Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. maí 2011 Utanríkisráðuneytið

Ísland, Evrópusambandið, norðurslóðir og Kína

Össur Skarphéðinsson skrifar:
Mér hefur fundist athyglisvert að skoða fullyrðingar ýmissa mótherja Evrópusambandsins um að umsókn okkar þjóni ekki íslenskum hagsmunum af því hún komi í veg fyrir nánari samvinnu Íslands við lönd norðurskautsins, og skaði möguleika okkar á auknum tengslum við Alþýðulýðveldið Kína. Þessu er einkum haldið fram af gildum Sjálfstæðismönnum sem hafa sumir skilgreint sig sem „innmúraða og innvígða“ og leita saumnálarleit að pólitískum rökum gegn aðild.

Báðar staðhæfingarnar eru þó rangar. Um norðurslóðir er auðvelt að sýna fram á, að umsókn um aðild að Evrópusambandinu styrkir hagsmuni Íslands á norðurslóðum. Hún dregur ekki úr tækifærum í norðrinu heldur eflir þau. Fullyrðingunni um Alþýðulýðveldið hafa Kínverjar svarað sjálfir, því aldrei hefur Kína sýnt Íslandi jafnmikinn áhuga og einmitt eftir að Alþingi samþykkti umsókn um aðild.

Hagsmunir Íslands

Bæði almenn og sértæk rök má færa fyrir að aðild Íslands að Evrópusambandinu falli vel að vaxandi hagsmunum Íslendinga á norðurslóðum.

Áhugi ESB hefur sprottið einkum af umhyggju fyrir náttúru og loftslagi. Stefna sambandsins er langt í frá fullmótuð. Því er ákjósanlegt fyrir Ísland að sækja um aðild núna, og tryggja að Ísland geti í samningaviðræðum og síðar sem aðildarþjóð haft rík áhrif á stefnu þess til að styðja við hagsmuni Íslendinga. Á leikvangi alþjóðamála er sambandið einn öflugasti málsvari loftslagsverndar og þéttra alþjóðareglna um siglingar og mengunarvarnir. Það þjónar því Íslandi að hafa afl þess á bak við hagsmuni sína í norðrinu.

Nálgun Evrópusambandsins einkennist í senn af forystuhlutverki þess um loftslagsvernd og sterkari viðleitni en flestra til að vernda hina ofurviðkvæmu náttúru norðurheimskautsins. Áhugi annarra hefur vaxið í réttu hlutfalli við auknar líkur á nýtingu olíu og gass. Nálgun ESB gagnvart norðurslóðum slær hins vegar nákvæmlega í takt við hina íslensku afstöðu: Kapp er best með forsjá.

Sameiginlegar þarfir

Hinir sértæku hagsmunir, sem Ísland á sameiginlega með Evrópusambandinu, eru margvíslegir. Fyrir okkur er brýnt að styrkja Norðurskautsráðið sem vettvang fyrir sameiginlega stefnumótun um hagsmuni á norðurslóðum. Við höfum lagst gegn hinu svokallaða fimm-ríkja samráði, sem efnt hefur verið til án þátttöku Íslands. Það kynni að muna um bakfisk Evrópu í sókn fyrir málstað Íslands.

Fyrir Íslendinga skiptir gríðarmiklu að ráðist verði sem allra fyrst í alþjóðlegan samning um varnir gegn afleiðingum olíuslysa, ekki síst þar sem pólsiglingar eru taldar hefjast fyrr en áður. Þar eigum við sameiginlegar þarfir með Evrópu. Fyrir brýna hagsmuni Íslands varðar því miklu að hafa liðsinni hennar til að þrýsta á um slíka samninga.

Sama gildir um uppbyggingu alþjóðlegrar björgunarmiðstöðvar á Íslandi. Sambandið skiptir meginmáli um ýmiss konar svæðasamvinnu við uppbyggingu flutninganeta, s.s. hafnir, gervihnattaeftirlit og viðbrögð við vá. Innan þess ættum við því bæði móralska og efnislega kröfu á stuðning við alþjóðlega björgunargetu á Íslandi.

Auðlindarökin og Eva Joly

Þeir sem mest styggð kemur að vegna Evrópusambandsins sarga stundum á því að bak við velvild Evrópu liggi svartar hvatir ágirndar á auðlindum Íslendinga. Það er þó fjarri veruleikanum.

Ekkert í reglum sambandsins leiðir til þess að möguleikar evrópskra fjárfesta til að sælast í orkuna í fallvötnum eða háhitasvæðum Íslands ykjust við aðild. Ekki töpuðu Bretar og Írar olíulindum sínum í Norðursjó. Um lifandi auðlindir í hafinu gildir regla, sem kennd er við hlutfallslegan stöðugleika. Hún þýðir á mæltu máli að ríki Evrópusambandsins geta ekki gert kröfu um aflaheimildir nema þau byggi á sögulegri veiðireynslu. Henni er ekki til að dreifa í tilviki nokkurrar þjóðar síðustu 35 árin eða svo.

Besta vitnið um þetta er þó kannski norska konan sem situr fyrir franska græningja á Evrópuþinginu; Eva Joly. Í Silfrinu fyrr í vetur vísaði hún algjörlega á bug að Evrópuríkin myndu hvoma í sig auðlindir Íslands. Frú Joly, sem mælti eindregið með aðild var ómyrk: Við hvorki getum né viljum taka auðlindir ykkar.

Alþýðulýðveldið og Ísland

Skondnast er að heyra þá sem eytt hafa ævi í að berjast gegn kommúnistastjórnum, og uppalninga þeirra á Alþingi, fjargviðrast yfir að nánari tengsl við Evrópu myndu torvelda framtíðarviðskipti Íslands og Kína. Sú fjöður stendur í þeim fugli, að í gangi eru fríverslunarsamningar við Kína, en ganga hægt. Íslendingar vilja ekki fallast á tímabundna frjálsa för kínversks vinnuafls til Íslands enda atvinnuleysi úr hófi keyrt, og Kínverjar ekki á kröfur fiskiþjóðarinnar um tafarlaust tollfrelsi á fiski. Tvær vinaþjóðir gætu þó lokið þeim handlegg. En gengju samningar til lúkningar, myndi aðild að ESB leysa þá upp og fríverslun milli Íslands og Kína tækist ekki fyrr en samningar næðust milli Alþýðulýðveldisins og sambandsins.

Berum nú saman blákalda hagsmuni. Þegar hefðbundnar tölur um viðskipti eru skoðaðar sést að 0,6% af öllum útflutningi okkar fer til Kína en 77,6% til ríkja ESB. Hér er meira en sjónarmunur þó líklegt sé að fríverslun bætti smám saman í útflutning til Kína. Inn í þennan reikning ber að taka þá reynslu smærri þjóða að erlendar fjárfestingar stóraukast við aðild, einkum úr ríkjum Evrópu. Það er skýrt hvert hagsmunavogin hallast.

Aðild útilokar hins vegar fráleitt aukin viðskiptatengsl við Kína. Það er undirstrikað af stóraukinni áherslu Kínverja á fjárfestingar í löndum Evrópu. Enginn þarf að tapa svefni vegna kvíða fyrir því að aðild fæli stórveldið frá Íslandi.

Ólygnastur er þó veruleikinn. Hann segir okkur, að aldrei hafa Kínverjar haft uppi jafnsterka viðleitni til að efla tengsl á sviði viðskipta og einmitt eftir að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu.


Grein utanríkisráðherra í Vísi 28. maí 2011 (pdf).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum