Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. júlí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Díoxín í jarðvegi í öllum tilfellum undir mörkum – ekki hætta fyrir almenning og lífríki

Ljósmynd: Hugi Ólafsson.
Vestmannaeyjar.

Díoxín í jarðvegi er í öllum tilvikum undir þeim mörkum sem kalla á takmarkanir á nýtingu, hreinsun jarðvegs eða geta skapað hættu fyrir almenning og lífríki. Þetta eru meginniðurstöður mælinga sem Umhverfisstofnun lét gera á styrk díoxína í jarðvegi um allt land.

Niðurstöðurnar sýna að almenningur þarf ekki að hafa áhyggjur af því að rækta í jarðvegi, tína ber eða nýta aðrar náttúruafurðir. Búið er að loka sorpbrennslunni Funa í Engidal og mun því ekki verða meiri uppsöfnun á díoxínum í jarðvegi af hennar völdum.

Við sorpbrennsluna í Vestmannaeyjum mældist styrkur díoxína í jarðvegi á bilinu 5-40 pg/g og þarf að mati Umhverfisstofnunar að draga úr losun díoxína þar til að koma í veg fyrir frekari uppsöfnun.

Á tveimur brennustæðum, í Vestmanneyjum og Skutulsfirði, mældist  styrkur díoxína í jarðvegi á bilinu 5 – 40 pg/g. Samkvæmt þýskum umhverfismörkum sem Umhverfisstofnun styðst við skal brugðist við slíkum styrk díoxíns með því að finna uppsprettu losunarinnar og takmarka losun frá henni en ekki er talin þörf á því að takmarka nýtingu eða skipta um jarðveg. Mun Umhverfisstofnun beina þeim tilmælum til heilbrigðisnefnda að efniviður umræddra brenna sé þannig að sem minnst verði til af díoxínum við brunann.

Alls voru tekin 50 sýni í nágrenni við allar hugsanlegar uppsprettur díoxína, s.s. sorpbrennslna, stóriðju og áramótabrenna auk viðmiðunarsýna, en sýnatakan fór fram seinnihluta maímánaðar.

Ekki heilsufarsleg áhrif

Þá sýndu niðurstöður nýlegrar rannsóknar Landlæknisembættisins á blóð- og mjólkursýnum frá íbúum á Ísafirði, Skutulsfirði, Reykjavík, Vestmannaeyjum og Kirkjubæjarklaustri að öll gildi díoxíns í fólki reyndust vera vel undir þeim mörkum sem ætla má að geti haft heilsufarsleg áhrif.  Um litla hækkun díoxíns var að ræða hjá nokkrum starfsmönnum brennsluofnanna og hjá þeim sem búið hafa nálægt brennsluofninum í Skutulsfirði.

Frétt Umhverfisstofnunar um niðurstöður mælinga á díoxíni í jarðvegi.

Greinargerð Umhverfisstofnunar um mælingar á díoxíni.

Frétt Landlæknisembættisins um niðurstöður mælinga á díoxíni í fólki.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum