Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra við útskrift Stóriðjuskólans 2011

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við útskrift úr Stóriðjuskólanum þann 16. maí 2011.

Ágætu starfsmenn, nemendur og kennarar Stóriðjuskólans,

Það er ánægja fyrir mig að fá að ávarpa ykkur í dag við útskrift Stóriðjuskólans. Eins og mörgum er kunnugt verð ég starfandi menntamálaráðherra um nokkurt skeið í náinni framtíð í komandi fæðingarorlofi Katrínar Jakobsdóttur og því ánægjulegt að kynnast skólastarfi hér. En ég ávarpa ykkur hér í dag fyrst og fremst sem umhverfisráðherra og lýsi ánægju minni í því hlutverki með starfsemi skólans og ykkar áfanga hér í dag.

Álverið í Straumsvík er gott dæmi um hverju er hægt að fá áorkað með framsækinni stefnu og góðu starfsfólki. Hér hefur náðst góður árangur í öryggismálum og hér hefur tekist að halda mengun í lágmarki, sem er jákvætt bæði fyrir heilsu starfsfólks og annarra og fyrir umhverfið. Losun flúorkolefna á tonn af áli hefur lengi verið einhver sú lægsta sem þekkist í heiminum og jafnvel sú allra lægsta. Það tókst einnig að halda losun lágri þegar þurfti að endurræsa heilan kerskála eftir bilun, en einmitt þá er mikil hætta á að losun fari úr böndunum. Þessi góði árangur er ekki bara að þakka góðum búnaði, heldur er þjálfun og þekking starfsmanna lykilatriði til að halda losun flúorkolefna í lágmarki.

Það hefur verið mikil umræða um mengun nú nýlega eftir að kom í ljós að mengun frá sorpbrennslustöðvum hefur verið langt yfir eðlilegum mörkum. Við höfum kannski verið nokkuð værukær Íslendingar og talið víst að í okkar strjálbýla og vindasama landi gæti mengun aldrei orðið raunverulegt vandamál. Við höfum nú verið minnt á að svo ekki, Ísland á ekki sjálfkrafa að vera undanskilið eðlilegum kröfum um varnir gegn mengun. Þetta er spurning um heilbrigði okkar og barna okkar og um ímynd okkar sem lands sem er hreint og framleiðir heilnæmar matvörur. Við hljótum ekki síst að gera miklar kröfur til stóriðjuvera, vegna umfangs starfsemi þeirrar og mikillar losunar hjá fámennri þjóð. Það er ánægjulegt þegar slík fyrirtæki ná ekki einungis að halda sig innan leyfilegra marka, heldur hafa metnað til að gera enn betur.

Margir telja sjálfgefið að umhverfisvernd og stóriðja fari illa saman og vissulega er það mjög umdeilt hvernig staðið er að stóriðju og virkjunum, þannig að framkvæmdir á því sviði séu í sátt við náttúruna og gagnist þjóðinni allri sem best. Það er hlutverk mitt sem umhverfisráðherra að tryggja að ekki sé gengið á hagsmuni náttúrunnar í því sambandi. En það gustar pólitískt um stefnu og áherslu í öðrum atvinnugreinum, hvort sem litið er til sjávarútvegs, fjármálaþjónustu eða annars. Slíkt er bæði eðlilegt og nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi. Menn mega ekki rugla slíkri umræðu um áherslur og leiðir í atvinnumálum og umhverfisvernd, við nauðsyn þess að vinna gott starf í þeim fyrirtækjum og atvinnugreinum sem eru starfandi í landinu. Við getum haft ýmsar skoðanir á því hvort áfram eigi að einblína á stóriðju til atvinnuuppbyggingar í landinu eða líta til annarra kosta. En við eigum öll að geta verið sammála um að þau fyrirtæki sem eru starfandi á sviði stóriðju eigi að standa sig vel í að lágmarka mengun og stunda sinn rekstur á eins umhverfisvænan hátt og kostur er.

Margir telja umhverfisvernd vera einhvers konar fótakefli í sókn okkar eftir hagvexti og velferð. Ég tel að svo sé ekki, spurningin er kannski frekar um hvernig við skilgreinum velferð. Ofurgróði og vöxtur sem byggir á rányrkju og mengun er ekki uppskrift af varanlegri velferð. Starfsemi í sátt við samfélag og umhverfi er hins vegar einn af hornsteinum velferðar. Umhverfismál snúast mikið um að gera hlutina vel. Álverið í Straumsvík var brautryðjandi við innleiðingu umhverfisstaðalsins ISO-14.001, sem er gæðakerfi sem tekur sérstakt tillit til góðrar frammistöðu í umhverfismálum. Það er reynsla margra fyrirtækja að slíkt vinnulag leiði ekki aðeins til minni mengunar og meiri sáttar um reksturinn, heldur líka til bættrar nýtingar hráefnis, minni úrgangs og betri reksturs. Það helst í hendur að sinna rekstri af natni og framsýni og að vernda umhverfið.

Það skiptir líka máli að fyrirtæki hafi samfélagslega vitund. Það var í tísku fyrir ekki svo löngu að afneita þessu og segja sem svo að skyldur fyrirtækis væru eingöngu við eigendur sína og við að hámarka gróða – hin ósýnilega hönd markaðarins myndi svo sjá til þess að molar af gróðaborðinu myndu sáldrast niður til þeirra sem ekki fengju sæti þar. Ég held að þessi hugmyndafræði sé eitt af því sem leiddi til hrunsins og sé eitt af því sem við ættum ekki að endurreisa. Ísal hefur sýnt vilja til þess að leggja umhverfismálum lið ekki einungis með því að draga úr mengun og bæta starfsemi sína, heldur hefur líka styrkt verkefni á borð við endurheimt votlendis, sem er stórt mál á Íslandi og á heimsvísu við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Stóriðjuskólinn hefur nú verið starfræktur í nær 14 ár. Stofnun hans sýnir metnað fyrir hönd fyrirtækisins og starfsmanna þess og hann hefur áunnið sér virðingu og viðurkenningu, sem sést m.a. á því að hann hlaut Starfsmenntaverðlaunin árið 2000. Námsefni skólans og námskrá hefur hlotið viðurkenningu menntamálaráðuneytisins sem hluti af námsefni framhaldsskóla. Við Íslendingar þurfum á að halda fjölbreyttu atvinnulífi, vel menntuðu starfsfólki í öllum greinum og vilja allra til þess að standa sig vel og verða að liði. Ég vona að ykkur sem hér útskrifist í dag farnist vel og að ykkar menntun verði ykkur gagnlegt veganesti til góðra starfa í framtíðinni.

Takk fyrir,

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum