Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. apríl 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, á degi umhverfisins 2011

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á hátíðarsamkomu sem haldin var þann 28. apríl 2011 í tilefni Dags umhverfisins sem var 25. apríl 2011.

Góðir gestir

Í ár er dagur umhverfisins tileinkaður skógum. Það er vel við hæfi af ýmsum ástæðum. Fyrst má nefna að Dagur umhverfisins er tengdur minningu frumkvöðuls að verndun skóga í landinu með meiru. Sveinn Pálsson náttúrufræðingur sem fæddist 25. apríl árið 1762 var einn þeirra sem beindi hvað fyrst sjónum að hinni miklu eyðingu skóga á Íslandi og hrikalegum afleiðingum hennar fyrir íslensk vistkerfi og samfélag. Hann lýsir einmitt heimsókn sinni í Hallormsstaðaskóg á svohljóðandi og myndrænan hátt: “Hvarvetna, en einkum þó á Hallormsstað og innar í dalnum eru hinir ömurlegustu vígvellir. Hér eru hin fegurstu birkitré höggvin sem hráviði, en þó ekki frá rótum heldur standa nálægt faðms bútar eftir af stofnunum, svo að svæðið líkist dánarheimum með stirðnuðum, standandi hvítum vofum." Sveinn reyndi að hvetja til aðgerða til að koma í veg fyrir eyðingu skóganna á þeim tíma, en þá fyrir daufum eyrum. Það var ekki fyrr en nærri heilli öld síðar að hafist var handa við að stöðva eyðingu skóga í landinu að marki, m.a. með setningu laga um skógrækt árið 1907 og stofnun Skógræktar ríkisins, en þá var reyndar búið að eyða um 97% þeirra skóga sem taldir eru hafa vaxið hér við landnám.

Jafnframt eru skógarmál mikið í alþjóðlegri deiglu um þessar mundir, en Sameinuðu þjóðirnar hafa tilnefnt árið 2011 sem Alþjóðlegt ár skóga. Með því vilja Sameinuðu þjóðirnar vekja athygli á mikilvægi þeirrar þjónustu sem skógarvistkerfi heimsins veita fyrir samfélagið, bæði efnahagslegri og félagslegri en ekki síður hvers konar vistþjónustu svo sem vernd líffræðilegs fjölbreytileika, jarðvegsvernd, vatnsmiðlun og á sviði loftslagsmála.

Það má því gera sér það í hugarlund að ef Sveinn Pálsson náttúrufræðingur væri uppá á okkar dögum væri umræðan honum mjög að skapi. Á Alþjóðaári skóga er sjónum beint að vernd og sjálfbærri nýtingu skóga í heiminum, meðal annars sem mikilvægs þáttar gagnvart loftslagsbreytingum, en eyðing skóga veldur losun hátt í 1/5 allra gróðurhúsalofttegunda.

Hér á heimavelli hefur umhverfisráðuneytið nú í vetur sett af stað undirbúning að sérstöku verkefni til að auka frekar útbreiðslu birkiskóga landsins. Til grundvallar þeirri vinnu er skýrsla nefndar um endurheimt íslenskra birkiskóga sem kom út árið 2007. Birkiskógar teljast til lykilvistkerfa á Íslandi og þeir veita margvíslega vistfræðiþjónustu svo sem við miðlun vatns og næringarefna. Þeir eru meðal fjölsóttustu útivistarsvæða á landinu og hafa um aldaraðir veitt mönnum uppplyftingu og innblástur.

Ég tel mikilvægt að hugað verði en betur að verndun birkiskóga og fagna því framkomnum drögum að frumvarpi til laga um breytingar á náttúruverndarlögum en í þeim er m.a. lagt til að vernd birkiskóga verði styrkt sérstaklega.

Mikilvægt er að skipulag og markmiðssetning skógræktarstarfsins hér á landi taki mið af fjölþættu hlutverkum skóga og skógræktar, bæði á sviði umhverfis- og auðlindamála. Til er góður grunnur í leiðbeiningunum „Skógrækt í sátt við umhverfið“ sem komum út fyrir nokkru. Jafnframt hef ég ákveðið að hefjast handa við að láta endurskoða lög um skógrækt í umhverfisráðuneytinu. Skógræktarlögin frá árinu 1955 eru um margt úrelt og hafa skógræktaraðilar lengi kallað eftir endurskoðun þeirra til styrkingar starfsins. Því er vel við hæfi að hefja vinnu við endurskoðun laganna á Alþjóðlegu ári skóga.

Góðir gestir,

Tæplega tvö ár eru liðin frá því að ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingarnar var mynduð og mér falin stjórn ráðuneyti umhverfismála. Þrátt fyrir að helstu verkefni ríkisstjórnarinnar hafi verið á sviði efnahagsmála, sem er í fullu samræmi við þær aðstæður sem voru í íslensku samfélagi eftir bankahrunið, þá hefur ýmist áunnist á svið umhverfis- og náttúruverndarmála.

Við sem berum hag umhverfis- og náttúurverndar fyrir brjósti erum kannski örlítið óþolimóð og viljum að málin gangi mun hraðar fyrir sig. Ég skil þá óþolimæði vel og vildi sjálf gjarnan sjá hlutina ganga hraðar fyrir sig. Ég tel samt sem áður að okkur hafi tekist, á síðustu tveimur árum, að skapa meira rými fyrir umhverfis- og náttúruverndarmál í samfélagsumræðunni jafnvel þó svo að sú umræða hafi oft á tíðum verið neikvæð og tengd átökum vegna hugmynda um stóriðjuuppbyggingu. En umræðan hefur að mínu viti verið að breytast og þá sérstaklega hvað varðar aukna vitund almennings og fjölmiðla á umhverfismálum.

Umræðan um díoxónmengun frá Sorpbrennslustöðvum og nú síðast mengunarmál Becromal í Eyjafirði sýnir okkur að almenningur og fjölmiðlar láta sig umhverfismál varða og grípa til ráðstafana þegar að stjórnvöld eða fyrirtæki bregðast skyldum sínum. Það voru fyrirspurnir íbúa á Ísafirði sem urðu til þess að Mjólkursamsalan (MS) á staðnum ákvað að gera mælingu á þrávirkum aðskotaefnum í afurðum. Það var að öllum líkindum starfsmaður sem hafði samband við Kastljós og vakti athygli á því sem var að gerast hjá Becromal og fjölmiðlamenn brugðust við með því að láta gera mælingar. Það aðhald sem bæði almenningur og fjölmiðlar veita stjórnvöldum og fyrirtækjum á sviði umhverfismála er því mjög mikilvægt.

Lang flestir láta sig varða umhverfismál og öll viljum við halda í þá ímynd sem Ísland hefur haft um hreint loft og ómengað vatn. En sú ímynd þarf að byggja á staðreyndum og við þurfum að halda þeirri ímynd því hún er fljót að hverfa ef við stöndum okkur ekki. 

Það er einnig mikilvægt að fyrirtæki sem eru í atvinnurekstri, ekki síst þau sem eru ný í atvinnurekstri á Íslandi, hafi metnað til að uppfylla ímynd landsins um hreinleika. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé innstæða fyrir slíkum yfirlýsingum og fyrir því sem fram kemur bæði í máli og framsetningu þeirra sem eru að hefja atvinnuuppbyggingu á Íslandi.

Mörg fyrirtæki hafa sett sér metnaðafulla umhverfisstefnu og er fyrirtækið sem vinnur til verðlauna hér í dag gott dæmi þess.
Einnig gefur vaxandi fjöldi fyrirtækja sem sækja um Svansvottun þess merki að ábyrgð fyrirtækja og vitund gagnvart umhverfinu er stöðugt að vaxa. Svanurinn er á miklu flugi og jókst fjöldi Svansleyfa hér á einu ári frá fimm og upp í fjórtán. Aukinn sýnileiki Svansins hefur einnig skilað sér til almennings en samkvæmt Gallup könnun frá því í desember á síðasta ári hefur þekking landsmanna á Svaninum á Íslandi aldrei verið meiri en um 72% landsmanna þekkja Svaninn. Það er því til mikils að vinna fyrir fyrirtæki sem og einstaklinga.

Góðir gestir.

Á degi umhverfisins fögnum við þeim árangri sem náðst hefur á sviði umhverfismála. Sá árangur hefur ekki síst náðst fyrir tilstuðlan einstaklinga, hvort heldur er fræðimanna, starfsmanna fyrirtækja eða nemenda sem hafa og munu ugglaust áfram leggja sitt að mörkum til að halda í heiðri umhverfis- og náttúruvernd í íslensku samfélagi, okkur öllum sem og framtíðinni til hagsbóta.

Til hamingju með daginn.

Takk fyrir.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum