Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. apríl 2011 Forsætisráðuneytið

Kraftur í nýsköpun kvenna

Atvinnustyrkir-kvenna-hopmynd2011
Frá afhendingu styrkja til atvinnumála kvenna 2011

Markaðssetning á hlývatnsfiski, vöruþróun á brúðunni RóRó fyrir börn með svefnvandamál, fræðandi púsluspil um íslenska náttúru og dýralíf fyrir alla fjölskylduna og fréttagátt á pólsku. Þetta eru dæmi um þau fjölbreyttu verkefni sem hlutu styrki til atvinnumála kvenna sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra úthlutaði í dag. 

Þetta er í tuttugasta sinn sem styrkjum til atvinnumála kvenna er úthlutað en þeir voru fyrst veittir árið 1991 að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra. Í ár bárust 338 umsóknir hvaðanæva af landinu og hafa aldrei verið fleiri. Alls voru 30 milljónir króna til úthlutunar og voru veittir styrkir til 42 verkefna sem eru í eigu og á ábyrgð kvenna.

Velferðarráðherra afhenti styrki til þeirra fjögurra eftirtalinna verkefna sem hæst skoruðu að mati ráðgjafarnefndarinnar: 

Höfundur RóRóar ásamt fylgdarsveini tekur við verðlaunum úr hendi velferðarráðherra.RóRó svefnbrúða er rafdrifin tuskubrúða sem ætlað er að bæta gæði svefns ungabarna, styðja við þroska og auka öryggi þeirra, en fjöldi barna glímir við svefnvandamál. Hugmyndin að brúðunni byggist á rannsóknum í heilbrigðisvísindum á þessu sviði. Veittur var 2,0 milljóna króna styrkur til vöruþróunar brúðunnar. 

Markaðssetning á íslenskum hlývatnsfiski á Evrópumarkað. Íslensk matorka hefur átt frumkvæði að því að kanna möguleika Íslands á nýtingu jarðvarma og affallsvatns frá virkjunum og stóriðju til framleiðslu á hraðvaxta hlývatnstegundum. Forsvarsmenn þess telja aðstæður hér á landi gefa færi á stórauknu landeldi á næstu árum með fjölda afleiddra tækifæra á sviði fóðurgerðar, nýtingu úrgangs úr einu eldi í annað og affallsvatns til gróðurræktunar svo eitthvað sé nefnt. Horft er til þess að markaðssetja afurðirnar sem umhverfisvænar en mikill verðmunur er á mörkuðum eftir gæðum, ímynd og markaðssetningu. Verkefnið hlaut 2,0 milljóna króna styrk. 

Frétta- og viðburðavefsíða fyrir innflytjendur á Íslandi. Informacje ehf. hlaut 2,0 milljóna króna styrk vegna frétta- og viðburðasíðu fyrir innflytjendur á Íslandi. Vefsíðan informacje.is var stofnuð haustið 2010 og er eina vefgáttin þar sem hægt er að finna upplýsingar frá öllum helstu fréttamiðlum á Íslandi á pólsku. Vefsíðan er í þróun og er stefnt að því að gera þar aðgengilegt efni á fleiri tungumálum fyrir fleiri þjóðahópa sem búsettir eru á Íslandi. Efni hennar verður einnig aukið með margvíslegum upplýsingum um daglegt líf á Íslandi, hagnýtar upplýsingar um menntun, heilsu, atvinnumál og margt fleira. 

Puzzled by Iceland hannar og framleiðir púsluspil með fallegum ljósmyndum af íslenskum náttúruperlum og dýralífi í haganlegri öskju sem hverri fylgir blað með frekari fróðleik um íslenska náttúru. Markmiðið er að fegra og fræða og fá fjölskylduna til að eyða meiri tíma saman. Með heitinu „Puzzled by...“ horfa höfundar púsluspilsins til alþjóðlegrar markaðssetningar í framtíðinni þar sem hægt er að skýrskota til hvaða lands sem er og möguleikarnir því nánast óþrjótandi. Veittur var 1,5 milljóna króna styrkur til markaðssetningar. 

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarpaði styrkhafana 42 við athöfnina í dag sem fór fram í Sjóminjasafninu í Reykjavík. Hann sagði augljóst að fjöldi umsókna um styrki og fjölbreytni verkefnanna sýndi að mikill kraftur væri í nýsköpun kvenna sem mikilvægt væri að styrkja og styðja þannig við aukinn fjölbreytileika í atvinnulífinu.

 Frá athöfninni í Sjóminjasafninu

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum