Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. júní 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 9. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn föstudaginn 10. júní 2011, kl. 8:30, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6, 1. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar og Páll Þórhallsson (PÞ) skipaðir af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ), fulltrúar BHM, BSRB og KÍ. Kristín Ástgeirsdóttir boðaði forföll og Magnús Pétursson var fjarverandi.

Lögð fram samantekt JÓ á athugasemdum og tillögum að breytingum á drögum að siðareglum sem unnið var með á vinnustofum í mars og apríl. Að hans mati tókst vel að virkja þátttakendur og greinilegt að raunhæfu dæmin um siðferðileg álitamál vöktu menn til umhugsunar.

Samkvæmt samantektinni voru litlar athugasemdir gerðar við fyrsta kaflann sem fjallar um hagsmunatengsl og hagsmunaárekstra. Þó var bent á að í fyrstu málsgrein þyrfti að taka fram að ráðuneytisstjórar ættu að upplýsa ráðherra um fjárhag og mögulega hagsmunaárekstra. Fundarmenn voru sammála um að með næstu drögum að siðareglum þyrfti að fylgja greinagerð þar sem  m.a. væri skýrt að reglunum væri ekki ætlað að taka á öllum tilvikum sem upp geta komið heldur væri tilgangurinn frekar sá að gera fólk meðvitað um að hagsmunatengsl hverskonar geta dregið úr trúverðugleika. Tveir hópar voru með tillögur um tilfærslur einstakra liða í öðrum kafla en ekki var tekin afstaða til þess á fundinum. Í kaflanum um hegðun og framgöngu var m.a. sett spurningamerki við orðalagið „virkur samstarfsvilji“ í fyrstu málsgrein og spunnust nokkrar umræður um það og þá sérstaklega hvað varðar upplýsingagjöf til þingmanna. Ábending um að það væri óþarft að taka fram að hlunnindi eigi að telja fram til skatts þótti skynsamleg og var ákveðið að taka þá setningu út úr þriðju málsgrein.

Ekki gafst tími til að fara yfir kafla 4-6 og því er stefnt að fundi eftir u.þ.b. hálfan mánuð.

Fundi slitið kl. 10.15.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum