Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. maí 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur um kostnaðaraðhald vegna S-lyfja

Töflur
Töflur

Vinnuhópur á vegum velferðarráðherra hefur skilað honum tillögum sínum um aðgerðir til að sporna gegn ört vaxandi útgjöldum vegna svokallaðra S-merktra lyfja.

Samkvæmt lyfjalögum er heimilt að binda notkun tiltekinna lyfja við notkun á sjúkrahúsum. Þetta eru svokölluð S-merkt lyf. Þessi lyf eru gjarna mjög dýr, ætluð til sérhæfðrar meðferðar og er ávísun og notkun þeirra háð ströngum skilyrðum. 

Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir tæplega 4,5 milljörðum króna til Sjúkratrygginga Íslands vegna kaupa á S-merktum lyfjum sem notuð eru utan legudeilda sjúkrahúsa. Nú liggur hins vegar fyrir nýlegt mat kostnaðarnefndar S-lyfja sem áætlar að heildarnotkun þeirra muni aukast um 14% frá fyrra ári og að kostnaðurinn verði tæpum 700 milljónum króna hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra skipaði vinnuhópinn í lok janúar síðastliðnum undir forystu Önnu Lilju Gunnarsdóttur ráðuneytisstjóra. Verkefni hópsins var að meta á heildstæðan hátt áhrif aukins aðhalds sem þegar hefur verið gripið til í því skyni að sporna við vaxandi útgjöldum vegna S-lyfja og hvort frekari breytingar séu nauðsynlegar á gildandi reglum um notkun og umsýslu þessara lyfja.

Í skýrslu vinnuhópsins kemur fram að hér á landi gildi strangar reglur og klínískar leiðbeiningar um notkun S-lyfja sem taki meðal annars mið af stefnu National Institute for Health and Clinical Excellence (NICE) í Bretlandi sem þykir nákvæm og íhaldssöm. Vinnuhópurinn telur ekki svigrúm til þess að þrengja frekar skilyrði fyrir meðferð með S-lyfjum án þess að missa sjónar á því markmiði að heilbrigðisþjónusta á Íslandi skuli vera í fremstu röð. Tillögur hópsins lúta því að leiðum til þess að lækka útgjöld fremur en að draga úr notkun lyfjanna auk þess sem áhersla er lögð á að efla og viðhalda ströngum viðmiðum um notkun þeirra sem þegar eru í gildi.

Niðurstöður vinnuhópsins

  • Lagt er til að eftirlit með notkun S-lyfja verði eflt og rannsóknir sömuleiðis meðal annars með auknu samstarfi við nágrannaþjóðir, ekki síst til að styrkja greiningu á kostnaði og ábata við mat á hagkvæmni meðferða. Þetta verði gert með sérstöku átaki til að efla starfsemi þeirra eininga Landspítala sem sinna þessu verkefni.
  • Vinnuhópurinn leggur áherslu á að ákvæði sem varðar innkaup á dýrum S-lyfjum í frumvarpi fjármálaráðherra til breytinga á lögum um opinber innkaup verði að lögum. Með því myndi opnast möguleiki á sameiginlegum lyfjaútboðum Landspítala með sambærilegum stofnunum á Norðurlöndunum. Að mati hópsins myndi engin önnur einstök aðgerð skila meiri árangri til að sporna við auknum útgjöldum án þess að hafa áhrif á meðferð sjúklinga.
  • Ef fyrri tillögurnar ná ekki fram að ganga eða skila ekki árangri telur vinnuhópurinn að ekki verði dregið úr kostnaði án þess að takmarka meðferð og notkun þessara lyfja. Að mati hópsins verður slíkt ekki gert án þess að fram fari stefnumótun með víðtæku samráði og aðkomu fjölda aðila „enda væri þá um að ræða algjöra kúvendingu á stefnu í heilbrigðismálum“ segir í skýrslu hópsins.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum