Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. apríl 2011 Dómsmálaráðuneytið

Vegna umfjöllunar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um utankjörfundaratkvæðagreiðslu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna næstkomandi laugardag 9. apríl vill innanríkisráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Eins og kunnugt er hófst utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann 16. mars síðastliðinn, eða 25 dögum fyrir kjördag og 19 dögum eftir að kjördagur var ákveðinn. Þá var undirbúningi lokið sem meðal annars fólst í hönnun og prentun utankjörfundargagna og dreifingu þeirra til allra kjörstjóra innanlands sem utan eins og lög mæla fyrir um.

Þegar forseti synjar lögum frá Alþingi staðfestingar samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar ber að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt eða synjun þeirra laga og skal atkvæðagreiðslan fara fram innan tveggja mánaða. Forseti synjaði lögunum staðfestingar þann 20. febrúar og var kjördagur ákveðinn þann 9. apríl.

Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 (sem fara skal eftir við þjóðaratkvæðagreiðsluna) skal kosningu utan kjörfundar hefja svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, þó eigi fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Innanríkisráðuneytið lætur í té kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og leiðbeiningar um tilhögun atkvæðagreiðslunnar. Sýslumenn annast afgreiðslu kjörgagna til hreppstjóra og til skipstjóra á skipum í millilandasiglingum eða á fjarlægum miðum og utanríkisráðuneytið annast afgreiðslu kjörgagna til kjörstjóra erlendis.

Skipstjórar, sem eru kjörstjórar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, skulu gæta þess að til séu í skipinu fyrir hverjar alþingiskosningar nægar birgðir kjörgagna til utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Kjósandi, sem er í áhöfn eða farþegi um borð í íslensku skipi í millilandasiglingum eða á fjarlægum miðum, má kjósa um borð í skipinu. Skipstjóri eða sá sem hann tilnefnir skal vera kjörstjóri.

Samkvæmt framansögðu getur atkvæðagreiðsla farið fram um borð í skipi og er þá skipstjóri kjörstjóri, enda liggi fyrir lögbundin kjörgögn og drengskaparyfirlýsing hans til sýslumanns um að kosning í skipi hans muni fara fram samkvæmt fyrirmælum laganna.

Innanríkisráðuneytinu hafa borist fyrirspurnir frá áhöfnum skipa um rétt þeirra til að kjósa um borð og hefur ráðuneytið upplýst um ofangreind réttindi. Ráðuneytið hefur hins vegar bent á að ekki sé hægt að ætlast til þess að sýslumannsembættin annist dreifingu utankjörfundargagna á sjó, ráðuneytið telur að slík skylda sé ekki til staðar í lögum um kosningar til Alþingis.

Ráðuneytið hefur hins vegar bent hlutaðeigandi aðilum á að tvær leiðir séu mögulegar til að tryggja að áhafnir fiskiskipa, sem eru farin frá landi fyrir upphaf utankjörfundaratkvæðagreiðslu og koma ekki að landi fyrr en eftir kosningar, geti nýtt sér kosningarétt sinn.

Annars vegar með því að finna öruggar leiðir til að koma utankjörfundargögnum til og frá borði í samráði við viðkomandi sýslumann.

Hins vegar með því að skip sigli til hafnar svo áhafnir þess megi nýta atkvæðisrétt sinn og haldi svo aftur til veiða að því loknu.

Ráðuneytið hefur jafnframt lýst sig fúst til samstarfs við hlutaðeigandi aðila um leiðir sem tryggja að áhafnir skipa geti notið kosningarréttar síns fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl næstkomandi en leggur áherslu á að til að svo megi verða þurfi að koma til samstarfs allra hlutaðeigandi aðila.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum