Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. júní 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á 10 ára afmæli þjóðgarðsins Snæfellsjökuls

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra ávarpaði gesti með eftirfarandi orðum á 10 ára afmælishátíð þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem haldin var að Hellnum 28. júlí 2011. 

Þjóðgarðsvörður og aðrir starfsmenn þjóðgarðsins, heimamenn og gestir.

Það er mér mikil ánægja að vera hér í dag á 10 ára afmæli þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, hér Undir Jökli, svæði sem margir hafa tengt við fleyg orð Nóbel-skáldsins í Heimsljósi ....Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þess vegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.

Nóbelsskáldið sem svo oft hefur lýst sérstöðu og fegurð íslenskrar náttúru í ritverkum sínum ljáði sögupersónu sinni Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi þessi fleygu orð um Snæfellsjökul fyrir rúmlega 70 árum. Á þeim tíma í aðdraganda heimsstyrjaldar voru fáir ef nokkur sem þá sáu fyrir sér nauðsyn þess að taka frá einstök náttúrusvæði til að vernda og varðveita fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir.

Það er ekki fyrr en eftir setningu laga um náttúruvernd árið 1971 að Náttúruverndarráð, undir forystu Eysteins Jónssonar, fjallaði um friðlýsingu á ytri hluta Breiðavíkurhrepps.

Á fyrsta Náttúruverndarþingi árið 1972 var ályktað um stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi og í kjölfar þingsins vann Náttúruverndarráð að stofnun þjóðgarðs eða annarri friðlýsingu á þessu svæði.

Fimm árum síðar var lögð fram tillaga að friðlandi undir Jökli og lagt til að verndarsvæðið nái frá Gjafa í suðri meðfram ströndinni norður að ósi Gufuskálamóðu og fylgi Gufuskálamóðu og Móðulæk að upptökum, meðfram brúnum Snæfellsjökuls og fylgi austurjaðri Háahrauns og þaðan beint til suðurs í Gjafa. Var þessari hugmynd mótmælt af m.a. hreppsnefndarmönnum sem höfðu áhyggjur að því að með friðlýsingu færi forgörðum mikilvægt beitarland.

Hugmynd um friðlýsingu á utanverðu Snæfellsnesi miðaði hægt næstu árin og er það ekki fyrr en árið 1994 að skriður komst á málið. Það ár skipaði þáverandi umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, undirbúningsnefnd að stofnun þjóðgarðs, sem var undir forustu Sturlu Böðvarssonar. Sú nefnd skilaði ráðherra skýrslu þremur árum síðar um stofnun þjóðgarðs.

Smiðshöggið að stofnun þjóðgarðsins Snæfellsjökuls átti starfshópur sem Siv Friðleifsdóttir skipaði árið 2001 undir forustu Stefáns Jóhanns Sigurðssonar sem leiddi til stofnunar þjóðgarðsins á björtum sumardegi fyrir 10 árum.

Fullyrða má að einlægur vilji heimamanna vorið 2001 á verndun svæðisins Undir Jökli hafi ráðið hvað mestu um stofnun þjóðgarðsins. Verndarsvæði eins og þjóðgarðurinn eru stássstofur þjóðarinnar og þangað bjóðum við gestum okkar uppá það besta í náttúrufari og sögu. Þjóðgarðar eru stofnaðir á landi sem er sérstætt um landslag, lífríki eða sögu þannig að ástæða sé til að varðveita það í heild sinni. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hefur upp á allt þetta að bjóða. Náttúrufegurð er mikil og fjölbreyttar hraunmyndanir við rætur eldkeilunnar. Þrátt fyrir að jarðvegur sé víða gljúpur og haldi illa vatni er gróðurfar fjölbreytilegt allt frá fjöru til fjalls.

Þjóðgarðar eru vinsælir áfangastaðir ferðamanna og í þeim gegna landverðir lykilhlutverki við að fræða og leiðbeina gestum, bæði innlendum og erlendum sem sækja svæðið heim og getur sjálfbær ferðaþjónusta skapað störf til framtíðar og styrkt byggð og uppbyggingu heima í héraði.

Á verndarsvæðum gefst fólki ekki síður tækifæri til að njóta útiveru í fögru og stórbrotnu umhverfi, reyna á krafta og þol eða njóta kyrrðar eitt sér eða með fjölskyldu og vinum.

Góðir gestir

Á þeim 10 árum sem liðin eru frá stofnun þjóðgarðsins hafa heimamenn og starfsmenn þjóðgarðsins unnið að fjölmörgum metnaðarfullum verkefnum. Sem dæmi má nefna verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn sem hefur verið staðfest, gerð fræðsluefnis fyrir þjóðgarðinn, lagfæring á göngustígum, uppsetning merkinga og fræðsluskilta, vefsjá, gestastofa og fleira og fleira.

Þá hefur Þjóðgarðurinn verið í samstarfi við aðrar stofnanir og fyrirtæki og tekið þátt í margvíslegum samstarfsverkefnum með það að markmiði að upplýsa og fræða gesti á öllum aldri um sérstöðu þjóðgarðsins.

Starfsmenn þjóðgarðsins hafa allir hrifist af Malarrifssvæðinu og sjá þar mikla möguleika. Sú hugmynd hefur komið upp að gera þar aðstöðu fyrir skólahópa og fjölskyldur þar sem leikur og fræðsla fer saman. Eitt mikilvægasta verkefni okkar er að fræða börn og ungmenni um sérstöðu landsins, náttúru og sögu. Það getur skipt sköpum við ákvarðanatöku í framtíðinni ef börn og ungmenni hafa fengið tækifæri til að kynna sér þær náttúruperlur sem landið hefur uppá að bjóða, ... Hvað ungur nemur, gamall temur!!

Það er mér því mikið ánægjuefni að geta þess hér að ég mun beita mér fyrir því að 10 milljónum verði veitt í fræðsluverkefnið á Malarrifi í tilefni 10 ára afmælisins þannig að verkefninu verði búin sú umgjörð sem stefnt var að þegar í byrjun næsta sumars.

Ég óska þjóðgarðinum og starfsmönnum til hamingju með afmælið og áfangann og velfarnaðar í framtíðinni.

Takk fyrir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum