Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. maí 2011 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna

OS-og-HRC-18-mai-litil
OS-og-HRC-18-mai-litil

Bandaríkin og Ísland munu hefja vinnu að viljayfirlýsingu um samstarf á sviði norðurslóðarannsókna í kjölfar fundar Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra fyrr í dag með Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Washington.  Utanríkisráðherra Bandaríkjanna lýsti jafnframt stuðningi við að ráðist verði í gerð samnings til varnar olíuslysum á norðurslóðum, en það er einn meginkjarni norðurslóðastefnu Íslendinga.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lýsti eindregnum vilja Íslendinga til að laða aðrar þjóðir, ekki síst Bandaríkin, til samstarf um að byggja upp á Íslandi alþjóðlega miðstöð á sviði leitar og björgunar í norðurhöfum og undirstrikaði nauðsyn þess í ljósi upplýsinga sem fram hafa komið um að siglingar hefjist fyrr en menn töldu í kjölfar upplýsinga um hraðari bráðnun heimskautaþekjunnar.

Össur og Clinton voru sammála um að Norðurskautsráðið ætti að vera aðalvettvangur samstarfs á norðurslóðum og lýsti íslenski utanríkisráðherrann ánægju Íslendinga með yfirlýsingu Hilary Clinton í Kanada í fyrra um að Norðurskautsráðið, fremur en svokallað fimm-ríkja samstarf, sem Ísland er ekki aðili að, ætti að verða ráðandi vettvangur um samstarf á norðurslóðum.

Clinton og Össur ræddu samstarf Íslands og Bandaríkjanna í varnar- og öryggismálum, og fór utanríkisráðherra fram á að samstarf um hryðjuverkavarnir yrði eflt eins og kveður á í yfirlýsingu ríkjanna frá árinu 2006. Eftir fundinn með Hillary Clinton sótti utanríkisráðherra fund með sérfræðingum Bandaríkjanna um hryðjuverkahættuna í heiminum.

Þá ræddu ráðherrarnir ástandið í Arabaheiminum, þróunina í Líbíu og Sýrlandi og málefni Palestínu í kjölfar samkomulags Fatah og Hamas hreyfinganna um sameiginlega stjórn. Voru ráðherrarnir sammála um mikilvægi þess að friðarferlið í Mið-Austurlöndum fari af stað hið fyrsta og að deiluaðilar sýni ítrasta vilja til samninga. Clinton gerði utanríkisráðherra einnig grein fyrir stöðu mála í Pakistan og Afganistan. 

Íslenskar og bandarískar stofnanir og fyrirtæki hafa átt í samstarfi um nýtingu jarðhita, um nokkurra ára skeið. Clinton og Össur lýstu áhuga á að auka það samstarf.

Myndskeið og texti frá upphafi fundar Clinton og Össurar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum