars 2009 til febrúar 2010. Þeim fjölgar hins vegar stöðugt sem fá ávísað blóðfitulækkandi lyfjum. Frá árinu 2003 til ársins 2010 hefur einstaklingum sem fengið hafa a.m.k. eina ávísun á blóðfitulækkandi lyf fjölgað úr tæplega 12.400 í rúmlega 25.400 árið 2010 eða um 12% að meðaltali á ári. Á meðfylgjandi mynd sést kostnaður vegna blóðfitulyfja eftir mánuðum.

2,9 milljarða króna lækkun á tveimur árum miðað við fast verðlag

Þrátt fyrir árangursríkar sparnaðaraðgerðir hækkaði lyfjakostnaður sjúkratrygginga mikið árin 2008 og 2009 miðað við verðlag hvers árs. Séu breytingar á lyfjakostnaði Sjúkratrygginga Íslands aftur á móti metnar á föstu verðlagi miðað við gengi og verðlag ársins 2010 nemur heildarlækkun útgjalda stofnunarinnar rúmum 2,9 milljörðum króna á tveimur árum eða 23,3%. Lækkunin árið 2009 var tæpir 2 milljarðar króna og rúmar 900 milljónir króna í fyrra.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum