Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. apríl 2011 Innviðaráðuneytið

Reglum um rekstur og viðhald einkaloftfara verði breytt

Vinnuhópur Flugmálafélags Íslands, Flugmálastjórnar Íslands og innanríkisráðuneytis leggur til að ráðherra og Flugmálastjórn beiti sér fyrir því við Flugöryggisstofnun Evrópu, EASA, að reglum um rekstur og viðhald einkaloftfara verði breytt. Aðilar eru sammála um að reglurnar séu íþyngjandi fyrir einkaflug og að unnt sé að breyta þeim án þess að ógna flugöryggi.

Einkaflug
Einkaflug

Flugmálafélag Íslands hefur allt frá sumrinu 2010 gagnrýnt þau áhrif sem félagið telur að nýlegar reglugerðir Evrópusambandsins um lofthæfi loftfara hafi á einkaflug á Íslandi. Hélt félagið því fram að þær væru íþyngjandi fyrir rekstur alls þorra einkaflugvéla sem skráðar eru á Íslandi.

Í júní 2010 ákvað þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að komið yrði á fót óformlegum vinnuhópi vegna innleiðingar Evrópureglugerða um rekstur og viðhald einkaloftfara.  Hópurinn saman stóð af fulltrúum ráðuneytisins, Flugmálastjórnar Íslands og Flugmálafélags Íslands.

Verkefni vinnuhópsins

Vinnuhópnum var ætlað að fara yfir nokkrar Evrópureglugerðir er snúa m.a. að rekstri og viðhaldi einkaloftfara og þá sérstaklega Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 2042/2003 um áframhaldandi lofthæfi loftfara og annarra framleiðsluvara, hluta og búnaðar til flugs og um samþykki fyrir fyrirtækjum og starfsfólki á þessu sviði, með síðari breytingum og Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1592/2002 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu, með síðari breytingum.

Skyldi hópurinn meta hvort ákvæði gerðanna væru óþarflega íþyngjandi með tilliti til þeirra reglna sem gilda í öðrum Evrópulöndum. Kæmist hópurinn að þeirri niðurstöðu að reglurnar væru óþarflega íþyngjandi var honum ætlað að kanna hvort einhver úrræði væru í stöðunni sem dregið geta úr þeim áhrifum reglnanna.

Innleiðingar Evrópureglugerðanna

Á fundum vinnuhópsins komu fram ólíkar hugmyndir um lagalega þætti innleiðingar Evrópureglugerðanna. Fulltrúar Flugmálafélagsins voru þeirrar skoðunar að í Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 216/2008 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og niðurfelling tilskipunar 91/670/EEC, reglugerðar 1592/2002 og tilskipunar 2004/36/ væri að finna undaþáguákvæði sem gæti undanskilið einkaflug á Íslandi reglum Flugöryggisstofnunar Evrópu. Tekið skal fram að reglugerðin hefur ekki verið innleidd í EES-samninginn og hefur ekki tekið gildi hér á landi.

Fulltrúar ráðuneytisins og Flugmálastjórnar voru annarrar skoðunar og töldu slíkt undanþáguákvæði ekki vera til staðar í reglugerðinni heldur væri um að ræða inngangstexta sem ekki gæti verið grundvöllur undanþágu.

Ljóst var að hópurinn myndi ekki komast að sameiginlegri niðurstöðu vegna lagaþáttarins og því var leitað eftir áliti utanríkisráðuneytisins. Þar kemur fram að umræddur texti veitti ekki efnislegan rétt en væri til stuðnings við túlkun á efnisákvæðum reglugerðarinnar. Einnig kom fram að reglurnar falli ótvírætt undir gildissvið EES-samningsins.

Auk þess benti utanríkisráðuneytið á að í 6. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar væri ákvæði sem heimilaði ákveðinn sveigjanleika við beitingu ákvæða hennar en þar kemur fram að mögulegt sé að veita heimildir á grundvelli annars konar reglna en þeirra sem kveðið er á um í reglugerðinni, enda sé tryggt sambærilegt flugöryggi og felst í ákvæðum gerðarinnar. Slík fyrirhuguð beiting annarra reglna skal fyrirfram tilkynnt Flugöryggisstofnun Evrópu og metur stofnunin hvort reglurnar tryggi sambærilegt flugöryggi. Komist stofnunin að þeirri niðurstöðu munu öll aðildarríki stofnunarinnar geta nýtt sér þær reglur.

Niðurstaða vegna áhrifa reglugerðanna og tillögur til ráðherra

Umræddar reglur hafa verið innleiddar á öllu EES-svæðinu. Á fundum hópsins hefur komið fram bæði frá fulltrúum Flugmálafélagsins og frá fulltrúa Flugmálastjórnar að töluverð óánægja er með reglurnar á svæðinu. Meðal annars hefur verið bent á að þyngdarmörk hvað varðar skilgreiningu á léttum loftförum (ELA1) séu óþarflega lág. Leiðir slíkt til þess að sömu kröfur eru gerðar til loftfara sem eru rétt fyrir ofan ELA1 í þyngd, en þau eru algeng loftför í einkaflugi, og loftfara sem eru mun þyngri. Hefur óánægjan með reglurnar nú þegar leitt til þess að upp er komin umræða innan Flugöryggisstofnunar Evrópu um breytingu á reglunum m.a. að þyngdarmörk ELA1 verði færð úr undir 1000 kg í undir 1200 kg flugtaksmassa, en mat hópsins er að þessi þyngdamörk þurfi að vera nokkuð hærri til þess að algengar eins og tveggja hreyfla flugvélar rúmist innan hennar jafnvel upp að 2.730 kg flugtaksmassa.

Niðurstaða vinnuhópsins er því sú að áhrif ofangreindra Evrópureglugerða hafi íþyngjandi áhrif á einkaflug hér á landi sem og annars staðar í Evrópu. Hópurinn telur mikilvægt að reglunum verði breytt og leggur því til við innanríkisráðherra að hann ásamt Flugmálastjórn Íslands beiti sér fyrir því á vettvangi Flugöryggisstofnunar Evrópu og eftir því sem mögulegt er innan Evrópusambandsins að reglum er snúa að rekstri og viðhaldi einkaloftfara verði breytt þannig að íþyngjandi áhrif þeirra minnki.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum