Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á aðalfundi Landverndar 2011

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við upphaf aðalfundar Landverndar sem haldinn var 26. maí 2011.

Kæru félagar og velunnarar Landverndar,

Umgengni okkar við landið endurspeglast með ýmsum hætti.
Hún endurspeglast meðal annars í því hvernig við nýtum okkur auðlindir þess – hvort við látum stjórnast af skammvinnum gróðasjónarmiðum og tæmum brunna jarðar svo hún standi löskuð eftir eða hvort við nýtum gæði hennar og gjafir með sjálfbærum hætti.

Umgengnin endurspeglast í því hvernig við förum um landið – hvort við skiljum eftir okkur sár sem getur tekið aldir að gróa eða stígum til jarðar með virðingu fyrir náttúrunni. Þetta á ekki síst við um akstur utan vega í viðkvæmri náttúru landsins.

Hún endurspeglast líka í virðingu fyrir öðrum lífverum sem deila jörðinni með okkur – hvort við göngum á búsvæði þeirra og þær sjálfar þannig að þær eigi sér ekki viðreisnar von eða tryggjum þeim lífvænleg skilyrði okkur öllum til heilla.

Hún endurspeglast líka í því sem við skiljum eftir okkur, hvort sem það er rusl á víðavangi, frágangur sorps, efnamengaður jarðvegur, óhreint vatn eða sú mengun sem við látum frá okkur út í andrúmsloftið. Á öllum þessum sviðum þurfum við að bæta umgengni okkar við landið eins og nýleg dæmi sanna.
Mengun frá sorpbrennslustöðvum eða einstökum verksmiðjum þarf að gefa meiri gaum en við höfum gert.

Þegar slík mál koma upp er rétt að staldra við og spyrja hvað veldur? Hvers vegna umgengni okkar við landið er svo ábótavant sem raun ber vitni? Er það af hreinni græðgi eða kemur hugsunarleysi eða þekkingarleysi við sögu? Hvað stýrir því að við erum á stundum skeytingarlaus og of værukær þegar kemur að okkar eigin umhverfi? Er eitthvað að viðhorfi okkar til náttúrunnar – eitthvað í uppeldinu sem skortir?

Vissulega er uppeldi einstaklingsbundið og því beinlínis rangt að alhæfa eitthvað um uppeldi heillar þjóðar í þessum efnum.
Hins vegar má ekki gleyma því mikilvæga hlutverki sem skólarnir gegna í umhverfisuppeldi og hið ánægjulega er að í þeim efnum höfum við á síðustu árum tekið okkur rækilega á, ekki síst fyrir tilstilli Landverndar.

Grænfánaverkefnið sem samtökin stýra hefur sannað að hægt er að ná mikilvægum árangri í þessum efnum með því að kenna þeim sem landið eiga að erfa góða umgengni við það, sem er þolinmótt langtímaverkefni.

Gott dæmi um þetta er Þjórsárskóli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en nemendur hans voru nýlega, á Degi umhverfisins útnefndir sem Varðliðar umhverfisins. Þá viðurkenningu veitir umhverfisráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur árlega grunnskólanemendum fyrir ákveðið verkefni í þágu umhverfisverndar. Nemendur Þjórsárskóla fengu viðurkenninguna fyrir útgáfu ruslabæklings sem dreift verður á öll heimili og sumarbústaði í hreppnum. Markmiðið er að auka og stuðla að skilningi á breyttu fyrirkomulagi sorphirðu í sveitarfélaginu sem ætlað er að auka endurvinnslu úrgangs. Þar er á ferð metnaðarfullt verkefni til að bæta umgengni okkar við landið.

Þar er vissulega gott umgengnismál á ferð en það er ekki það eina sem nemendur Þjórsárskóla hafa gert til að leggja sitt af mörkum til landsins og náttúrunnar því í fyrra var skólanum veitt Landgræðsluverðlaun Landgræðslu ríkisins.

Árangur Þjórsárskóla er eftirtektarverður en hann hefur tekið þátt í Grænfánaverkefni Landverndar „Skólar á grænni grein“, frá upphafi þar sem börnin fá sérstaka fræðslu um umhverfismál og öðlast þannig dýrmæta þekkingu á því sviði. Mikilvægi þess verkefnis verður seint ofmetið því fræðsla á sviði umhverfismála er grundvöllur fyrir betri umgengni við landið – það eru gömul vísindi að þekkingin leiðir til virðingar á náttúrunni sem aftur leiðir til verndunar hennar. Þess vegna er svo mikilvægt að kenna börnunum að umgangast náttúruna og landið því aðeins með breyttum umgengnisháttum er hægt að tryggja að jörðin verði byggileg um ókomna framtíð.

Mikilvægi Grænfánaverkefnis Landverndar fyrir framtíð náttúrunnar sést ekki síst á þátttökunni því 195 leik-, grunn- og framhaldsskólar á landinu eru „á grænni grein“.
56 prósent þeirra hafa þegar fengið Grænfánaviðurkenninguna en hinir stefna allir að því markmiði. Þetta er afar jákvæð þróun sem mikilvægt er að ýta undir og viðhalda. Það er því sérlega ánægjulegt fyrir umhverfisráðuneytið að hafa náð, við síðustu fjárlagagerð, að tryggja verkefninu aukna fjármuni sem gerði mögulegt að ráða aukastarfsmann til þess.

Það hefur aftur sett aukinn kraft í verkefnið sem vonandi á eftir að skila sér í breyttri og bættri umgengni framtíðarfólksins við landið sitt.

Það er ekki nægilegt að rækta landið og vernda – það er ekki síður mikilvægt að næra og rækta áhuga mannfólksins á umhverfismálum og auka þannig virðingu þess fyrir náttúrunni.
Í því gegna grasrótarsamtök á borð við Landvernd lykilhlutverki – við að efla almenna þekkingu og umræðu um umhverfismál.
Þar eru sóknarfærin fjölmörg, eins og Grænfánaverkefnið sannar. Reynslan hefur sýnt fram á nauðsyn þess að haldið sé uppi öflugu náttúruverndarstarfi, ekki síst í landi þar sem allt of lengi hefur verið litið á hreina náttúru og landgæði sem sjálfsögð. Þar skiptir miklu máli að hafa öflug náttúruverndarsamtök eins og Landvernd til að halda fána lands og umhverfis á lofti. Gangi ykkur vel í þeirri baráttu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum