Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. júní 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ábyrgð framleiðenda skýrð

Raftenglar.
Raftenglar.

  

Breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs samþykktar

Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á úrgangi vegna raf- og rafeindatækja er skýrð frekar og framkvæmdin gerð markvissari með breytingum á lögum nr 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sem Alþingi samþykkti á dögunum. Þá eru í lögunum nýmæli um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði, ráðherra skal gefa út landsáætlun um meðhöndlun úrgangs og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga fá aukið hlutverk við útgáfu starfsleyfa varðandi meðhöndlun úrgangs.

Töluverðar breytingar eru á því fyrirkomulagi sem gilt hefur um raf- og rafeindatækjaúrgang frá 1. janúar 2009.  Öll raf- og rafeindatæki falla nú undir lögin og tollafgreiðsla vöru sem undir lögin falla verður háð því að framleiðandi og innflytjandi eigi aðild að skilakerfi. Komið er á jöfnunarkerfi á milli skilakerfa til að tryggja hagræði í söfnun úrgangs um allt land og stjórn Úrvinnslusjóðs mun  fara með hlutverk stýrinefndar raf- og rafeindatækjaúrgangs.

Í lögunum eru einnig ákvæði um ábyrgð framleiðenda á söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma. Meðal annars er verslunum skylt að taka við gömlum rafhlöðum og rafgeymum þegar ný rafhlaða eða rafgeymir er keyptur.

Samkvæmt lögunum munu heilbrigðisnefndir sveitarfélaga sjá um útgáfu starfsleyfa fyrir meðhöndlun úrgangs nema starfsleyfum fyrir förgunarstöðvar og starfsleyfum fyrir meðhöndlun spilliefna sem Umhverfisstofnun mun áfram gefa út.

Ráðuneytið, í stað Umhverfisstofnunar áður, mun gefa út til tólf ára í senn almenna áætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir landið allt. Áætlunin skal miða að því að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu. Í áætluninni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála í landinu og aðgerðir eða stefnumörkun til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun

Breytingarnar eru gerðar til að innleiða Evróputilskipanir nr. 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði, tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og þann hluta tilskipun 2008/98EB um úrgang sem fjallar um úrgangsáætlanir.

Samhliða þessum breytingum hafa verið gerðar breytingar á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Þær fela í sér  að umhverfisráðherra er m.a. heimilt að setja í reglugerð ákvæði um  lágmarksmarkmið um endurheimt drykkjarvöruumbúða, endurnýtingu og endurnotkun þeirra svo og um eftirlit með því að sett markmið náist.

Lög um meðhöndlun úrgangs.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum