Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. júní 2011 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin samþykkir tímasetta áætlun helstu aðgerða Ísland 2020 áætlunarinnar

Ísland 2020 – sókn fyrir atvinnulíf og samfélag
Ísland 2020 – sókn fyrir atvinnulíf og samfélag

Á fundi sínum í gær samþykkti ríkisstjórnin skipulag, tímaáætlun og vinnulag þriggja aðgerða í tengslum við Ísland 2020. Um er að ræða sóknaráætlanir landshluta, fjárfestingaáætlun til lengri tíma og einföldun, fækkun og samþættingu opinberra stefna og áætlana. Ríki og sveitarfélög munu vinna náið saman að uppbyggingu og forgangsröðun fjárfestingaverkefna í landshlutum. Ríkisstjórnin væntir þess að ofangreind verkefni leiði til aukinnar valddreifingar, jöfnuðar og gangsæis, styrkari landshluta og aukins samráðs, sem og skilvirkni við meðhöndlun almannafjár.

Sóknaráætlanir landshluta

Ríkisstjórnin samþykkti að sóknaráætlanir landshluta 2012-2020 verði unnar á tímabilinu júní 2011 til mars 2012. Áætlanirnar verði í samræmi við Ísland 2020 og stefnumótandi byggðaáætlun, þar sem dregin verður fram forgangsröðun helstu verkefna á næstu árum í einstökum landshlutum. Ríkið stendur sameinað að verkefninu og eins þurfa landshlutarnir að samhæfa forgangsröðun í héraði. Innanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið halda utan um vinnuna að hálfu ríkisins og kalla til önnur ráðuneyti eftir viðfangsefnum. Með valddreifingu eins og sóknaráætlanir landshluta gera ráð fyrir er sveitarstjórnarmönnum og hagsmunaaðilum í landshlutum gefið aukið vægi og færi á þátttöku í ákvarðanatöku um forgangsröðun verkefna í hverjum landshluta til framtíðar.

Fjárfestingaráætlun

Ríkisstjórnin samþykkti undirbúning að gerð fjárfestingaáætlunar 2013-2020. Hún tekur mið af samþættum opinberum stefnum og áætlunum ríkisins og sóknaráætlunum landshluta 2012-2020. Áætlunin verður tilbúin haustið 2012 samhliða fjárlagavinnu fyrir árið 2013. Fjármálaráðuneytið ber ábyrgð á gerð hennar í samvinnu við öll ráðuneyti.

Samþætting og einföldun opinberra stefna og áætlana

Ríkisstjórnin samþykkti að allar viðameiri stefnur og áætlanir ríkisins verði einfaldaðar og samþættar með það að leiðarljósi að þær verðir grunnur að forgangsröðun fjármuna til lengri tíma. Forsætisráðuneytið í samvinnu við önnur ráðuneyti ber ábyrgð á þessari vinnu og er ætlunin að tillögur liggi fyrir fyrri hluta árs 2012.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum