Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

100. þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO)

Í dag 1. júní 2011 var þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), alþjóðavinnumálaþingið, sett í 100. skiptið. Ekki er um að ræða afmæli stofnunarinnar en ákvörðun um koma henni á laggirnar var tekin við undirritun friðarsamninganna í Versölum árið 1918. Ári síðar tók Alþjóðavinnumálastofnunin til starfa. Hún varð ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna árið 1946. Sérstaða hennar felst í aðild fulltrúa ríkisstjórna, samtaka atvinnurekenda og launafólks að stjórn, nefndum og ráðum stofnunarinnar. Á tíu ára fresti eru haldin aukaþing sem helguð eru málefnum sjómanna. Það skýrir misræmið á milli aldurs stofnunarinnar og fjölda vinnumálaþinga.

Verkefni Alþjóðavinnumálaþingsins er afgreiðsla samþykkta á sviði félags- og vinnumála. Á starfstímanum hefur þingið afgreitt hátt í 200 samþykktir. Ekki eru allar í gildi þar sem nýjar hafa leyst eldri af hólmi. Með fullgildingu samþykktar fellst ríkisstjórn á að framkvæma efni hlutaðeigandi samþykktar og að eftirlit sé haft með framkvæmdinni. Þetta eftirlit er annað meginhlutverk alþjóðavinnumálaþingsins. Samþykktir stofnunarinnar hafa orðið fyrirmynd setningar laga um almannatryggingar, lengd vinnutíma, jafnrétti karla og kvenna í atvinnulífinu, um vinnuumhverfi og vinnu barna. Alþjóðavinnumálastofnunin hefur skilgreint átta samþykktir sem grundvallarsamþykktir stofnunarinnar. Þær eru nr. 29 um nauðungarvinnu eða skylduvinnu, nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess, nr. 98 um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega, nr. 100 um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafn verðmæt störf, nr. 105 um afnám nauðungarvinnu, nr. 111 um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs, nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu, og nr. 182 um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana.

Helstu málefni 100. alþjóðavinnumálaþingsins er skipulag og stjórnarhættir vinnumála- og vinnueftirlitsstofnana. Fyrir þinginu liggja drög að nýrri alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði þjónustufólks á heimilum. Einnig verður fjallað um framkvæmd samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um almannatryggingar. Búist er við að þingið sæki rúmlega 5.000 þingfulltrúar ríkisstjórna, samtaka atvinnurekenda og samtaka launafólks.

Ýmsir þjóðarleiðtogar munu sækja 100. alþjóðavinnumálaþingið. Fyrst í þeim hópi var Tarja Hallonen, forseti Finnlands, sem flutti ávarp við þingsetninguna í morgun. Auk hennar hefur Vladimir Putin, forsætisráðherra Rússlands, og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, verið boðið að ávarpa þingið en því lýkur 17. júní næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum