Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. júní 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Alþjóðlegur dagur umhverfisins á sunnudag

Birkiskógur.
Birkiskógur.

 

Alþjóðlegum degi umhverfisins (World Environment Day – WED) er fagnað um víða veröld á sunnudag, 5. júní þar sem fólk er hvatt til að grípa til einhvers konar aðgerða til hagsbóta fyrir umhverfið. 

Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1972 og hefur síðan orðið eitt helsta tæki Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) til að auka skilning almennings en einnig til að vekja athygli stjórnmálamanna á umhverfismálum og hvetja þá til aðgerða.

Að þessu sinni er alþjóðlegur dagur umhverfisins tileinkaður skógum, enda er árið 2001 tileinkað skógum af Sameinuðu þjóðunun á alþjóðavísu. Skógar þekja einn þriðja af landi jarðar og sjá okkur fyrir lífsnauðsynlegri þjónustu á hverjum degi fyrir utan þá staðreynd að um 1,6 milljarður manna hafa skóga að daglegu lifibrauði sínu. Skógarnir gegna aukinheldur lykilhlutverki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

UNEP notar alþjóðlegan dag umhverfisins til að færa umhverfismálin nær einstaklingunum, ekki aðeins svo hver og einn átti sig á ábyrgð sinni í þessum efnum heldur einnig svo fólk geri sér grein fyrir eigin valdi til breytinga í þágu sjálfbærrar þróunar.  

Hvetur stofnunin alla sem vettlingi geta valdið til að nýta sér daginn til aðgerða í þágu umhverfisins, hvort sem það felur í sér að kalla saman nágrannana til að gera vorhreingerningu í hverfinu, hætta að nota plastburðarpoka og hvetja aðra til hins sama, planta tré eða jafnvel skipuleggja hópferð til gróðursetningar, koma sér upp sorpflokkunarkerfi eða einfaldlega ganga í vinnuna í stað þess að nota einkabílinn. Möguleikarnir eru endalausir.

Á heimasíðu WED er fjallað nánar um daginn sem og fleiri tillögur að uppbyggilegum aðgerðum fyrir umhverfið auk ítarlegri umfjöllun um þema dagsins, skógana.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum