Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. maí 2011 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði í dag fram skýrslu til Alþingis um utanríkismál þar sem fjallað um helstu verkefni utanríkisþjónustunnar á síðustu 12 mánuðum.

Í ræðu sinni við upphaf umræðna í dag lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi norðurslóða fyrir hagsmuni Íslands og greindi frá nýafstöðnum ráðherrafundi Norðurskautsráðsins. Þar var undirritaður lagalega bindandi samningur um leit og björgun á norðurslóðum sem utanríkisráðherra sagði geta orðið viðspyrnu til að koma upp miðstöð á sviði björgunar á Íslandi. Ráðherra gerði einnig samstarf „orkuþríhyrningsins“ Íslands, Færeyja og Grænlands að umtalsefni og sagði veruleg framtíðartækifæri felast í orkusamstarfi og lagningu sæstrængs frá Grænlandi, Íslandi og Færeyja til meginlandsins.

Utanríkisráðherra gerði Alþingi grein fyrir stöðu umsóknar Íslands um aðild að ESB og ítrekaði mikilvægi þess að Íslendingar sjálfir fái að taka afstöðu til aðildar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann sagði að sérhvert skref til nánara samstarfs við Evrópu hafa fært Íslendingum bætt lífskjör og vakti athygli á því að í þeim ríkjum sem nýverið gengu í ESB hafi fjárfestingar því sem næst tvöfaldast; á því þyrftu Íslendingar líka á að halda til að útrýma atvinnuleysi.  Sagði ráðherra það mat færustu sérfræðinga að Ísland gæti tekið upp evruna 3 árum eftir samþykkt aðildar í þjóðaratkvæði. Í umfjöllun sinni um Evrópumálin benti utanríkisráðherra einnig á að smáríki í ESB teldu að fullveldi þeirra hefði eflst og öryggi þeirra aukist við að verða hluti af evrópsku stórfjölskyldunni og ganga til liðs við ESB. 

Í máli sínu um ályktun öryggisráðs SÞ til verndar íbúa Líbíu sagði utanríkisráðherra að aðgerðir Atlantshafsbandalagsins hefðu verið hemill á stigmögnun átakanna, og lýsti þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að ályktun 1973 veitti ekki heimild til að ráða einstaklinga af dögum. Þess vegna hefði Ísland verið meðflytjandi að tillögu um rannsókn Alþjóðaglæpamannadómstólsins sem var grunnur kæru á hendur Gaddafi einræðisherra sem birt var í morgun.

Utanríkisráðherra lauk ræðu sinni með því að fjalla um málefni Palestínu og ítrekaði stuðning við ótvíræðan rétt Palestínumanna til að búa í friði í eigin landi, lausir undan hernámi. Fyrr í ræðunni hafði ráðherra þakkað Alþingi og Íslendingum fyrir að halda árvekni sinni í mannréttindmálum í því samhengi greindi hann frá því að hann hefði í viðræðum við fulltrúa stjórnvalda í Íran hefði hann boðið írönsku konunni Ashtiani, sem írönsk stjórnvöld dæmdu til að verða grýtt til dauða, hæli á Íslandi.

Í skýrslunni sem lögð er fyrir Alþingi árlega kemur meðal annars fram að: 

  • Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu hefur gengið vel og í lok júní er stefnt að því að hefja eiginlegar samningaviðræður þegar fyrstu 4-5 kaflarnir verða opnaðir; opinber innkaup,  samkeppnismál, upplýsingasamfélagið og fjölmiðlar, vísindi og rannsóknir, og menntun og menning. Allir þessir kaflar falla undir EES-samninginn. Í skýrslunni er gerð grein fyrir stöðu undirbúnings í öllum 33 köflum viðræðnanna og næstu skrefum framundan.
  • Breið sátt hefur náðst um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða en þingsályktun þar að lútandi var nýlega samþykkt einróma á Alþingi. Í hnattrænum breytingum felast tækifæri fyrir Ísland m.a. vegna auðlindanýtingar og vaxandi skipaumferðar, en einnig ýmsar hættur sem unnið er að því að bregðast við og búa sig undir.
  • Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur sinnt yfir þúsund málum á árinu. Aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur þeirra þegar áföll verða á erlendri grundu eru eftir sem áður eitt veigamesta hlutverk sendiráða Íslands erlendis.
  • Þingsályktunartillaga um mótun þjóðaröryggisstefnu Íslands hefur verið lögð fram á Alþingi. Hún skal meðal annars taka mið af herleysi landsins, breyttu öryggisumhverfi og öryggisþörfum Íslands. Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir því hvernig öryggis- og varnarmálum hefur verið komið fyrir innan stjórnarráðsins, sem og mikilvægi  samstöðuyfirlýsingar Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála sem samþykkt var í apríl sl.
  • Ísland hefur á liðnum árum ræktað tengsl sín við vinaþjóðir á norðurslóðum, í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada, en einnig við ríki í fjarlægari heimshlutum svo sem Kína, Rússland, Japan og Indland. Stjórnmálasamskipti og viðskiptamál, þ.m.t. þekking og reynsla Íslands í nýtingu sjálfbærrar orku, hafa þar verið ofarlega á dagskrá.
  • Ötullega er unnið að framlagi Íslands til baráttunnar gegn fátækt og hungri í heiminum þrátt fyrir tímabundna erfiðleika á Íslandi og takmarkaðri fjárframlög til þróunarmála. Framlag Íslands hefur einkum falist í að miðla þekkingu á endurnýjanlegum orkugjöfum, sjálfbærum auðlindum sjávar, landgræðslu og jafnréttismálum. Áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011 til 2014 er til umfjöllunar á Alþingi og gerir hún ráð fyrir að framlög Íslands til þróunarmála fari stigvaxandi á næstu tíu árum og nái markmiði SÞ um að veita 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu til málaflokksins árið 2021. 

Skýrslu utanríkisráðherra er að finna hér.

Ræða utanríkisráðherra við upphaf umræðunnar í dag er hér

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum