Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. júlí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lögum um orlof og fæðingar- og foreldraorlof breytt í samræmi við athugasemdir ESA

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi nýlega frá sér tilkynningar með athugasemdum við ákvæði laga um orlof og fæðingar- og foreldraorlof. Frumvörp til breytinga á lögunum í samræmi við athugasemdirnar voru lögð fyrir Alþingi snemma í vor.

Athugasemdir ESA varðandi fæðingarorlof snúast um að í gildandi lögum hefur verið sett það skilyrði að foreldri skuli hafa verið virkt á hérlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti einn mánuð áður en til greina kemur að leggja þann tíma við starfstíma í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og meta til fæðingarorlofsréttinda.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra mælti í vor fyrir frumvarpi til breytinga á lögunum þar sem brugðist er við þessum athugasemdum. Meginreglan verður áfram sú að foreldri skuli hafa verið a.m.k. einn mánuð á innlendum vinnumarkaði áður en fæðingarorlof hefst en sé um skemmri tíma að ræða skuli Vinnumálastofnun meta hvert tilvik fyrir sig út frá því hvort taka skuli tillit til starfstímabila foreldris í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Í frumvarpinu er einnig lögð til innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins sem kveður á um lengra foreldraorlof en lögin gera nú ráð fyrir.

Athugasemdir ESA við lög um orlof snúa að rétti starfsmanna til töku orlofs í kjölfar veikinda. Í gildandi orlofslögum er það áskilið að starfsmaður sem hefur þurft að breyta tilhögun orlofs vegna veikinda skuli hafa lokið orlofstöku 31. maí næsta ár á eftir, ellegar fá orlof sitt greitt út. Velferðarráðherra mælti í vor fyrir frumvarpi til breytinga á lögunum þar sem kveðið er á um rýmri rétt starfsmanna hvað þetta varðar til samræmis við athugasemdir ESA. Lagt er til að þessu ákvæði verði breytt þannig að starfsmaður geti í samráði við atvinnurekanda ákveðið orlofstökuna svo fljótt sem auðið er eftir að veikindum lýkur.

Guðbjartur segist ekki eiga von á öðru en að frumvörpin verði að lögum þegar þing kemur saman í haust. Hann segir að búið hafi verið að upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA um framlagningu frumvarpanna og að í þeim væri komið til móts við athugasemdir stofnunarinnar. Því komi honum nokkuð á óvart að stofnunin sendi frá sér tilkynningar með athugasemdum þegar henni sé ljóst að þessi mál séu til meðferðar á Alþingi. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum